Björn Guðmundsson 1. - 4. sæti

"Ég vil vinna fyrir hagsmunum fólksins í landinu."

Nafn: Björn Guðmundsson

Fæðingardagur: 7. júní 1956

Starf: Húsasmiður

Heimili: Garðabraut 6, 300 Akranesi

"Ég vil vinna fyrir hagsmunum fólksins í landinu."

---

Ég vil að staðið verði við þau loforð sem gerð voru við stofnun lífeyrissjóða um að þeir eigi að bæta kjör fólks til viðbótar við almannatryggingakerfið og þannig eigi að afnema tafarlaust krónu á móti krónu skerðingu sem fengið hefur að viðgangast of lengi. Öllu fólki á að tryggja laun sem hægt er að lifa á. Við eigum að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft, ég hef þá trú að allir vilji getað lifað með reisn.

Heilbrigðismálin eru mér líka ofarlega í huga, á tyllidögum státum við okkur af því hvað við eigum gott kerfi. En er það svo um allt land í raun og veru? Nei, því miður skortir þar verulega mikið á. Við þurfum að stokka upp kerfið og endurskipuleggja það. En við eigum frábært starfsfólk í heilbrigðisgeiranum sem er okkur afar dýrmætt og vinnur þrekvirki á hverjum degi. Að þessu fólki þurfum við að hlúa, sérstaklega við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag.

Atvinna er svo ein af undirstöðum velferðar sérhvers manns. Því er nauðsynlegt að hlúa að aukinni atvinnustarfsemi og dreifa henni um land allt. Fara þarf í gegnum allt regluverkið og sjá hvar skórinn kreppir að í stofnun og rekstri fyrirtækja. Regluverkið þarf að vera gert einfalt og skýrt.

Fiskveiðistjórnunarkerfinu þarf að breyta strax þar sem markaðsleiðin á að vera notuð til grundvallar. Þannig fæst sanngjarnt verð fyrir aflaheimildirnar og útgerðirnar borga eðlilegt gjald fyrir afnot sinni af auðlindinni. Á sama tíma eigum við að halda áfram að berjast fyrir breytingum á stjórnarskránni í anda niðurstöðu stjórnlagaráðs. Þannig náum við fram grundvallarbreytingum á á auðlindaákvæðinu svo tryggt verði að allar auðlindir séu í eigu þjóðarinnar.

Landbúnaður er mikilvægur bæði vegna matvælaöryggis og verndunar lands. Ég treysti íslenskum bændum til að varðveita landsins gæði og skila landinu betra en þeir tóku við því. Auka þarf frjálsræði í framleiðslu landbúnaðarafurða, svo sem með heimaslátrun og vinnslu afurða heim á búunum. Treystum bændum til að skila okkur fullkominni vöru.

Það er hægt að grípa til fjölmargra aðgerða til að fjármagna þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru fyrir fólkið í landinu ef vilji er fyrir hendi að vinna að því. Allavega mun ég ekki una mér hvíldar fyrr en það tekst að vinna á fátækt í landinu og kjör aldraðra og öryrkja verði leiðrétt þannig að fólk geti haft það sómasamlegt.

Þess vegna gef ég kost á mér í 1.-4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.