Akranes - xS að sjálfsögðu!

Stefnuskrá Samfylkingarinnar á Akranesi 2022

Velferð

Lífið getur breyst á svipstundu. Góð heilsa og öruggar aðstæður er ekki eitthvað sem er sjálfgefið. Þess vegna viljum við öll búa í góðu velferðarsamfélagi sem gerir öllum kleift að lifa lífinu af reisn og virðingu.

Skýr velferðarstefna fyrir alla. Þess vegna viljum við ...

  • tryggja áfram fjölbreytta uppbyggingu leiguhúsnæðis, m.a. í samvinnu við leigufélög án hagnaðarsjónarmiða.
  • Þróa samþætta þjónustu í þágu farsældar barna með samvinnu mismunandi sviða í þjónustu kaupstaðarins og öðrum sem koma að velferð barna, svo sem íþróttahreyfingunni.
  • standa myndarlega að byggingu nýrrar samfélagsmiðstöðvar og styðja við faglegt og öflugt starf hennar.
  • efla félagsþjónustuna og tryggja að hún hafi þau úrræði sem hún þarf á að halda til þess að styðja við fjölskyldur, m.a. með snemmtækri íhlutun.
  • hlúa betur að leikvöllum Akraneskaupstaðar og grænum svæðum með það að markmiði að vernda fjölskylduvæn svæði á Akranesi.
  • stefna að opnun skammtímadvalar fyrir fötluð börn, í samvinnu við nágrannasveitarfélög. 
  • auka úrræði til að virkja fólk til frumkvæðis og sjálfshjálpar.
  • gefa einstaklingum sem lengi hafa verið utan vinnumarkaðar atvinnutækifæri í samvinnu við atvinnulífið.
  • stuðla að því að Akraneskaupstaður bjóði upp á fjölbreytt störf fyrir fólk með skerta starfsgetu.
  • efla og styrkja Akranes sem fjölmenningarsamfélag og nýta styrkleika þess, t.d. á sviði menningar og lista.
  • bjóða upp á fjölbreytt búsetuúrræði fyrir fólk með fötlun, m.a. með samstarfi við húsnæðisfélög fatlaðra og byggingu fleiri búsetukjarna.
  • hraða úrbótum í aðgengismálum fólks með skerta hreyfigetu, með áherslu á gatnakerfi, göngustíga og aðgengi að útivistarsvæðum.
  • bæta aðstöðu og aðgengi fyrir fatlaða að öllum íþróttamannvirkjum bæjarins.
  • bæta ferðaþjónustu fatlaðra á þann hátt að hún mæti daglegum þörfum þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.
  • auka þjónustu Bjarnalaugar, m.a. með skipulegri opnun allt árið fyrir fatlaða.

Skólar

Skóla- og frístundastarf er einn af hornsteinum fjölskylduvæns bæjarfélags. Þar eigum við að tryggja börnum jöfn tækifæri til að þroskast og eflast sem sterkir og skapandi einstaklingar. Margbreytileiki í skóla- og frístundastarfi er nauðsynlegur og við viljum að leiðarljós skólanna verði að virkja styrkleika barna og ungmenna, kveikja áhuga þeirra og ýta undir sköpun og frumkvæði. Skólar á Akranesi eru margir og ólíkir og í fagmennsku þeirra og fjölbreytni liggur styrkur Akraness sem skólabæjar.

Hjarta bæjarins slær í skólunum. Þess vegna viljum við ...

