Betri Mosfellsbær

Stefnuskrá Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ 2022 - 2026

Fjölskylda, barn

Fjölskylda og velferð

Markmið velferðarþjónustu Mosfellsbæjar eiga að vera mannréttindi og jöfn tækifæri fyrir alla. Réttur einstaklinga og fjölskyldna til þátttöku í samfélaginu eru borgararéttindi. Mosfellsbær á að styðja við þau réttindi með sveigjanlegri þjónustu þar sem markvisst er stuðlað að valdeflingu íbúa í sveitarfélaginu. Rétturinn felur í sér að hafa aðgang að starfsemi samfélagsins, skólum, vinnustöðum, húsnæði, umhverfi, upplýsingum og fólki.

Allir íbúar Mosfellsbæjar, eldri sem yngri, eiga rétt á virðingu og félagslegri viðurkenningu. Við viljum að fólk geti búið sér gott heimili í Mosfellsbæ sem hentar mismunandi þörfum þess óháð fjölskyldustærð, aðstæðum, efnahag og aldri. Tekjuviðmið afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignagjöldum verði endurskoðuð. Nauðsynlegt er að stuðningsþjónusta sveitarfélagsins og heimahjúkrun á vegum ríkisins sé samhæfð með þarfir notenda að leiðarljósi. Við viljum meiri fjölbreytni í búsetukostum með því m.a. að koma á samstarfi við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög um uppbyggingu leiguíbúða á viðráðanlegu verði. Sérstaklega þarf að gæta að framboði leiguhúsnæðis á viðráðanlegu verði fyrir tekjulága. Mikilvægt er að Mosfellsbær setji sér heildstæða fjölskyldustefnu með aðkomu bæjarbúa. Við viljum vinna markvisst og örugglega að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allt starf og ákvarðanaferla innan stjórnsýslu og stofnana bæjarins svo Mosfellsbær verði sannarlega barnvænt samfélag. Við viljum að Mosfellsbær sé samfélag fyrir allar fjölskyldur og einstaklinga, ævina alla.

Áherslupunktar

 • Hækkun fjárhagsaðstoðar
  Fjárhagsaðstoð verði á pari við það sem best gerist í nágrannasveitarfélögunum. Áhersla verði lögð á stuðning við skjólstæðinga félagsþjónustunnar til að auka virkni og þátttöku í samfélaginu.
 • Félagslegt leiguhúsnæði
  Hið félagslega leiguíbúðakerfi verði eflt þannig að aðgangur Mosfellsbæjar að leiguíbúðum á hverjum tíma svari þörf fyrir félagslegt leiguhúsnæði.
 • Efla stuðning til sjálfstæðrar búsetu
  Stuðningsþjónusta og heimahjúkrun verði samhæfð og efld til muna til að gera sem flestum kleift að viðhalda sjálfstæðri búsetu.
 • Lækkun fasteignagjalda
  Tekjuviðmið afsláttar af fasteignagjöldum elli og örorkulífeyrisþega verði endurskoðuð.
 • Gjaldfrjálsa félagslega heimaþjónustu
  Þeir íbúar sem rétt eiga á stuðningsþjónustu (félagslegri heimaþjónustu) samkvæmt reglum þar um fái hana endurgjaldslaust.
 • Samþætt þjónusta
  Nauðsynlegt er að stuðningsþjónusta sveitarfélagsins og heimahjúkrun á vegum ríkisins sé samhæfð með þarfir notenda að leiðarljósi.
 • Betri upplýsingagjöf, ráðgjöf og eftirfylgni
  Við viljum bæta upplýsingagjöf fjölskyldusviðs þannig að tryggt sé að notendur þekki rétt sinn og viti hvaða þjónusta sé í boði.
 • Bæta þjónustu við fólk með fötlun
  undefined
 • Þróa þarf áfram innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar í samstarfi við þá sem nýta þjónustuna.
Börn, kubbar

Skóla- og fræðslumál

Skólar í Mosfellsbæ eiga að vera í fremstu röð. Við viljum að okkar skólar séu bestir í því að stuðla að vellíðan, vexti og þroska barna okkar. Til þess þurfum við m.a. að laða að bestu kennarana og fagfólkið inn í skólana.

