Áfram Akureyri - fyrir okkur öll
Börnin okkar
Stöndum vörð um hag barnanna okkar, einkum þeirra barna sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.
- Tryggjum öllum börnum pláss á leikskóla eða hjá dagforeldri frá 12 mánaða aldri. Lækkum í kjölfarið leikskólagjöld
- Reisum nýjan leikskóla þar sem þörfin er mest og hefjum strax undirbúning að nýjum leikskóla til að þjónusta ný hverfi
- Förum í aðgerðir til að útrýma sárafátækt
- Ónýttir frístundastyrkir renni í sjóð sem nýttur verður til að styrkja börn og ungmenni sem njóta ekki skipulags frístundastarfs
- Aukum faglegan stuðning í grunn- og leikskólum
- Stöndum vörð um og eflum faglegt starf og starfsaðstæður í leik- og grunnskólum í samráði við starfsfólk
- Leggjum áherslu á að standa vel að móttöku barna með íslensku sem annað tungumál
- Vinnum af fullum þunga til að fyrirbyggja einelti innan grunnskólanna
- Áhersla verður lögð á hvers konar forvarnir fyrir börn og unglinga
- Tryggjum fullt starf námsráðgjafa fyrir hverja 300 nemendur
- Höldum áfram með verkefnið „Barnvænt sveitarfélag“
Framúrskarandi í umhverfis- og loftslagsmálum
Akureyrarbær hefur í gegnum tíðina rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög á landinu á sviði umhverfismála. Við viljum að Akureyrarbær haldi áfram á þeirri braut og festi sig í sessi sem sveitarfélag í fremstu röð í umhverfis- og loftslagsmálum hér á landi og stuðli að því að þau sem hér búa og starfa geti lifað og starfað í sátt við umhverfi og loftslag.
- Drögum markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda og aukum kolefnisbindingu
- Leggjum grunn að nauðsynlegum orkuskiptum
- Hættum að sætta okkur við að svifryksmengun fari yfir heilsuverndarmörk
- Tökum upp samgöngustyrki til starfsfólks Akureyrarbæjar sem nýtir vistvæna samgöngumáta til að ferðast til og frá vinnu
- Gerum strætó að eftirsóknarverðum samgöngumáta
- Setjum fullan þunga í uppbyggingu hjóla- og göngustíga
- Akureyrarbær verði þáttakandi í verkefni ríkisins sem kallast „græn skref“
- Könnum til hlítar kosti þess að koma á laggirnar líforkuveri og breytum úrgangi í verðmæti
- Verum áfram í fremstu röð í úrgangs- og sorpmálum
- Leggjum áherslu á fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál
- Styðjum áfram við starfsemi Eims og Vistorku
- Leggjum áherslu á að skapa aðstæður sem gerir fólki kleift að nýta aðra samgöngumáta til jafns við einkabílinn
Öflugt eldra fólk
Stuðlum að því að eldra fólki sé gert kleift að vera virkt, ánægt og að það búi við öryggi á öllum sviðum samfélagsins. Akureyri á að vera aldursvænn bær þar sem gott er að verja efri árunum.
- Frítt í sund fyrir 67 ára og eldri
- Lækkum verð á hádegismat í félagsmiðstöðvum
- Förum í verkefnið „virk efri ár“ með áherslu á heilsueflingu í fyrsta áfanga
- Leggjum áherslu á að tekið sé tillit til eldra fólks í þjónustu, skipulagi og starfi sveitarfélagsins
- Verðum aldursvænt sveitarfélag, með það að markmiði að tekið sé tillit til eldra fólks í þjónustu, skipulagi og starfi sveitarfélagsins
- Eflum starf félagsmiðstöðva fólksins í samráði við eldra fólk með áherslu á alhliða heilsueflingu og félagsstarf
- Tryggjum öllu eldra fólki húsnæði við hæfi
- Styðjum við þróun á velferðartækni og innleiðingu nýjunga sem létta lífið
- Heimaþjónusta sé fjölbreytt og sveigjanleg og unnin í samráði við þau sem þjónustunnar njóta
- Söfnum upplýsingum og kortleggjum líðan og velferð eldra fólks og nýtum gögnin til að gera betur
- Leggjum áherslu á samhæfingu í heimaþjónustu á vegum sveitarfélagsins og heimahjúkrun á vegum ríkisins
- Höldum áfram að vinna með mælanlega og tímasetta aðgerðaráætlun í málefnum eldra fólks, þar sem áhersla er lögð á heilsueflingu í fyrsta áfanga
- Allar upplýsingar um þjónustu við eldra fólk verði aðgengilegar á einum stað
Velferð og vellíðan
Stuðlum að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar og tryggjum fjárhagslegt og félagslegt öryggi þeirra. Bætum lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og vinnum markvisst í að stytta biðlista eftir þjónustu. Sköpum samfélag þar sem við tökum tillit til fjölbreyttra og ólíkra þarfa íbúa, þannig að öll fái notið sín.