  • hefja strax undirbúning að nýjum leikskóla á Neðri-Skaga.
  • tryggja aðgang barna og foreldra að samfelldri og samþættri þjónustu.
  • standa vörð um og efla faglega samvinnu milli allra skólastiga. 
  • brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
  • hækka mótframlag til foreldra vegna vistunar hjá dagforeldrum, til móts við mismuninn á leikskólagjaldi og gjaldi til dagforeldra.
  • bæta starfsumhverfi í leikskólum með það að markmiði að minnka áreiti og álag bæði á börn og starfsfólk.
  • hlúa að móðurmáli og íslenskukennslu barna sem eru með annað móðurmál en íslensku.
  • efla þátttöku ungmenna og þróa vinnuskólann í takt við nýja tíma. 
  • auka áhrif barna og ungmenna á innihald og skipulag eigin náms og frístundastarfs.
  • efla fræðslu fyrir foreldra leik- og grunnskólabarna.
  • styrkja framhaldsfræðslu og starfsemi Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands á Akranesi.
  • búa til skýra aðgerðaráætlun sem snýr að því að standa vörð um framúrskarandi leikskólastarf á Akranesi. 
  • styðja þá sem starfa í skólum bæjarins til náms og starfsþróunar.
  • standa vörð um gott innra starf grunn- og leikskóla, meðal annars með því að tryggja góða aðstöðu fyrir starfsfólk.
  • endurbyggja elsta hluta Grundaskóla og halda áfram með breytingar á húsnæði beggja grunnskólanna, með það að markmiði að skapa fyrsta flokks umgjörð um skólastarfið
  • huga að fyrstu skrefum í uppbyggingu næsta grunnskóla á Akranesi, t.d. með tengingu fyrstu bekkja grunnskólans við hið nýja Garðasel.
  • að skólar og leikskólar bæjarins vinni í anda heilsueflandi samfélags.
  • gott aðgengi fyrir alla að öllu skóla- og frístundahúsnæði bæjarins.
  • standa vörð um Fjölbrautaskóla Vesturlands sem einn af hornsteinum skólakerfisins á Akranesi.
  • hlúa enn betur að góðu samstarfi grunnskólanna og tónlistarskóla með það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi tónlistaruppeldis.

Íþróttir og frístundastarf

Í frístundastarfi gefast spennandi tækifæri til að vinna með félagsfærni og sjálfsmynd barna, virkja skapandi hugsun þeirra, líkamlegt atgervi, seiglu og sjálfstæði. Vel skipulagt starf á vegum Akraneskaupstaðar, íþróttafélaga og félagasamtaka er mikilvæg samfélagsleg auðlind hér á Akranesi. Við leggjum áherslu á jafnt aðgengi allra barna að frístundastarfi og að starfið sé m.a. nýtt til að kynna börnum fjölbreytilega kosti á sviði verk-, tækni- og listnáms auk útiveru og íþrótta.

Öflugt íþrótta- og frístundastarf fyrir alla. Þess vegna viljum við ...

  • að öll börn hafi aðgang að frístundastarfi óháð efnahag og uppruna.
  • hafa markmið heilsueflandi samfélags til hliðsjónar í öllu starfi Akraneskaupstaðar. 
  • hækka upphæð tómstundaframlags til barna og ungmenna í 50.000 krónur.
  • vinna og innleiða íþróttastefnu, meðal annars með áherslu á þátttöku íþróttahreyfingarinnar í þjónustu í þágu farsældar barna.
  • vera í virkri samvinnu við íþróttahreyfinguna varðandi forgangsröðun og stefnumörkun íþróttamála í bænum.
  • byggja glæsilegustu íþróttamiðstöð landsins að Jaðarsbökkum
  • byggja upp Bjarnalaug og nærliggjandi svæði með áherslu á tækifæri til hreyfingar og heilsuræktar
  • stuðla að auknu samstarfi milli skóla og frístundastarfs. 
  • bæta frjálsíþróttaaðstöðu á Akranesi.
  • tryggja frístundaheimilum góða aðstöðu og mæta gæðaviðmiðum um starfsemi þeirra.
  • auka opnunartíma frístundaheimila.
  • auka möguleika á hreyfingu og útivist, m.a. með íþrótta- og leikvöllum utanhúss.
  • auka opnunartíma íþróttamannvirkja á frídögum fjölskyldna.
  • bjóða upp á hreyfi-, menningar- og tómstundaávísun fyrir fullorðna, sem viðspyrnu eftir heimsfaraldur.

Eldri borgarar á Akranesi

Það á að vera gott að eldast á Akranesi. Fólk á að hafa sem mest áhrif á eigin aðstæður og hafa val eins lengi og kostur er um atvinnuþátttöku, viðbótarmenntun, hreyfingu og innihaldsríkar tómstundir. Þegar á reynir þarf fólki að standa til boða öruggur stuðningur og umönnun, allt frá heimaþjónustu til hjúkrunarheimilis.