Við leggjum áherslu á að öll börn í bænum eiga rétt á að þroska hæfileika sína og njóta jafnréttis til náms, þroska og vellíðanar. Til að það verði að veruleika þarf að stórefla stoðþjónustu innan skólakerfisins og ráða fagfólk með ýmsa sérþekkingu sem þörf er fyrir. Tryggja skal að stuðningur við börn miðist við þarfir en sé ekki háður greiningum. Hlúa þarf að samstarfi á milli skóla, skólastiga, félagsþjónustu og allra þeirra aðila sem sinna tómstundum barna og ungmenna til að treysta stuðningsnet þeirra.

Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í að undirbúa börn undir þátttöku í margbreytilegu og sífellt flóknara lýðræðissamfélagi. Skólinn þarf því að hafa möguleika á að sinna fjölbreyttri fræðslu sem kallar á ýmiss konar sérfræðiþekkingu sem þarf þá að vera aðgengileg fyrir skólana.

Símenntun starfsfólks skólanna er órjúfanlegur hluti metnaðarfulls skólastarfs. Þeim þáttum þarf að sinna á markvissan hátt og hvetja starfsfólk leik- og grunnskóla til að sækja sér viðbótarþekkingu sem nýtist skólunum.

Samfylkingin vill stefna að gjaldfrjálsum skóla. Við viljum að skólamáltíðir, hollar og næringarríkar, verði gjaldfrjálsar í leik- og grunnskólum. Öll börn hafi þannig jafnan aðgang að góðu og heilbrigðu námsumhverfi sem stuðlar að jafnræði meðal barna óháð efnahag foreldra.

Skólamannvirki standa oft á tíðum auð utan hefðbundins skólatíma. Þar felast ónýtt tækifæri sem hægt er að nýta með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.

Vinna þarf stefnumótun til framtíðar um uppbyggingu og viðhald skólamannvirkja í nánu samstarfi við skólasamfélagið og í takti við breytingar í samfélaginu. Þannig verði unnið gegn því að bæjarfélagið lendi í ógöngum í framtíðinni vegna skorts á skólahúsnæði.

Áherslupunktar

 • Fjölbreyttari sérfræðiþekkingu inn í skólana
  Til að skóli án aðgreiningar standi undir nafni og geti sinnt þeim börnum sem þarfnast og eiga rétt á auknum stuðningi þarf öflugt teymi með fjölbreytta sérfræðiþekkingu inn í skólana. Við viljum ráða sérfræðinga með mismunandi þekkingu inn í teymi sem þjónustar skóla bæjarins.
 • Leikskólarými fyrir ungbarnafjölskyldur
  Vinna skal að því að tryggja öllum börnum frá 12 mánaða aldri leikskólapláss burtséð frá því hvenær ársins þau eru fædd.
 • Heilstæð skólahverfi og stærð skóla
  Við skipulagningu nýrra íbúahverfa verði horft til þess að hvert hverfi sé heilstætt skólahverfi og þannig verði gætt að samheldni og félagsauði hverfanna. Sett verði viðmið um æskilega stærð skóla út frá faglegum viðmiðum hvað varðar fjölda barna og ákveðin þau mörk sem ekki er ásættanlegt að fara yfir til lengdar.
 • Gjaldfrjáls leikskóli – fyrsta skólastigið
  Við stefnum að gjaldfrjálsum leikskóla með það markmið að sá tími sem ætlaður er i skipulagt, faglegt starf samkvæmt námsskrá verði gjaldfrjáls. Fab Lab Mosó Til að efla frumkvöðlahugsun og nýsköpun meðal grunnskólanema viljum við setja á fót Fab Lab sem nýtast mun öllum skólum bæjarins.
 • Viðhald skólamannvirkja
  Gætt verði að fullnægjandi viðhaldi skólamannvirkja og áætlanir um fyrirbyggjandi viðhald og endurbætur uppfærðar með reglubundnum hætti.
Skilti, gangandi, hjól, umferð