- Tryggjum að gjaldtaka fyrir þjónustu sé hófleg og tekið sé tillit til félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna við ákvörðun gjalda, afslátta og styrkja
- Hækkum fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins
- Höldum áfram að leggja sérstaka áherslu á málefni barna og ungmenna, fatlaðs fólks, aldraðra og öryrkja
- Tryggjum nægilegt framboð félagslegra leiguíbúða á vegum sveitarfélagsins
- Útrýmum sárafátækt
- Könnum til hlítar þörf fyrir opnun fjölskylduhúss
- Tryggjum fötluðu fólki húsnæði við hæfi
- Leggjum áherslu á fjölbreytta atvinnumöguleika fatlaðs fólks
- Vinnum markvisst gegn ofbeldi, sérstaklega kynbundnu ofbeldi, ofbeldi gegn börnum, fötluðum og öldruðum
- Leggjum áherslu á að fyrirbyggja geðrænan vanda með snemmtækri íhlutun.
- Römpum upp Akureyri!
- Stefnum markvisst að því að bæta aðbúnað og starfsumhverfi starfsmanna sveitarfélagsins
- Leggjum áherslu á að bæta umferðaröryggi
- Stöndum vörð um mikilvægar ríkisstofnanir á svæðinu s.s. Háskólann á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri, framhaldsskólana og heilsugæsluna
- Aukum stuðning við Súlur, björgunarsveit sem gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu
- Styðjum við verkefnið Frú Ragnheiður á vegum Rauða krossins
- Fötluðu fólki og fjölskyldum fatlaðra barna skulu standa til boða fjölbreytt stuðningsúrræði sem auka lífsgæði
Fjölbreytt og skemmtilegt samfélag
Leggjum áherslu á fjölbreytileika og gleði í samfélagi sem við öll tilheyrum
- Komum á verkefninu Betri Akureyri
- Heimilum frjálsa útiveru hjá kisum á sama tíma og við endurskoðum og framfylgjum reglum um gæludýrahald
- Förum í samstarf um rekstur dýraathvarfs í heppilegu húsnæði.
- Gerum göngugötuna að göngugötu
- Byggjum upp lífleg almannarými með áherslu á náttúruna og mannvænt umhverfi.
- Skoðum leiðir til að auka valkosti í matarframboði stofnana
- Fjölgum viðburðum sem lífga upp á tilveruna
- Förum í hreinsunarátak, fegrum bæinn með markvissum aðgerðum og viðhöldum hreinum og snyrtilegum bæ
- Fegrum Búðargilið
- Ráðumst í kynningarátak fyrir fólk af erlendum uppruna á tækifærunum sem felast í því að búa og starfa á Akureyri.
- Vinnum móttökuáætlun fyrir nýja íbúa sveitarfélagsins, innlenda sem erlenda. Nýir íbúar fái kynningarpakka með mikilvægum upplýsingum
Mannréttindi sem leiðarljós
Leggjum áherslu á fjölbreytileika og gleði í samfélagi sem við öll tilheyrum
- Tökum vel á móti flóttafólki með fagmennsku og mannúð að leiðarljósi
- Gerum samning við Samtökin 78 um fræðslu og ráðgjöf til starfsmanna Akureyrarbæjar, nemenda í grunnskólum og bæjarbúa
- Vinnum gegn staðalímyndum innan þjónustustofnana og gagnvart notendum þjónustunnar
- Leggjum áherslu á markvissa upplýsingagjöf til ólíkra hópa samfélagsins
- Stóreflum íbúasamráð, með sérstakri áherslu á samráð við öldungaráð, ungmennaráð, samráðshóp um málefni fatlaðs fólks, fjölmenningarráð og hverfisnefndirnar
- Ráðumst í markvissar aðgerðir til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við ráðstöfun fjármagns, í þjónustu og starfsmannamálum
- Vinnum að samþættingu mannréttindasjónarmiða og tryggjum jöfnuð án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúar, lífsskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu
- Stöndum vörð um öflugt stuðningsnet með áherslu á þau sem standa höllum fæti
Íþrótta- og frístundabær í fremstu röð
Leggjum áherslu á að íþróttir- og frístundir stuðli að auknum jöfnuði, lýðheilsu og gleði fyrir öll. Horfum til mikilvægi íþróttahreyfingarinnar fyrir atvinnulífið og samkeppnishæfni svæðisins.
- Komum á fót frístundastrætó og drögum úr skutlinu
- Ljúkum uppbyggingu á KA svæðinu
- Byggjum nýtt þjónustuhús í Hlíðarfjalli og stuðlum að uppbyggingu Hlíðarfjalls sem heilsárs útivistarparadísar fyrir íbúa jafnt sem ferðalanga
- Byggjum vetraraðstöðu golfklúbbsins á Jaðri
- Kaupum gólf sem hægt er að nýta í Boganum fyrir fjölbreytta íþrótta- og menningarviðburði
- Hækkum frístundastyrkinn í 50 þúsund krónur og breikkum aldursbil þeirra sem njóta styrksins
- Stöndum vörð um framúrskarandi starf félagsmiðstöðvanna í bænum
- Styðjum sérstaklega hátíðir og viðburði sem tengjast útivist og lýðheilsu
- Mörkum nýja íþrótta- og lýðheilsustefnu með áherslu á börn- og ungmenni, afreksstarf, lýðheilsu og eldra fólk
- Vinnum með íþróttafélögunum í bænum að því að fleiri börn og ungmenni geti tekið þátt í íþróttastarfi án þess að tilgangurinn sé keppnismiðaður
- Næstu verkefni í forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja eru svo uppbygging 50 m keppnissundlaugar og fjölbreytt uppbygging á félagssvæði Þórs.
Blómlegt menningarlíf
Leggjum áherslu á menningu fyrir alla hópa samfélagsins, með áherslu á eflingu grasrótarstarfs listafólks. Horfum til gildis menningar fyrir samkeppnishæfni og atvinnulíf á svæðinu.
- Hækkum framlög í menningarsjóð
- Hlúum að og eflum barnamenningu á Akureyri
- Styðjum áfram vel við starf Hofs, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Leikfélags Akureyrar undir merkjum Mak
- Leggjum frekari áherslu á stuðning við grasrót listafólks, með áherslu á aukin atvinnutækifæri
- Stöndum vörð um starf Tónlistarskólans á Akureyri og styðjum við starf Tónræktarinnar
- Hvetjum til og stuðlum að nýtingu almannarýma til að miðla menningu og listum
- Stöndum vörð um fjölbreytta starfsemi í Listagilinu
- Berjumst fyrir því að listnám á háskólastigi verði í boði á Akureyri
- Horfum bæði til verðmæti menningar fyrir íbúa sem og menningartengda ferðaþjónustu, ekki síst utan háannatíma
- Styðjum við faglegt starf safna í bænum og framfylgjum markvisst samþykktri safnastefnu
- Eflum samvinnu menningarstofnana á Norðurlandi eystra
- Lengjum starfslaun listamanna í 12 mánuði
Fagleg og metnaðarfull skipulagsmál
Skipuleggjum bæinn okkar með metnað, fagmennsku, umhverfið, loftslagsmál, vellíðan og söguna að leiðarljósi.