Aldursvænt samfélag. Þess vegna viljum við …

  • að Akranes sé bær fyrir alla – óháð aldri.
  • þróa samþætta þjónustu í lífsgæðakjarna við Dalbraut í samvinnu við hagsmunaaðila.
  • stuðla að heilsueflingu eldra fólks og tryggja gott aðgengi að íþróttaaðstöðu og íþróttastarfi.
  • að eldri borgurum sé gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili og fá þann stuðning sem þarf hverju sinni. 
  • vinna áfram að uppbyggingu á fjölbreyttum búsetuúrræðum á viðráðanlegu leiguverði fyrir eldra fólk.
  • tryggja farsælan rekstur hjúkrunarheimilisins Höfða og huga að áframhaldandi stækkun heimilisins, m.a. með skipulagsvinnu.
  • vinna að fjölbreyttum möguleikum eldri borgara til félagslegrar þátttöku.
  • styrkja heimaþjónustu og heimahjúkrun ásamt endurhæfingar- og dagþjálfunarúrræðum. 
  • að Akraneskaupstaður sýni gott fordæmi við að bjóða upp á sveigjanleg starfslok.

Fegrun bæjarins og skipulag

Mikil lífsgæði eru fólgin í því að búa í fallegum bæ þar sem allir íbúar geta komist ferða sinna og notið útivistar. Til þess þurfum við að halda áfram af krafti og metnaði að fegra bæinn og lagfæra götur og stígakerfi. 

Góðar götur, heildstætt stígakerfi og fallegur bær fyrir alla. Þess vegna viljum við ...

  • gera Skagann skemmtilegri, með fjölbreyttari möguleikum til útivistar í samráði við bæjarbúa.
  • horfa ávallt til lýðheilsusjónarmiða í skipulagi nýrra hverfa og við þéttingu byggðar í eldri hverfum bæjarins.
  • leggja áherslu á fjölbreytni en forðast einsleitni í skipulagi nýrra hverfa.
  • fegra bæinn með gróðri og grænum svæðum.
  • tengja betur göngu-, hjóla- og hlaupastíga og fjölga bekkjum meðfram þeim.
  • vinna áfram að samfelldri hjóla- og gönguleið hringinn í kringum bæinn.
  • bæta aðgengi að náttúruperlum okkar.
  • halda áfram að vernda strandlengju Akraness og bæta gönguleiðir að og meðfram henni. 
  • fegra aðkomuna inn í bæinn, bæði við Þjóðbraut og Kalmansbraut-Kirkjubraut. 
  • setja af stað endurhönnun á Kirkjubraut milli Stillholts og Merkigerðis, með það að markmiði að stækka svæði fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur en fækka akbrautum fyrir bíla.
  • gera bæinn grænni með því að minnka sorp, auka endurvinnslu og auðvelda bæjarbúum að flokka.
  • halda áfram að lagfæra götur í samræmi við langtímaáætlun um endurnýjun slitlags á götum bæjarins.
  • áframhaldandi áherslu á viðhald á mannvirkjum bæjarins.
  • veita samfélagslega hvatningu og viðurkenningar til íbúa fyrir fegrun húsa og garða. 
  • hlúa að leikvöllum og byggja upp hverfisgarða í samstarfi við íbúa, með stofnun hverfaráða.
  • setja í forgang þarfir hjólandi, gangandi og hreyfihamlaðra við endurhönnun gatna og stíga.
  • bæta umferðarmerkingar með áherslu á merkingar og lýsingu við gangbrautir.
  • halda áfram að bæta aðgengi að Garðalundi með því að lagfæra bílastæði og aðkeyrslu og horfa til aðgengis fyrir fatlaða.

Atvinna og samgöngur

Akranes á að vera samfélag þar sem allir fá tækifæri til að nýta reynslu sína, hæfileika og menntun til hins ýtrasta. Ein af grunnforsendum slíks samfélags er fjölbreytt og nútímalegt atvinnulíf sem starfar í sátt við umhverfið og leggur áherslu á náttúruvernd og sjálfbærni. Þess vegna verðum við að skapa hagkvæm skilyrði fyrir atvinnulífið í bænum og hlúa vel að þeim fyrirtækjum sem við höfum, um leið og við stuðlum að stofnun og rekstri nýrra fyrirtækja. Bærinn okkar er einnig hluti af stærra atvinnusvæði og þess vegna eru góðar og öruggar samgöngur gríðarlega mikilvægur hluti atvinnulífs Akurnesinga. Eitt stærsta verkefni næstu ára verður að knýja á um stórbættar samgöngur og aukið umferðaröryggi, þar sem lagning Sundabrautar er eitt mikilvægasta baráttumál Akurnesinga og allra íbúa Vesturlands.

Fjölbreytt atvinnulíf og greiðar samgöngur fyrir alla. Þess vegna viljum við ...

  • halda áfram að skapa tækifæri til nýsköpunar og þróunarstarfs með áframhaldandi uppbyggingu á Breiðarsvæðinu.
  • byggja upp græna iðngarða í Flóahverfi.
  • stækka og bæta Akraneshöfn sem lífæð í atvinnulífi bæjarins.
  • efla og styðja fólk með langvarandi og tímabundnar stuðningsþarfir til samfélags- og atvinnuþátttöku.
  • vekja athygli á Akranesi sem góðum kosti fyrir fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu.
  • halda íbúum á Skaganum með störfum án staðsetningar.
  • tryggja góðar almenningssamgöngur til og frá Akranesi, stytta ferðatímann eins og kostur er og halda fargjöldum í lágmarki.
  • berjast fyrir því að lagning Sundabrautar fari af stað sem fyrst. 
  • tryggja framboð hentugra lóða og húsnæðis fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi.
  • stuðla að samráðsvettvangi milli fyrirtækja og bæjaryfirvalda á Akranesi með það að markmiði að auka samskipti og samstarf, svo atvinnurekendur í bænum hafi stuðning hver af öðrum. 
  • fylgja eftir yfirstandandi kynningarátaki með því að leggja áfram áherslu á upplýsinga- og kynningarmál í samvinnu við atvinnulífið á Akranesi, til að koma bæjarfélaginu enn betur á kortið.
  • stuðla að því að sjávarútvegur vaxi og dafni á Akranesi með góðri samvinnu og samstarfi við fyrirtæki í sjávartengdri starfsemi. 
  • vera í fararbroddi sveitarfélaga á landinu hvað varðar stafræna þjónustu, gæði skipulagsferla og gjaldskrár. 
  • hafa góða samvinnu við fræðslu- og menntastofnanir á svæðinu um möguleika til endurmenntunar. 
  • skapa vettvang fyrir atvinnu- og samfélagssýningar og tryggja góða umfjöllun. 
  • kynna Akranes sem markaðs- og verslunarbæ.

Ferðamannabærinn Akranes

Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein og er á skömmum tíma orðin einn af burðarstólpum íslensks efnahagslífs. Í ferðaþjónustunni geta falist mikil sóknarfæri og atvinnutækifæri fyrir Akurnesinga. Akraneskaupstaður á að skapa umgjörð sem einkarekstur í ferðaþjónustu getur þrifist í.

Þess vegna viljum við …

  • að Akraneskaupstaður setji sér stefnu í ferðamálum.
  • halda áfram að byggja upp útivistarsvæði og aðra lykilstaði fyrir bæjarbúa og ferðamenn. 
  • bæta upplýsingagjöf til ferðamanna, m.a. með því að fara vel yfir skilti og merkingar í bænum og með því að koma fyrir upplýsingaskjám á helstu viðkomustöðum ferðamanna.
  • vekja athygli á Akranesi sem góðum kosti fyrir fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu.
  • stuðla að samráðsvettvangi ferðaþjónustuaðila á Akranesi.
  • vekja athygli á íþróttasvæði, nýrri íþróttamiðstöð og náttúruperlum sem möguleika fyrir heilsutengda ferðaþjónustu.