Skipulag og umhverf

Við búum að einu fallegasta bæjarstæði landsins og viljum standa vörð um sérkenni þess. Umhverfið hefur mikil áhrif á líðan og lífshætti íbúanna og þess vegna skipta skipulags- og umhverfismál miklu máli í ört vaxandi bæjarfélagi. Við viljum styrkja ásýnd bæjarins sem útivistarbæjar, sveitar í borg með fjölbreyttri þjónustu og umhverfisvænni atvinnustarfsemi sem og möguleikum til íþrótta og frístunda fyrir alla. Götur, torg og græn svæði eiga að vera aðlaðandi, mannvæn og skjólsæl umgjörð daglegs lífs í Mosfellsbæ.

Við endurskoðun á gildandi aðalskipulagi skal tekið mið af forsendubreytingum í Mosfellsbæ hvað varðar íbúafjölgun, uppbyggingu nýrra hverfa og tengingum við útivistarsvæði. Þá skal endurskoðunin einnig gerð m.t.t. loftslagsáhrifa og loftslagsmála.

Loftslagsmál eru stærstu úrlausnarefni samtímans og framtíðarinnar. Kolefnislosun vegna bílaumferðar er stærsti einstaki liðurinn í kolefnisbókhaldi höfuðborgarsvæðisins. Vinna þarf markvisst að því að gera Mosfellsbæ sjálfbærari hvað varðar störf, þjónustu og búsetu. Stuðla þarf að aukinni notkun almenningssamgangna og virkra ferðamáta með því að standa vörð um Borgarlínuverkefnið, efla strætósamgöngur á milli nýrra hverfa og eldri hverfishluta svo betra flæði verði innan bæjarins og bæta göngu- og hjólastígakerfið.

Tryggja þarf samheldni milli umhverfis- og skipulagsmála. Þessu má ná fram með grænu skipulagi, sem nær til heildstæðs útivistastígakerfis þar sem almenningsréttur er tryggður, skógræktarsvæði verði skilgreind heildstætt.

Við viljum að náttúran njóti alltaf vafans, að líffræðilegur fjölbreytileiki sé verndaður og að unnið verði að endurheimt lífríkis sem átt hefur undir högg að sækja.

Áherslupunktar

 • Nýtt miðbæjarskipulag
  Efna skal til samkeppni um nýtt miðbæjarskipulag þar sem miklar forsendubreytingar hafa orðið. Greina þarf þörf og móta langtímastefnu hvað varðar þjónustu. Endurskoða skal þéttni byggðar og skilgreina endastöð borgarlínu í skipulaginu með tengingu inn á nýjan innanbæjarstrætó. Taka skal mið af algildri hönnun hvað varðar aðgengi- og öryggismál fyrir gangandi vegfarendur og rýmismyndun torg- og dvalarsvæða.
 • Fjölbreytt íbúðasamsetning
  Skipulag stuðli að fjölbreyttri íbúðasamsetningu með kvöðum um hlutfall mismunandi húsnæðistegunda innan hvers svæðis. Íbúar þurfa að hafa möguleika til að stækka eða minnka við sig á mismunandi æviskeiðum innan sveitarfélagsins.
 • Heildstæð skólahverfi skipulögð út frá sjálfbærni
  Ný hverfi verði skipulögð með sjálfbærni í huga sem heildstæð skólahverfi með staðbundna þjónustu. Tryggja skal greið tengsl við almenningssamgöngur milli hverfishluta og skilgreina stofnstígatengingar til annarra hverfa bæjarins og inn á græn svæði. Opin græn svæði, s.s. leiksvæði, skulu vera í forgangi við uppbyggingu hverfanna og kostuð af landeigendum sé skipulagssvæðið ekki í eigu Mosfellsbæjar.
 • Loftslagsstefna með mælanlegum markmiðum
  Bærinn setji sér, í samræmi við lög, skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun í starfsemi bæjarins ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð. Bærinn horfi ekki einungis á hlutverk sitt sem rekstraraðila heldur einnig sem stefnumótandi aðila varðandi framtíðarþróun loftslagsmála næstu 50-100 árin.
 • Umhverfisvöktun, skógrækt og verndun búsvæða
  Tryggja skal að ekki sé þrengt að árbökkum og árfarvegir geti tekið við flóðum. Stuðla skal að endurheimt búsvæða þar sem það á við og tryggja almannarétt með lagningu stíga meðfram ám og vötnum. Gera þarf betri tengingar inn á jaðarsvæði í fellum og skilgreind skógræktarsvæði bæjarins.
 • Deiliskipulög og hverfisskipulög
  Tryggja verður að ný deiliskipulög haldi sem best og taki ekki sífelldum breytingum svo fyrirsjáanleiki kaupenda sé tryggur. Ný hverfisskipulög eða deiliskipulög skulu gerð fyrir eldri hverfi þar sem slík eru ekki fyrir hendi. Þetta stuðlar að samræmdri uppbygginu í eldri hverfum bæjarins með fyrirsjáanleika í breytingum innan hverfanna.
 • Almenningssamgöngur
  Tryggja verður skilvirkar almenningssamgöngur og stuðla að hringrásarskipulagi sem gerir innanbæjarstrætó kleift að ganga í hringakstri á milli hverfa innan bæjarins.
 • Grenndargámar
  Til að auðvelda og hvetja til flokkunar skal setja grenndargáma í hvert hverfi.
blóm

