Árborg - Farsælt samfélag

Stefnuskrá Samfylkingarinnar í Árborg fyrir kosningar til sveitarstjórnar 14. maí 2022

Öflugt atvinnulíf

Sveitarfélagið Árborg er höfuðstaður Suðurlands og mikil íbúafjölgun á skömmum tíma kallar á fjölbreyttari tækifæri í atvinnumálum. Því þarf Árborg að sækja fram og skapa aðstæður fyrir fjölbreytta starfsemi.

Samfylkingin vill:

  • Ráðast í átak í atvinnuppbyggingu og þróun ferðaþjónustu í Árborg – öflug kynning á sögustöðum og náttúruperlum.
  • Byggja undir mikla möguleika og sérstöðu Stokkseyrar og Eyrarbakka í ferðaþjónustu með byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka, Fuglafriðlandið, verndarsvæði í byggð, vitaleiðinni og fjörunni á Stokkseyri.
  • Koma á samstarfi milli skólasamfélagsins og atvinnulífsins með það að markmiði að efla nýsköpun og frumkvöðlastarf.
  • Byggja upp öflugt þekkingarsetur sem hefur það m.a. að markmiði að vera grunnur að klasamyndun fyrir matvælaþróun og framleiðslu.
  • Vinna verkáætlun í viðhaldi fasteigna í eigu sveitarfélagsins.
  • Stuðla að nýsköpun og frumkvöðlastarfi Árborg eins og t.d. á ýmis konar léttum iðnað sem fellur að sjálfbæru og umhverfisvænu samfélagi.
  • Skapa enn frekari aðstæður fyrir störf án staðsetningar á borð við framúrskarandi aðstæður í Bankanum,vinnustofu.
  • Fara í markvissa kynningu á Árborg sem viðkomustað ferðamanna þar sem einstök flóra veitinga- og gististaða verður kynnt sérstaklega.
  • Tryggja að ávallt sé nægt framboð af lóðum undir atvinnustarfsemi.
  • Skapa fleiri störf fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu.

Umhverfis- og skipulagsmál

Framsýn og lýðræðisleg stefnumótun í skipulagsmálum er grundvallaratriði til að efla lífsgæði, draga úr umferð bíla, mengun og auka aðgengi hjólandi og gangandi vegfaranda í samfélaginu. Aðkoma íbúa sveitarfélagsins að skipulagsmálum skiptir sköpum og að öll stjórnsýsla skipulagsmála sé opin og heiðarleg. Vöxtur og íbúafjölgun í Árborg á sér vart hliðstæðu. Vanda þarf til þess að skipuleggja samfélag framtíðarinnar með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Samfylkingin vill:

