Bergljót Kristinsdóttir - 1. sæti

Kæru félagar

Ég óska eftir stuðningi ykkar til að leiða lista Samfylkingarinnar í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Á líðandi kjörtímabili hef ég verið bæjarfulltrúi, setið í skipulagsráði og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins og sem varamaður í bæjarráði, íþróttaráði, umhverfis- og samgöngunefnd og öldungaráði. Á síðasta kjörtímabili sat ég sem aðalmaður í menntaráði.

Á þessum tíma hef ég aflað mér góðrar reynslu og þekkingar á starfumhverfi bæjarfulltrúa og þeim ótal mörgu og ólíku málaflokkum sem starfið snertir á.

Þau mál sem ég hef helst reynt að þoka áleiðis eru m.a.

  • Breytt ferli skipulagsmála þar aðgengi íbúa að tillögum og skoðanaskiptum er gert hærra undir höfði.
  • Að lýðheilsa sé höfð að leiðarljósi við þéttingu byggðar með góðum útivistarsvæðum fyrir íbúa. Nú síðast með tillögu um ylströnd/heitan pott á Kársnesi sjá hér
  • Að tryggja að Kópavogsbær nýti öll tækifæri til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og hvetji íbúa og fyrirtæki til hins sama m.a. með tillögu minni um trjáræktarsvæði fyrir almenning og fyrirtæki í upplandinu sem samþykkt var fyrir tveimur árum.
  • Að gera íbúum sem eiga erfitt með kaup á húsnæði á opnum markaði kleift að verða sér úti um öruggt húsnæði hvort sem er til leigu eða kaups í samræmi við húsnæðisstefnu Kópavogs.
  • Að geta boðið eins árs börnum upp á leikskólapláss. Nú stefnir í óefni vegna fjölgunar barna og engrar fjölgunar leikskólaplássa.
  • Að samþætta þjónustu við eldri borgara. Í dag er hún annars vegar á hendi heilsugæslunnar og hins vegar á hendi Kópavogsbæjar. Tillaga Samfylkingarinnar um þetta mál var tekin til greina en hægt gengur að koma þessu í gagnið.
  • Að auka íslenskukennslu barna með íslensku sem annað mál. Samfylkingin hefur haldið þessu málefni á lofti í öllum fjárhagáætlunargerðum og fékk samþykkt aukið fjármagn í málaflokkinn fyrir þremur árum.
  • Að gera gögn um rekstur bæjarins aðgengilegri fyrir alla bæjarfulltrúa sem eru eftirlitsaðilar með rekstri bæjarins og bjóða bæjarbúum upp á betri upplýsingar um reksturinn.

Ýmislegt fleira höfum við fulltrúar Samfylkingarinnar lagt til málanna við mismikla ánægju ráðandi meirihluta en höfum þó oftast valið þá leið að vinna að góðum málum í sem mestri sátt og samlyndi við aðra í bæjarstjórn.

Til framtíðar

Kópavogur á ekki mikið óbrotið byggingarland eftir og því er nauðsyn að þétta byggð frekar en það þarf að gera í mun meiri sátt við bæjarbúa.

Við þurfum að gera kolefnisbókhald Kópavogsbæjar sýnilegt og vinna hratt að því að verða kolefnishlutlaus.

Við þurfum að hefja strax uppbyggingu fleiri leikskóla. Börnum á leikskólaaldri fjölgar hratt í dag og ástandið er ekki gott fyrir.

Við þurfum að tryggja að boðið sé upp á húsnæði í bænum fyrir alla tekjuhópa.

Við þurfum að einfalda stjórnsýslu vegna þjónustu við aldraða hvort sem hún er á hendi ríkisins eða sveitarfélagsins.

Við verðum að gera það sem í okkar valdi stendur til að skóli án aðgreiningar standi undir nafni. Með hækkandi hlutfalli barna með annað móðurmál en íslensku þarf meiri íslenskukennslu og tíma fyrir félagslega aðlögun til að gera þeim kleift að verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Hver er ég

Ég heiti Bergljót og er alin upp í Hvömmunum þar sem hitastigið er oftast 1°C hærra en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef aðallega búið í austurbæ Kópavogs þó með árs hliðarspori í Reykjavík og öðru í Bandaríkjunum. Síðustu tuttugu ár hef ég notið þess að búa í Salahverfi ásamt eiginmanni og tveimur börnum sem nú hafa þó hleypt heimdraganum. 

Ég útskrifaðist frá MK 1983, er menntaður landfræðingur frá HÍ, með diploma í rekstrar- og viðskiptafræði frá HÍ og er að klára garðyrkju/skógræktarnám við LBHÍ.

Ég hef lengst af unnið í tæknigeiranum, var lengi yfirmaður upplýsingatæknideildar hjá Veritas Capital sem er stærsta lyfjadreifingarfyrirtæki á Íslandi en hef síðan árið 2016 unnið að mestu sjálfstætt. Ég er í hlutastarfi framkvæmdastjóri tæknisamtakanna Icepro, nefndar um rafræn viðskipti og stofnaði árið 2018 ásamt fleirum fyrirtækið Smartfix ehf. sem sinnir viðgerðum á snjalltækjum og tölvum.

Ég hef setið í stjórn Samfylkingarinnar í Kópavogi frá árinu 2014 og gegndi stöðu formanns árin 2017-2019 en er nú gjaldkeri félagsins.

Helstu áhugamál mín eru að stuðla að betra samfélagi, trjárækt og golf sem hefur verið íþróttin mín í yfir þrjátíu ár.