Lýðræði – mannréttindi -stjórnsýsla

Stjórnsýslan starfar fyrir bæjarbúa og í umboði þeirra. Samfylkingin hefur alla tíð barist fyrir auknu gagnsæi í ákvörðunum stjórnsýslunnar og góðu aðgengi bæjarbúa að upplýsingum. Gagnsæi og aðgengi að upplýsingum eru grundvallaratriði í lýðræðislegri stjórnskipan.

Standa þarf vörð um jafnrétti allra íbúa til þjónustu sveitarfélagsins.

Raunhæfar framkvæmdaáætlanir með mælanlegum markmiðum skulu fylgja allri stefnumörkun á vegum bæjarfélagsins og skal aðgangur bæjarbúa að þeim mælingum vera tryggður. Niðurstöður mælinganna skal birta á vef bæjarins svo bæjarbúar geti fylgst með framvindu mála.

Efla þarf raunverulegt þátttökulýðræði með auknu samráði bæjaryfirvalda við bæjarbúa og auknu gagnsæi í allri ákvarðanatöku.

Fjármunir bæjarsjóðs eru almannafé og því þarf að gæta ábyrgðar, skynsemi og gagnsæis í meðferð þeirra. Fagnefndir bæjarins eru mjög mikilvægur hlekkur í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku og þær þarf að efla.

Vinnustaðir bæjarins eiga að vera til fyrirmyndar í mannréttinda- og jafnréttismálum.

Áherslupunktar

 • Efla Öldungaráð
  Öldungaráð er sjálfstæður og óháður ráðgefandi aðili gagnvart bæjarstjórn hvað varðar málefni er snerta eldri borgara. Við viljum virkt aðhald frá Öldungaráði og að því sé gert kleift að uppfylla skyldur sínar skv. lögum.
 • Styrkja hlutverk fagnefnda
  Hlutverk nefnda verði endurskoðað með það að markmiði að þær taki ríkara frumkvæði á sínum málefnasviðum og þátttaka þeirra í fjárhagsáætlunargerð verði aukin.
 • Opna og skilvirka stjórnsýslu
  Áfram verði haldið á þeirri braut að auka og auðvelda aðgengi íbúa að ákvörðunum og áætlunum stjórnsýslunnar. Öll gögn sem liggja til grundvallar almennum ákvörðunum bæjaryfirvalda og ekki ríkir trúnaður um skulu vera aðgengileg á vef bæjarins.
 • Aukið samráð við íbúa
  Við viljum kanna árlega með markvissum hætti viðhorf og upplifun þeirra sem njóta þjónustu frá sveitarfélaginu í mismunandi málaflokkum. Bæjarstjórn fari til bæjarbúa og haldi fundi með íbúum einstakra hverfa um þau mál sem snerta þau sérstaklega. Standa þarf vörð um verkefnið Okkar Mosó og þróa það áfram.
 • Efla starfsemi Ungmennaráðs
  Starf Ungmennaráðs verði þróað áfram og vægi þess sem ráðgefandi aðila gagnvart bæjarstjórn og fagnefndum verði eflt. Ungmennaráði verði gert kleift að vera ein megin stoð barnvæns samfélags í Mosfellsbæ. Ungmennaráð tilnefni áheyrnarfulltrúa til setu í fagnefndum bæjarins.
Akureyri, menning