  • Ljúka framkvæmdum í fráveitumálum við hreinsistöð á Selfossi.
  • Skoða notkun þeirra nýju lausna sem þróaðar hafa verið á sl. árum í fráveitumálum á Stokkseyri og Eyrarbakka, með það að markmiði að ekkert fari frá byggðinni útí sjó.
  • Ráðast í tímasett átak um endurbætur á gangstéttum, göngustígum og götum í eldri hverfum.
  • Bæta umhverfi grenndarstöðva, fjölga þeim og ýta undir hringrásarhagkerfið. Tryggja að umgengni sé góð og að hirðutíðni samræmist þörfum íbúa.
  • Setja af stað átak í gróðursetningu trjáa og fegrun umhverfis á grænum svæðum og við aðkomu inn í þéttbýliskjarna sveitarfélagsins.
  • Ráðist verði í uppbyggingu Sigtúnsgarðs samkvæmt fyrirliggjandi hönnun
  • Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verði höfð að leiðarljósi í allri starfsemi sveitarfélagsins.
  • Lögð verði áhersla á fjölbreytta búsetukosti og blandaða byggð í öllu skipulagi.
  • Efla Árborgarstrætó með bættu skipulagi og gera hann að raunhæfum valkosti sem ferðamáta innan sveitarfélagsins.
  • Nýta möguleika á uppbyggingu á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þar er hægt að bjóða verðmætar sjávarlóðir sem og aðrar lóðir.
  • Fara í átak í skráningu gáma í sveitarfélaginu, tryggja að skýrar verklagsreglur séu fyrirliggjandi vegna gáma og þeim fylgt eftir.
  • Umhverfisstefnu sveitarfélagsins sé fylgt og hún endurskoðuð reglulega.
  • Sett verði markmið í loftslagsmálum sem eru í samræmi við markmið ríkisstjórnar.
  • Fjölga hleðslustöðvum fyrir rafbíla í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins í samstarfi við einkaaðila.
  • Bæta aðgengi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
  • Vinna að því að ljúka við tengingu þéttbýliskjarna sveitarfélagsins með göngu- og hjólastígum.
  • Algild hönnun verði höfð að leiðarljósi í allri mótun umhverfisins, þannig er þess gætt að allir íbúar og gestir í Árborg geti notið umhverfisins óháð aldri, stærð, færni eða fötlun.
  • Að unnin verði tímasett áætlun um úrbætur á aðgengismálum í samræmi við niðurstöður úttektarskýrslu á aðgengismálum í sveitarfélaginu.

Virðing, velferð og umburðarlyndi

Hlutverk sveitarfélaga er að hlúa að velferð íbúa sinna með framúrskarandi nærþjónustu, tryggja jöfnuð og jöfn tækifæri óháð fötlun eða félagslegri stöðu. Velferð fólks byggir á samfélagi þar sem fólk stendur saman og sýnir hvert öðru virðingu, umburðarlyndi og umhyggju.

Samfylkingin vill:

  • Efla markvissa vinnu gegn kvíða barna og ungmenna og bjóða þeim stuðning sem greinast með einkenni kvíða og þunglyndis. 
  • Auka stuðning við fjölskyldur í vanda og bjóða fjölskyldumeðferð. Efla aðstoð við börn með þroskaraskanir eða fatlanir og fjölskyldur þeirra. Hlúa sérstaklega að börnum með annað móðurmál en íslensku og hvetja til virkni í skóla- og frístundastarfi.
  • Virkja mannauð fólks af erlendum uppruna.
  • Halda áfram samstarfi við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög eins og t.d. Bjarg íbúðafélag og Brynju hússjóð ÖBÍ um byggingu og rekstur íbúða fyrir tekjulægri einstaklinga og fjölskyldur.
  • Styðja við fjölmenningu og leggja sérstaka áherslu á að auka þátttöku og tækifæri fólks með annað móðurmál en íslensku.
  • Tryggja að fötluðu fólki standi fjölbreytt búsetuúrræði til boða í samræmi við þarfir hvers og eins.
  • Útrýma biðlistum eftir þjónustu við fatlað fólk.
  • Efla og bæta stuðningsþjónustu, sporna markvisst gegn einsemd og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldra fólks.
  • Halda áfram að þrýsta á ríkisvaldið til þess að fá fleiri dagdvalarrými í Vinaminni og Árblik.
  • Bjóða upp á heilsueflandi fræðslu fyrir eldri borgara í samstarfi við félög eldri borgara.
  • Halda reglulega upplýsinga- og samstarfsfundi í með félögum eldri borgara í sveitarfélaginu.
  • Nýta betur kosti velferðartækni til að bæta öryggi og aðstöðu í heimahúsum eldra fólks.
  • Tryggja að framboð hjúkrunarrýma fyrir aldraða verði ávallt í samræmi við þörf.

Íþróttir og menning óháð efnahag

Fjölbreytt menningarstarfsemi og úrvals íþróttastarf eru á meðal helstu styrkleika sveitarfélagsins. Stefna á jöfn tækifæri til frístunda og tryggja að börn fái tækifæri til að þroska hæfileika sína með því að stunda listnám, íþróttir og annað æskulýðsstarf óháð efnahag foreldra.