- Tryggjum öllum íbúum húsnæði við hæfi. Mörkum stefnu og áætlun í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis
- Tryggjum jafnræði og samræmi við úthlutun lóða
- Stuðlum að stöðugu lóðaframboði og að atvinnulóðir jafnt sem íbúðalóðir séu alltaf lausar til úthlutunar
- Byggjum upp Akureyrarvöll sem perlu í hjarta bæjarins
- Byggjum upp vistvænan og lifandi miðbæ og einföldum Glerárgötuna við Pollinn
- Hefjum uppbyggingu á tjaldsvæðisreitnum við Þórunnarstræti með áherslu á fjölbreytta byggð sem tekur mið af umhverfinu
- Stöndum vörð um yfirbragð eldri byggðar bæjarins með alvöru aðgerðum, t.d. með skilgreiningu verndarsvæða
- Þéttum áfram byggð í sátt við íbúa og samfélagið með hugmyndina um mannvænt samfélag að leiðarljósi. Áhersla verði lögð á uppbyggingu á skilgreindum þéttingarreitum
- Mörkum nýja byggingarlistastefnu Akureyrar og gerum slíkri stefnu hærra undir höfði í ákvarðanatöku í skipulagsmálum
- Stuðlum að markvissri uppbyggingu íbúða í samvinnu við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða í formi stofnframlaga og með lóðaúthlutun og leggjum áherslu á að tekið sé sérstakt tillit til þarfa fyrir félagslegar leiguíbúðir í skipulagi nýrra hverfa.
- Endurskoðum aðalskipulag Akureyrarbæjar til að vilji íbúa bæjarins um framtíðarþróun komi fram með skýrum hætti
Fjölbreytt atvinnulíf
Fjölbreytt atvinnulíf er leiðin að blómlegu og hamingjusömu samfélagi fyrir okkur öll.
- Tryggjum að þjónusta sveitarfélagsins taki tillit til þarfa atvinnulífsins.
- Gerum úttekt á mikilvægi lista, skapandi greina og íþrótta í bæjarfélaginu og framlag þessara geira til atvinnusköpunar í bænum
- Hvetjum til þess að iðn- og tækninám á framhaldsskólastigi verði eflt á Akureyri
- Höldum áfram að efla öflugan samstarfsvettvang okkar, SSNE, samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og samstarfsverkefni sem þeim tengjast
- Tökum áfram þátt í uppbyggingu miðstöðvar í málefnum Norðurslóða á Akureyri
- Tökum áfram þátt í uppbyggingu Velferðartæknimiðstöðvar
- Leggjum áherslu á að skapa umhverfi sem styður við frumkvöðla, nýsköpun og atvinnuþróun
- Tökum þátt í gerð innviðagreiningar og samgönguáætlunar landshlutans
- Styðjum við starf Markaðsstofu Norðurlands og flugklasans
- Höldum áfram stuðningi við uppbyggingu reglulegs millilandaflugs um Akureyrarflugvöll
- Styðjum við starf Þekkingarvarðar og uppbyggingu þekkingarþorps á háskólasvæðinu
- Leggjum áherslu á að magn og gæði raforku verði tryggt
- Hvetjum til nýsköpunar í nýtingu úrgangs og aukinnar verðmætasköpunar úr úrgangi
- Styðjum við leiðir sem stuðla að góðu umhverfi starfa án staðsetningar
- Höldum áfram að markaðssetja Akureyrarbæ sem vænlegan kost fyrir íbúa, atvinnulíf og ferðamenn
- Kortleggjum hvaða tækifæri opnast með bættum raforkutengingum og kynnum fyrir fyrirtækjum og fjárfestum
- Beitum okkur fyrir því að heimili og fyrirtæki í öllum hverfum eigi kost á háhraðatengingu fyrir árslok 2024
- Markaðssetjum Hrísey sem paradís fyrir stafræna flakkara
Ábyrgur rekstur
Höldum áfram að auka tekjurnar og efla samkeppnishæfni okkar, bæði á íbúa- og atvinnumarkaði. Samhliða þarf að vinna að stöðugum og faglegum umbótum í rekstrinum.
- Leggjum áherslu á að skapa öflugt og fjárhagslega sjálfbært samfélag til framtíðar
- Leggjum áherslu á stafrænar lausnir í þjónustu sveitarfélagsins
- Byggjum við ráðhúsið, sameinum starfsemi bæjarins á færri staði og drögum með því úr rekstrarkostnaði
- Leggjum áherslu á góða samvinnu bæjarstjórnar og stjórnenda sveitarfélagsins í rekstri sveitarfélagsins
- Eigum í markvissu samtali við ríkisvaldið um sanngjarna tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga
- Leggjum áherslu á sjálfbærar framkvæmdir og grænar fjárfestingar sem draga úr rekstrarkostnaði til framtíðar
- Vinnum markvisst að uppbyggingu Akureyrar sem fjölskylduvænnar svæðisborgar í samvinnu við ríkisvaldið