Menningarlíf

Í Mosfellsbæ kraumar ekki bara heitt vatn undir niðri heldur skapandi og skemmtilegt sjálfstætt sveitarfélag. Hlutverk bæjarfélagsins er að styðja við og hlúa að sjálfsprottinni menningar¬starfsemi sem og að standa sjálft að menningarstarfi. Í Mosfellsbæ á að vera gaman að alast upp og eldast og allt þar á milli.

Mosfellsbær býr að sterkri og fjölbreyttri atvinnu-, byggða- og menningarsögu. Þá sögu þarf að gera sýnilega. Það styrkir bæjarbraginn.

Listaskólinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir menningarlífið og hann þarf að efla. Nauðsynlegt er að finna honum hentugt framtíðarhúsnæði.

Við viljum að forræði Hlégarðs sé á hendi bæjarins og að svæðið allt verði tengt skipulagi miðbæjarsvæðisins. Til að styrkja umgjörð menningarlífs í bænum þarf menningarlífið að eignast lögheimili. Þannig eflum við allt lista- og menningarlíf í bænum.

Bókasafn Mosfellsbæjar gegnir mikilvægu og fjölþættu menningarhlutverki í bænum og þarf svigrúm til að vaxa og þróast til framtíðar.

Áherslupunktar

 • Menningarhús
  Hlégarður verði Menningarhús bæjarins þar sem gróskumikil menningarstarfsemi blómstrar. Haldin verði hugmyndasamkeppni um nýtingu hússins og Hlégarðssvæðisins með það fyrir augum að fjölbreytt menningar- og félagsstarfsemi íbúa á öllum aldri eigi þar athvarf.
 • Framtíðarhúsnæði fyrir Listaskólann
  Finna Listaskólanum framtíðarhúsnæði svo skólinn megi vaxa og dafna og svara sívaxandi eftirspurn. Skoða ætti gaumgæfilega hvort Hlégarðssvæðið sé ekki rétti staðurinn fyrir skólann að blómstra.
 • Listasmiðja
  Komið verði á fót listasmiðju þar sem ungir sem aldnir af öllum kynjum geta komist í aðstöðu til að sinna fjölbreyttri sköpun, s.s. tónlist, myndlist og handverki ýmiss konar
 • Fleiri útilistaverk
  Mótuð verði stefna um listaverkakaup bæjarins og á kjörtímabilinu verði lögð sérstök áhersla útilistaverk. Gerð verði áætlun um uppsetningu aðkomuverka við bæjarmörkin. Lista- og menningarsjóður verði efldur svo hann geti betur stutt við fjölbreytta lista- og menningarstarfsemi í bænum.
 • Efla menningartengda ferðaþjónustu
  Bærinn leitist við að styðja við menningartengda ferðaþjónustu sem byggir á byggðaog atvinnusögu sveitarfélagsins. Þetta getur bærinn gert með því að skapa aðstæður í gegnum skipulag, samstarf í kynningarmálum og með því að tengja saman stofnanir, samtök, fyrirtæki og einstaklinga.
Kópavogur, gróður, tré

Atvinnumál

Velferðarsamfélagið byggir m.a. á gróskumiklu atvinnulífi. Samfylkingin vill að mótuð verði atvinnustefna þar sem lögð verði áhersla á umhverfisvæna starfsemi sem tekur tillit til fjölbreyttrar og viðkvæmrar náttúru bæjarins.

Móta þarf framtíðarsýn varðandi athafna- og iðnaðarsvæði í bæjarfélaginu svo viðkomandi starfsemi geti dafnað í sátt við aðra uppbyggingu í bænum.

Skipulag miðbæjarsvæðis taki mið af því að þjónusta og verslun geti blómstrað í góðu nábýli við íbúabyggð þannig að það sé rými fyrir fjölbreytilega starfsemi í miðbænum.

Við teljum að byggja ætti á þeirri þekkingu og reynslu sem þegar er til staðar í bænum varðandi heilsutengda starfsemi.

Við viljum stuðla að öflugri, vistvænni matvælaframleiðslu í bæjarfélaginu.

Áherslupunktar

 • Heilsutengd atvinnustarfsemi
  Stuðla að uppbyggingu umhverfisvænnar, heilsutengdrar atvinnustarfsemi sem byggir á jarðhita sem er til staðar í sveitarfélaginu.
 • Menningartengd ferðaþjónusta
  Bærinn leitist við að styðja við menningartengda ferðaþjónustu sem byggir á menningarsögu bæjarins. Þetta getur bærinn gert með því að skapa aðstæður í gegnum skipulag, samstarf í kynningarmálum og með því að tengja saman stofnanir, samtök, fyrirtæki og einstaklinga.
íþróttir, fótbolti

Íþrótta- og tómstundamál

Fjölbreytt framboð innihaldsríks tómstunda- og félagsstarfs fyrir börn og ungmenni hefur margvíslegt félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunargildi. Þróttmikið íþrótta- og tómstundastarf fyrir unga sem aldna óháð efnahag og félagslegum aðstæðum fjölskyldna eflir og auðgar samfélagið og hefur jákvæð áhrif á lýðheilsu.

Öflugt starf byggir á góðri aðstöðu og fjölbreyttu framboði fyrir alla aldurshópa. Það er hlutverk bæjaryfirvalda að sjá til þess að sú umgjörð sem til þarf sé fjölbreytt og góð og taki mið af stækkandi bæjarfélagi og breyttri aldurssamsetningu íbúa. Móta þarf stefnu til framtíðar um uppbyggingu íþróttasvæða í bænum.

Í ört vaxandi sveitarfélagi er þörf fyrir fjölnota íþróttahús sem nýtist fjölbreyttri íþróttaiðkun og öllum aldursflokkum. Vinna þarf að staðarvali og áætlun um uppbyggingu þess á kjörtímabilinu í samstarfi við íþróttafélög í bænum.

Heilbrigt tómstundastarf barna og ungmenna er samstarfsverkefni foreldra, skóla, íþróttaog tómstundafélaga og bæjaryfirvalda. Samstarf þessara aðlila þarf að efla til að halda enn betur utan um heilbrigt og gott tómstundastarf í bænum.

Áherslupunktar

 • Frístundaávísun fyrir börn og ungmenni
  Frístundaávísunin skal hækka í 75.000 krónur á kjörtímabilinu og ná til barna frá fjögurra ára aldri.
 • Frístundastyrkur fyrir eldri borgara
  Þátttaka í tómstunda-, íþrótta- og félagsstarfi eflir almenna heilsu og stuðlar að félagslegri virkni. Við viljum hækka styrkinn í 20.000 krónur og vinna að aukinni fjölbreytni hvað varðar framboð á íþrótta-, tómstunda- og félagsstarfi í samstarf við samtök eldri Mosfellinga.
 • Ungmennahús
  Starfsemi Ungmennahússins Mosa verði efld á forsendum ungmennanna sjálfra og verði þannig að enn áhugaverðari kosti fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ. Á kjörtímabilinu verði fundið hentugt framtíðarhúsnæði fyrir starfsemina.
 • Fleiri útiæfingatæki og bekki
  Í öllum hverfum bæjarins verði sett upp útiæfingatæki og bekkir í nágrenni við gönguleiðir með það að markmiði að efla heilbrigði og lýðheilsu íbúa á öllum aldri.