Menning á Akranesi

Akranes blómstrar sem menningarbær þar sem íbúar hafa kost á að njóta og taka þátt í menningu og listum. Listir ýta undir jákvæða sjálfsmynd, gagnrýna og skapandi hugsun og samfélagsvitund. Stuðla þarf að fjölbreytni og áframhaldandi uppbyggingu menningarlífs á Akranesi og styðja við skapandi framtak bæjarbúa.

Lifandi menning fyrir alla. Þess vegna viljum við ...

  • standa myndarlega að föstum viðburðum og menningarhátíðum bæjarins.
  • skapa vettvang til menningarþátttöku unga fólksins.
  • barnamenningarhátíð með virkri þátttöku skólanna í bænum.
  • hlúa að öflugu starfi Tónlistarskólans og öðru tónlistarstarfi á Akranesi.
  • nýta Tónberg betur sem vettvang menningar og lista.
  • styðja við fjölbreytta starfsemi bókasafns, héraðsskjalasafns og Ljósmyndasafns Akraness.
  • halda áfram að merkja helstu fornminjar, örnefni og sögustaði í bæjarlandinu.
  • leita eftir samvinnu við húseigendur til að setja upp upplýsingaskilti við gömul hús í bænum þar sem greint er frá sögu hússins.
  • gera stefnumótun um áframhaldandi uppbyggingu og viðhald á safnasvæðinu í framhaldi af nýrri og glæsilegri grunnsýningu.
  • nýta safnasvæðið til lifandi viðburðahalds. 
  • bjóða upp á Skagapassann sem veitir aðgang með afslætti að t.d. söfnum, sundlaugum og viðburðum.
  • bæta viðhald á útilistaverkum í bænum, merkja þau og lýsa þau upp. 
  • setja upp upplýsingaskjái á völdum stöðum í bænum þar sem sjá megi upplýsingar um viðburði og fleira. 

Öruggur rekstur bæjarins

Samfylkingin ætlar að halda áfram að opna stjórnsýsluna, auka íbúalýðræðið og sýna ábyrgð í fjármálastjórnun, því þegar allt kemur til alls er öryggi og stöðugleiki í rekstri undirstaða lífsgæða í bænum.

Öruggur rekstur og opin stjórnsýsla fyrir alla. Þess vegna viljum við ... 

  • forgangsraða verkefnum í anda jafnaðarstefnunnar. Við viljum hlúa vel að velferðarkerfinu í bænum, skólunum, hjúkrunar- og dvalarheimilinu og öðrum þeim þáttum sem styrkja samfélagsgerðina og treysta lífsskilyrði íbúanna. 
  • sjá til þess að góð fjárhagsstaða bæjarins skili sér í bættri þjónustu við íbúa.
  • stuðla að stofnun hverfaráða, þar sem íbúarnir geti tekið ákvarðanir um þau málefni sem varða þá sérstaklega. Slík hverfaráð fái ákvörðunarvald um ráðstöfun fjár sem þeim yrðu veitt á fjárhagsáætlun hverju sinni.
  • nýta fjárhagslegt svigrúm til að byggja upp og fegra bæinn. 
  • halda reglulega íbúafundi um atvinnumál, menningarmál, skipulagsmál, skólamál og önnur mikilvæg mál.  
  • halda áfram að virkja og þróa rafræna íbúagátt og stafræna þjónustu á vef Akraneskaupstaðar. 
  • auka upplýsingaflæði til bæjarbúa.
  • setja í gang „óskalista“ bæjarbúa varðandi verkefni sem þarf að leysa.
  • kanna reglulega gæði þjónustunnar sem Akraneskaupstaður veitir, með íbúakönnunum.
  • viðhalda faglegum vinnubrögðum í rekstri bæjarins og styðja við framfarir, m.a. í greiningarvinnu og stjórnun innkaupa.
  • halda áfram að sýna ábyrgð með vandaðri áætlanagerð og öruggri fjármálastjórn. 
  • að Akranes verði áfram og ávallt fremst í flokki meðal sveitarfélaga hvað varðar þjónustu við bæjarbúa.