Betri Kópavogur

Húsnæði fyrir alla þjóðfélagshópa

Leigjendur, námsmenn og eldri borgarar mega ekki sitja eftir. Mikilvægt er að tryggja fjölbreytt framboð húsnæðis í Kópavogi. Samfylkingin vill eyrnamerkja 20-25% lóðaúthlutanna á landi sem Kópavogur á til óhagnaðardrifinna félaga. Við viljum tryggja að ungt fólk þurfi ekki að flytja úr Kópavogi til að koma sér upp heimili, heldur að nægilegt framboð verði af litlu, hagkvæmu og þar með ódýru húsnæði til kaups eða leigu. Kópavogsbær á að sjá til þess að nægilegt framboð sé af húsnæði fyrir námsmenn, leigjendur, eldri borgara og þá sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda. Kópavogsbær á að leita samstarfs við byggingafélög verkalýðshreyfingarinnar eins og Bjarg, sem er í eigu ASÍ, og BSRB um uppbyggingu á nýju húsnæðiskerfi fyrir einstaklinga sem tilheyra lægstu tekjuhópunum. Einnig á bærinn að leita samstarfs við húsnæðissamvinnufélög við að byggja upp hagstæðan leigumarkað eins og gert hefur verið fyrir námsmenn til margra ára. Óásættanlegt er að engin námsmannaíbúð sé til staðar í Kópavogi og þurfa þeir Kópavogsbúar að flytja til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar til að fá húsnæði. Horfa má til Kársness með staðsetningu á námsmannaíbúðum sem og Fannborgarreits í miðbæ Kópavogs. Með þessu móti getur Kópavogsbær skapað úrræði fyrir ungt fólk, aldraða og tekjulága þannig að þeir geti leigt öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Engin námsmannaíbúð er í Kópavogi. Engum lóðum hefur verið úthlutað til byggingafélaga námsmanna og síðastliðin átta ár hefur engum lóðum verið úthlutað til húsnæðissamvinnufélaga eða byggingafélaga eldri borgara. 

Við viljum tryggja fjölbreytt framboð húsnæðis í Kópavogi. Ungt fólk á ekki að þurfa að flytja úr Kópavogi til að koma sér upp heimili eða til að fara í nám. Kópavogsbær á að sjá til þess að nægilegt framboð sé af húsnæði fyrir námsmenn, leigjendur, eldri borgara og þá sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda. 

Skref okkar að betri húsnæðismarkaði:

  • 20-25% lóðaúthlutanna á lóðum bæjarins verði til óhagnaðardrifinna verkefna.
  • Samvinna við húsnæðissamvinnufélög á borð við Bjarg.
  • Gæta að framboði á byggingarlóðum þannig að byggðar verði íbúðir af fjölbreyttri stærð og að nægt framboð verði af húsnæði í bænum.
  • Tryggja framboð af litlu hagkvæmu íbúðarhúsnæði fyrir ungt fólk til kaups eða leigu.
  • Námsmannaíbúðir verði byggðar á Kársnesi og á Fannborgarreit í samvinnu við húsnæðisfélög stúdenta.
  • Efla félagslega íbúðakerfið.

Brúum bilið fyrir barnafólk

Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskólans þannig að öll börn fái leikskólapláss við 12 mánaða aldur. Leikskólinn er fyrsta skólastigið. Yfir 100 leikskólapláss standa auð í Kópavogi vegna manneklu. Þessu þarf að breyta. Við viljum bæta kjör og starfsumhverfi starfsfólks í leikskólum Kópavogsbæjar og stytta vinnuvikuna. Einnig þarf að byggja ungbarnadeildir við leikskóla bæjarins.

Skoða nánar!

Á næsta kjörtímabili viljum við:

  • Fjölga leikskólum og brúa bilið - leikskólapláss verði til staðar fyrir börn við 12 mánaða aldur.
  • Bæta vinnuumhverfi í leikskólum í samræmi við vinnuumhverfi grunnskóla og tryggja leikskólum sjálfstæðan fjárhag. *
  • Hafa ókeypis leikskóladvöl til hádegis fyrir öll börn.
  • Endurskoða barngildisviðmið í leikskólum bæjarins.
  • Ráðast í uppbyggingu innviða leik- og grunnskóla Kópavogsbæjar.
  • Tryggja sumarfrístund fyrir öll börn.
  • Bæta starfsaðstæður kennara og bæta sérfræðiaðstoð í kennslu.
  • Fá félagsráðgjafa og/eða sálfræðinga í alla grunnskóla.
  • Minni nemendahópa í skólum og fleiri kennara.
  • Tryggja að hér þrífist og dafni öflug verk-, forritunar- og listkennsla í öllum skólum.
  • Tryggja að nemendur fái þjálfun í upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi.
  • Auka stuðning við snemmtæka íhlutun og geðrækt.
  • Bæta læsi og málskilning.                   

Snjall og grænn Kópavogur

Við viljum grænni Kópavog, plastpokalausan Kópavog í samvinnu við verslanir, snjallari Kópavog með lausnir í ferðamálum, sorpmálum ofl. og við viljum bæta þjónustu við eldri borgara þannig að það verði gott að eldast í Kópavogi.