Samfylkingin vill: 

  • Kanna möguleikann á að foreldrar greiði eitt þátttökugjald fyrir hvert barn að 12 ára aldri, óháð hvaða íþrótt barn stundar.
  • Stuðla að heilsueflandi aðstæðum með umhverfi og skipulagi sem hvetur fólk til göngu, hjólreiða og fjölbreyttrar útivistar.
  • Hækka tómstundastyrki jafnt og þétt
  • Að styrkleikar frístundastarfsins verði nýttir til að bæta líðan barna og ungmenna, efla félagsfærni þeirra og virkni með sérstakri áherslu á börn sem ekki taka þátt í formlegu íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Efla þátttöku fólks með mismunandi menningarlegan bakgrunn til að skapa skemmtilegt og fjölmenningarlegt samfélag þar sem allir geta notið sín og lagt sitt af mörkum.
  • Hefja byggingu frístundamiðstöðvar

Farsælt skólastarf

Menntun er undirstaða framfara og hækkunar á launastigi á svæðinu. Efla þarf starf á öllum skólastigum og byggja ofan á það góða starf sem unnið hefur verið í fullorðinsfræðslu og símenntun. Við viljum styrkja stöðu kennara og leggja áherslu á að bætt kjör og starfsaðstæður kennara í leik- og grunnskólum verði forgangsmál.

Samfylkingin vill:

  • Jafna aðgang og tækifæri barna til fjölbreyttrar menntunar sem byggir þau upp sem fjölhæfa, skapandi einstaklinga sem fá stuðning og leiðsögn til að láta drauma sína rætast.
  • Taka aukið tillit til félags- og efnahagslegrar stöðu barna við úthlutun fjármagns til skóla. Þannig fá skólar þar sem nemendur búa við þrengri kost hærri fjárveitingar til að jafna aðstöðu barna óháð efnahag foreldra.
  • Auka stuðning við börn í viðkvæmri stöðu með markvissu samstarfi skóla og frístundar.
  • Vinna að því að hækka hlutfall leikskólakennara í leikskólum sveitarfélagsins ásamt því að styðja ófaglært starfsfólk leikskóla til að afla sér menntunar.
  • Áfram verði lögð rík áhersla á að bæta kjör og vinnuumhverfi starfsfólks leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva og fjölga fagfólki á öllum þessum starfsstöðvum. Sérstaklega verði unnið að þverfaglegri nálgun og nánara samstarfi mismunandi fagstétta. Lögð verði áhersla á að bæta enn frekar vinnuaðstæður og fjölga tækifærum til starfsþróunar.
  • Jákvæðir hvatar verði nýttir til að styðja við bakið á ófaglærðu starfsfólki leikskóla að afla sér fagmenntunar og hvatt til aukinnar notkunar raunfærnimats til að meta starfsreynslu þess og þekkingu.
  • Hefja uppbyggingu á nýju skólahúsnæði á Eyrarbakka og bæta aðstöðu til inniíþrótta á Stokkseyri.
  • Auka sjálfstæði og sveigjanleika kennara í starfi með það að markmiði að ýta undir nýbreytni og sveigjanlega kennsluhætti
  • Efla starfsþróun með áherslu á að styrkja starfsfólk til starfa í skóla margbreytileikans, s.s. varðandi kennslu tvítyngdra barna, fatlaðra barna eða barna með sértækar þarfir.
  • Efla móðurmáls- og íslenskukennslu fyrir tvítyngd börn
  • Styðja börn, foreldra og skóla í að takast á við stafrænan veruleika og fjórðu iðnbyltinguna.
  • Auka hlut list- og verknáms í daglegu starfi leik- og grunnskólabarna, þar með talið nýsköpunarnáms.
  • Stuðla að aukinni heilsueflingu innan skólanna í anda heilsueflandi samfélags. vinna að bættri andlegri vellíðan, gleði, þrautseigju og trú barna á eigin getu.
  • Bæta nýtingu skólahúsnæðis til fræðslu- og tómstundarstarfs.
  • Standa fyrir skólaþingi í öllum leik- og grunnskólum sem lið í vinnu við endurskoðun á mennta- og læsisstefnu sveitarfélagsins.
  • Breyta gjaldtöku á leikskólum í skrefum með það að markmiði að 5 klst. kennsla á dag verði gjaldfráls til samræmis við grunnskólann.
  • Brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að byggja nýja leikskóla og/eða stækka starfandi leikskóla þar sem það er mögulegt. Halda áfram að lækka inntökualdur á leikskólum jafnt og þétt.
  • Tryggja að stuðningur við börn og barnafjölskyldur miðist við þarfir þeirra en sé ekki háður greiningum.
  • Beita snemmtækum stuðningi í auknum mæli í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla til að mæta svo fljótt sem verða má þörfum barna með fjölþættan vanda.
  • Aukin áhersla verði lögð á að greiða leið barna og fjölskyldna þeirra í gegnum kerfið þegar þau þurfa aukinn stuðning eða heilbrigðisþjónustu í samræmi við ný farsældarlög.
  • Ráða fólk úr fleiri fagstéttum í skólana til að auka þverfaglega samvinnu fagfólks og stuðla að því að hægt sé að koma betur til móts við fjölbreytilegar þarfir nemenda.
  • Vinna með samstilltum aðgerðum gegn einelti og félagslegri einangrun barna og ungmenna.
  • Mæta þörfum fatlaðra barna og barna með raskanir og sérþarfir á þeirra eigin forsendum í námi og frístundum við grunnskólana með auknum námslegum og félagslegum stuðningi.
  • Auka formlegt samstarf ríkis, sveitarfélags og Sambands íslenskra sveitarfélaga um raunhæfar aðgerðir til að draga úr brotthvarfi barna úr framhaldsskólum og til að minnka hættu á skólaforðun á öllum skólastigum.
  • Fylgja betur eftir og styðja ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára, einkum þau sem eru í sérstökum áhættuhópum varðandi félagslega einangrun, áhættuhegðun eða skólaforðun

Stjórnsýsla og lýðræði

Sveitarstjórn er skipuð lýðræðislega kjörnum fulltrúum sem fara með framkvæmd málaflokka í umboði kjósenda. Þetta umboð eiga þeir að rækja með góðri upplýsingagjöf og reglubundnu samráði við íbúa. Sveitarfélagið Árborg á að hafa forystu um íbúalýðræði þar sem fólk finnur að það geti haft áhrif á þróun mála og að allir beri ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins.

Samfylkingin vill:

  • Að Íbúar eiga undantekningarlaust að geta sótt um þjónustu á vefnum, sem á að vera fyrsti viðkomustaður allrar þjónustu en gæta þess að þeir sem ekki geta nýtt sér snjalltæki fái aðstoð til þess.
  • Endurskoða afslætti á fasteignagjöldum til eldri borgara og öryrkja.
  • Vinna að endurskoðun og leita leiða til að lækka fasteignagjöld.
  • Halda reglubundna íbúafundi til að veita upplýsingar og gefa fólki kost á að hafa áhrif á stefnumótun og rekstur.
  • Gæta stjórnfestu í rekstri sveitarfélagsins þannig að leikreglur séu öllum ljósar og farið eftir samþykktum
  • Bæta aðgengi að upplýsingum um þjónustu og rekstur sveitarfélagsins
  • Mitt hverfi; opnað verði vefsvæði á heimasíðu sveitararfélagsins þar sem fólk getur komið á framfæri hugmyndum um hverfis sitt, og þar verði haldnar atkvæðagreiðslur um einstök málefni.