Sjá nánar!

Við viljum:

  • Að umhverfissjónarmið, loftslagsáhrif og lýðheilsa séu höfð til hliðsjónar við allt skipulag hjá Kópavogsbæ.
  • Taka þátt í og styðja við uppbyggingu Borgarlínunnar.
  • Fjölga grænum svæðum og fækka gráum í samvinnu við íbúa og fyrirtæki.
  • Að Kópavogsbær taki allt skipulagsvald til sín en afhendi það ekki verktökum. Bæjaryfirvöld standi að hönnunarsamkeppnum og kynningum til íbúa svo sómi sé að.
  • Nýta útivistarsvæði Kópavogsbæjar betur líkt og Hlíðargarð og Rútstún. Við viljum auðga og byggja upp útivistarsvæðin í Smáranum, Fossvogsdal, Kópavogsdal, Guðmundarlundi, Kórum og Sölum.
  • Tengja Kópavogsdalinn við menningu og listir með uppbyggingu á þjónustu, hönnunar- og menningarmiðju við Dalveg með tengingu við dalinn.
  • Efna til hönnunarsamkeppni um nýtt skipulag fyrir Kópavogsdal sem fólksvang með svæðum fyrir útivist og bætta lýðheilsu að markmiði.
  • Setja af stað átak í gerð göngu- og hjólastíga um land Kópavogs og bæta aðstöðu í kring með skjólbeltum, vatnspóstum og upplýsingaskiltum. Áhersla verði lögð á að tengja útivistarsvæði saman með göngu- og hjólreiðastígum.
  • Sjá til þess að gangstéttir og göngu- og hjólastígar verði færir á veturna með því að bæta mokstur og  hálkueyðingu. Við viljum hafa samráð við nágrannasveitarfélög um snjómokstur tengdra stíga.
  • Standa vörð um vatnsvernd og vatnsverndarsvæði.
  • Taka upp samgöngustyrki fyrir starfsmenn bæjarins.
  • Kaupa umhverfisvæna bíla fyrir bæinn þegar gömlum er skipt út.
  • Snjallari Kópavog. Við viljum nýta snjalllausnir til hagsældar fyrir íbúana.
  • Sjá til þess að Kópavogur styðji við Parísarsamkomulagið með öllum ráðum.
  • Að opinbert kolefnisbókhald sé gert fyrir bæinn og verði aðgengilegt á vef Kópavogs.
  • Hvetja íbúa til nýtingar og endurvinnslu í anda hringrásarhagkerfisins og sýna gott fordæmi í þeim efnum í rekstri bæjarins.
  • Gera átak í flokkun sorps þar sem bærinn kynnir komandi fyrirkomulag vel fyrir öllum íbúum og aðstoðar þá sem eiga erfitt með aðlögun að því. Sérstaklega þarf að huga að hreyfihömluðum í þeim efnum.
  • Gefa Kópavogsbúum tækifæri til þess að velja mismunandi  losunartíma á sorpi. Þeir sem flokka og þurfa minni þjónustu greiði lægra gjald fyrir sorphirðu.
  • Tryggja að nemendur að 18 ára aldri fái ókeypis í strætó.
  • Setja upp hjólastæði við samgöngutorg.
  • Að fylgst verði með loftgæðum reglulega með færanlegum loftslagsmælum.
  • Marka stefnu í rafhleðslumálum og gera áætlun um uppbyggingu hleðslustöðva í bæjarlandinu svo íbúar eigi hægara um vik að hlaða rafbíla.
  • Að í Kópavogi verði kolefni bundið til jafns við það sem bæjarbúar losa og fyrirtækjum og almenningi verði gefinn kostur á gróðursetningu trjáa í upplandi Kópavogs í þessu skyni.

Útrýmum fátækt í Kópavogi

Við viljum ráðast gegn fátækt en leiða má líkum að  því að um 600 börn búi við fátækt í Kópavogi, samkvæmt skilgreiningum í skýrslu UNICEF. Ein meginástæða fátæktar er skortur á húsnæði og því mikilvægt að fjölga félagslegum íbúðum.

Sjá nánar!

Til þess að útrýma fátækt í Kópavogi þurfum við að: 

  • Leggja áherslu á starfsþjálfun fólks sem nýtur fjárhagsaðstoðar.
  • Fjölga félagslegum búsetuúrræðum í Kópavogi og draga þannig úr biðlistum eftir félagslegu húsnæði.
  • Setja á laggirnar notendaráð fólks á fjárhagsaðstoð.
  • Auka félagslega liðveislu fyrir fólk sem lifir á fjárhagsaðstoð.
  • Bjóða verkalýðshreyfingunni upp á samstarf um uppbyggingu á húsnæðiskerfi fyrir einstaklinga sem ekki komast inn á húsnæðismarkaðinn og hafa ekki aðgang að félagslega kerfinu. Þannig gæti Kópavogur skapað úrræði fyrir ungt fólk, aldraða og tekjulága svo að þeir hópar geti leigt öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum.