Borgarnesræðan

Það er mér bæði ánægja og nýnæmi í að sitja fund hjá svo virðulegri stofnun. Ég er nú komin yfir miðjan aldur og hef verið þátttakandi í skipulögðu pólitísku starfi í meira en 20 ár, en hef aldrei komist á fund hjá flokksstjórn fyrr. En það megið þið vita að það vefst ekkert fyrir mér, ég er hvorki uppveðruð né óttaslegin. Ég gleðst bara yfir því að fá að taka þátt í því með góðu fólki að búa til nýjan, stóran, frjálslyndan stjórnmálaflokk sem sameinar innan sinna vébanda það fólk og þau málefni sem hafa sett svip sinn á baráttuna fyrir jöfnuði og jafnrétti á Íslandi sl. aldarfjórðung. Ég gleðst yfir því að fá að vera í forsvari fyrir flokk sem í stefnu og starfsháttum ætlar að taka mið af þörfum og aðstæðum fólks á nýrri öld.

En ég finn líka til mikillar ábyrgðar því ég veit að væntingarnar eru miklar bæði til mín og Samfylkingarinnar. Það er gott og við ætlum að standa undir þeim, en við verðum engu að síður að gæta þess að við lyftum þeim ekki í slíkar hæðir að veruleikinn gefi okkur aldrei kost á að mæta þeim.

Þegar ég stend hér fyrir framan flokksstjórnina sem nýbakaður frambjóðandi og það sem meira er – forsætisráðherrakandidat - búast sjálfsagt flestir við því að ég tali um kosningabaráttuna og það sem þar bíður okkar. Formaður flokksins hefur þegar gert þeim málum ágæt skil og ég ætla því að geyma mér frekari umfjöllun um þau mál til betri tíma. Ég ætla núna að tala um þau tækifæri sem við stöndum andspænis, tala um það sem liggur í loftinu – reyna að höndla það af því að ég held að það skipti máli.

Stundum leynir það sér ekki að það liggur eitthvað í loftinu – þá er eins og við skynjum að það sé að verða til þögul en víðtæk sátt um eitthvað nýtt. Þessi sátt, þessi nýja sýn, hefur kannski verið að myndast á löngum tíma en svo verður eitthvað til að kalla hana fram, til að gefa henni form og inntak. Stundum eru þetta eins og vorleysingar eftir miklar frosthörkur og vatnið brýst fram eftir þeim farvegum sem það finnur sér – gömlum og nýjum og enginn ræður við eitt eða neitt.

Ég hef tvisvar orðið þess sterklega áskynja í pólitík að eitthvað lægi í loftinu. Fyrst þegar við stofnuðum Kvennaframboðið og Kvennalistann 1982-´83. Þá skynjuðu flokkarnir ekki sinn vitjunartíma og höfðu ekki áttað sig á þeirri þungu undiröldu sem var meðal kvenna. Þegar hún skall svo á gátu þeir ekki lengur virkjað hana og hún fann sér farveg í nýrri pólitískri hreyfingu. Veturinn 1993-´94 lá líka eitthvað í loftinu. Það var almenn krafa um breytt gildismat við stjórn borgarinnar, öðruvísi stjórnarhætti, annað viðmót og betri þjónustu þar sem þarfir fólks væru í fyrirrúmi en ekki minnisvarðaárátta stjórnmálamanna. Þeir stjórnmálaflokkar sem þá voru í minnihluta í borgarstjórn báru sem betur fer gæfu til að verða við þessum kröfum og veita þeim farveg í Reykjavíkurlistanum.

Og núna liggur eitthvað í loftinu og það er okkar verkefni í Samfylkingunni að breyta því úr óræðum væntingum í orð og athafnir.

En hvað er það sem liggur í loftinu? Er það valdþreytan í ríkisstjórninni? Hefur fólk fengið sig fullsatt á sjálfmiðuðu stjórnlyndi Davíðs Oddssonar og félaga? Mislíkar fólki hvernig gæðum og embættum ríkisins er úthlutað til flokksfélaga og gæðinga? Finnst því nóg komið af afskiptum stjórnarráðsins af fyrirtækjum og fjármálastofnunum landsmanna?

Öllum þessum spurningum má hiklaust svara játandi en þó er ekki nema hálf sagan sögð. Það væri mikil einföldun að halda því fram að þetta sé allt og sumt. Veruleikinn er talsvert flóknari. Það sem liggur í loftinu er krafan um að gefa stjórnmálunum og stjórnmálaflokkunum nýtt inntak og nýja ímynd. Þessi krafa er ekki ný af nálinni – hún hefur kraumað undir yfirborðinu sl. tvo áratugi og m.a. valdið talsverðum umbrotum á hinum svokallaða vinstri væng stjórnmálanna. En svo skall á frostaveturinn mikli með fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1991 og þessi krafa um endurnýjun í stjórnmálum varð hálft í hvoru úti. Ef frá eru taldar breytingar í efnahags- og atvinnulífi sem urðu vegna EES-samningsins, undir forystu Jóns Baldvins og Jóns Sigurðssonar, og einkavæðing ríkisbanka hefur harla lítið nýtt borið til tíðinda í íslenskum stjórnmálum á áratug Davíðs Oddssonar. En núna eru vorleysingar og það getur allt gerst.

En hvert er þá þetta nýja inntak stjórnmálanna og stjórnmálaflokkanna? Að hvaða leyti verða stjórnmál 21. aldarinnar frábrugðin stjórnmálum liðinnar aldar? Ég leyfi mér að halda því fram að þar sé margt frábrugðið. Hið pólitíska samfélag 20. aldarinnar byggðist á sterku ríkisvaldi sem bjó yfir þróuðu skrifræði, öguðum stjórnmálaflokkum sem lutu pólitískri goggunarröð, miðstýrðum verkalýðsfélögum sem höfðu vald á sínum félagsmönnum og sömdu um félagslegar úrbætur, tiltölulega fáum öflugum iðn-, eða í okkar tilviki, sjávarútvegsfyrirtækjum sem voru máttarstólpar hvert á sínu sviði eða í sínu plássi og framleiðslukerfi sem byggði á færibandi fjöldaframleiðslunnar.

Stjórnmálin snerust um vinstri og hægri stefnu en það sem réð úrslitum um hvorum megin flokkar lentu var afstaða þeirra til hlutverks og stærðar ríkiskerfisins og hver afskipti ríkisins ættu að vera af efnahags- og atvinnulífi. Í dag virðast skilin milli vinstri og hægristefnu markast af afstöðunni til einkavæðingar – og þá fyrst og fremst hversu langt eigi að ganga í þeim efnum. Að öðru leyti hafa þessi hugtök mjög takmarkaða þýðingu – þau lýsa ekki veruleika og viðfangsefnum dagsins í dag. Þau eru erfðagóss úr fortíðinni sem er ágætt að skoða og skemmta sér við á tyllidögum en hafa takmarkað notagildi í nútímanum. Á þetta bentum við raunar þegar í Kvennalistanum 1982-´83. Þá töluðum við um þriðju víddina sem Blair ,,stal” og staðfærði og kallaði þriðju leiðina.

Við verðum að horfast í augu við að ekkert er í dag eins og það áður var.

Hægt og hægt
fjúka fjöllin burt
í fangi vindanna
streyma fjöllin burt
í örmum vatnanna.

Hægt og hægt
ber heim þinn úr stað.

Þannig orti Hannes Pétursson í ljóðabókinni Stund og staðir.

Heimsmyndin hefur breyst. Heim okkar hefur borið úr stað. Það hefur dregið verulega úr trausti á öllum helstu stofnunum samfélagsins – ríkisstjórn, ráðherrum, alþingi, stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, lögreglu, kirkju, fjölmiðlum og menntastofnunum. Það kveður raunar svo rammt að þessu að sjálft þjóðríkið nýtur ekki lengur trausts og þeim fjölgar sem draga í efa getu þess til að ráða flóknum verkefnum og vandamálum til lykta á farsælan hátt.

Af hverju er þessi skortur á trausti? Er hann vegna þess að þeir sem stjórna þessum stofnunum eru miklu verr af Guði gerðir en þeir sem stjórnuðu þeim á árum áður? Eða er hann vegna þess að almenningur er orðinn svo heimtufrekur – kann ekki gott að meta? Ég held að svarið liggi ekki í þessu tvennu heldur hinu að þessar stofnanir hafa ekki enn náð að þróast í takt við breytta tíma. Þær urðu til við aðrar aðstæður og bera þess enn merki. Þær hafa ekki náð að raungera það sem liggur í loftinu.

Þessi skortur á trausti hefur ákveðnar hættur í för með sér en líka tækifæri. Tækifæri til að þróa þessar stofnanir samfélagsins í takt við kröfur tímans, tækifæri til að þróa lýðræðið í samfélaginu og auka hlutdeild og ábyrgð almennings á þeim ákvörðunum sem máli skipta. Tækifæri til að breyta átakastjórnmálum í samráðsstjórnmál. Í þeim efnum held ég að Samfylkingin sé á réttri leið með póstkosningu sinni um Evrópusambandið og Reykjavíkurlistinn með allsherjarkosningunni um Reykjavíkurflugvöll. Og þess vegna held ég að Sjálfstæðisflokkurinn sé fastur í viðjum fortíðar – sem einu sinni var og aldrei kemur aftur – þegar hann hafnar öllum leikreglum í lýðræði sem ekki fela í sér fulltrúalýðræði í einhverri mynd. Honum finnst merkilegra að fá niðurstöðu um Evrópusambandið á 1300 manna landsfundi en í 3000 manna almennri kosningu. Hann er flokkur hins stjórnlynda lýðræðis andspænis frjálslyndu lýðræði Samfylkingarinnar.

En hvað er átt við með frjálslyndu lýðræði? Jú, í hinu frjálslynda lýðræði er hinum frjálsa einstaklingi skipað hærra en stofnunum samfélagsins eða eins og einhvern tímann var sagt – frjáls þróun einstaklingsins er forsenda frjálsrar þróunar heildarinnar og öfugt. Merkilegt að það skuli þurfa að kenna sjálfstæðismönnum þessi grundvallaratriði einstaklingshyggjunnar! Í hinu frjálslynda lýðræði tekur einstaklingurinn að sér að verja ákveðin grundvallarréttindi mannsins, þ.e. rétt hvers og eins til þess að skapa sjálfan sig, vera til á eigin forsendum, hafa sérstöðu og njóta viðurkenningar sem slíkur (konur, samkynhneigðir, innflytjendur). Í hinu frjálslynda lýðræði virðum við rétt fólks til skoðana, þar byggjum við á samskiptum og samræðum milli stjórnvalda og samfélags óbreyttra borgara (andófshreyfingar, foreldrafélög, íbúasamtök, einsmálshreyfingar).

Samfélag óbreyttra borgara er sífellt að verða sterkara og um leið gerir vart við sig sú tilhneiging flokkanna – ekki síst Sjálfstæðisflokksins – að ná tökum á þessu samfélagi, koma ár sinni þar vel fyrir borð, nýta þau í flokkspólitískum tilgangi, gera þau að tæki í verkfærasafni sínu og draga þannig úr sjálfstæði þeirra og þar með lýðræðislegu hlutverki og áhrifum. Hið stjórnlynda lýðræði reynir að ýta hinu frjálslynda lýðræði til hliðar.

En hvert er þá viðfangsefni hins nýja flokks – hver er hin nýja pólitík? Hinn nýi flokkur verður að hafa framtíðarsýn sem byggir á því að þróa hér sómasamlegt samfélag þar sem stofnanir og stjórnmálamenn koma fram af virðingu gagnvart fólki, fara að leikreglum sem eru gegnsæjar og þar sem fyllsta jafnræðis er gætt. Samfélag þar sem einstaklingarnir njóta hæfileika sinna og getu á eigin forsendum og þar sem þeim sem hér búa eru tryggð ákveðin lífsgæði. Þau lífsgæði eru ekki bara efnisleg gæði – þó þau séu vissulega mikilvæg – heldur lúta að því að hafa aðgang að fjölbreyttri menningu, góðri menntun, öruggu heilbrigðiskerfi, jafnrétti óháð kynferði, kynþætti og kynhneigð, og aðgang að góðu umhverfi og óspilltri náttúru. Við ætlum ekki að búa í verstöðinni Íslandi – jafnvel þó það gæti gefið mikið í aðra hönd – heldur í nútímasamfélagi með öllu því sem það krefst. Og þess vegna ætlum við heldur ekki að sætta okkur við stjórnvöld sem deila og drottna, umbuna og refsa og ráða örlögum fólks eins og Jóhann Bogesen á Óseyri við Axlarfjörð. Slík stjórnvöld tilheyra liðnum tíma – þau eru tímaskekkja.

Samfylkingin þarf að hafa skýra framtíðarsýn en hún þarf líka að vera meðvituð um dagleg vandamál fólks. Það á að vera verkefni okkar að umbreyta vandamálum hins daglega lífs í opinber málefni og gera almenna velsæld að daglegu viðfangsefni stjórnmálanna. Við ætlum okkur að vera stór flokkur sem rúmar fólk með fjölbreyttar skoðanir og bakgrunn – umburðarlyndur og víðsýnn flokkur – en við ætlum líka að vera flokkur sem þorir að taka erfið mál til umræðu, sem leggur til atlögu við sérhagsmuni sem ganga gegn almannahagsmunum, sem lætur sig ekki varða um viðteknar skoðanir og aðferðir ef þær duga ekki lengur, sem er óhræddur við að fara nýjar leiðir við lausn viðkvæmra deilumála, sem axlar þá ábyrgð sem stjórnmálunum fylgir og tekur óvinsælar ákvarðanir ef það er það sem þarf.

Við ætlum að vera flokkur sem nýtur trausts og hefur trúverðugleika – ekki vegna þess að við höfum svör á reiðum höndum við öllu sem upp kemur heldur vegna hins að við munum vanda okkur við leit að svörum. Heldur ekki vegna þess að við höfum lausn á hvers manns vanda heldur vegna hins að við viðurkennum að flókin viðfangsefni kalla á yfirlegu og góða dómgreind og oftar en ekki fjölþætta úrlausn þar sem hópar og einstaklingar leggja saman. Við eigum að boða stjórnmál sátta og rökræðu en ekki átaka og kappræðu.

Á Íslandi búa aðeins 280 þúsund manns sem er álíka fjöldi og í lítilli borg í Evrópu. Við höfum ekki efni á því að ala á sundurlyndi og átökum – við getum ekki brotið þjóðina niður í andstæðar fylkingar; dregið hana í dilka eftir búsetu, atvinnu, uppruna, kynferði, félagsstöðu eða stjórnmálaafstöðu. Við erum ein þjóð í einu landi. Við erum fámenn en það er í senn styrkur okkar og veikleiki – þetta eru tvær hliðar á sama peningi. Við höfum alla burði til að ná sæmilegri sátt í öllum helstu átakamálum þjóðarinnar.

Sterk höfuðborg er eitt sterkasta tromp landsins í samkeppni við útlönd um fólk og fyrirtæki. Hún hefur hlutverki að gegna fyrir landið allt. En sterk höfuðborg þarf lífvænlegt bakland og þeir sem þar búa sækja næringu sína, bæði í bókstaflegri og yfirfærðri merkingu, í hinar dreifðu byggðir og náttúru landsins. Þess vegna eru hagsmunir höfuðborgar og landsbyggðar ekki andstæðir heldur samofnir. Hvorugt getur án hins verið.

Miklar auðlindir, víðerni og óspillt náttúra næra sjálfsmynd okkar Íslendinga, skapa okkur sérstöðu og gera okkur að því sem við erum – en þetta er líka lifibrauð okkar. Við verðum að nýta náttúruauðlindirnar til að renna stoðum undir fjölbreytt, nútímalegt atvinnulíf, skapandi störf og öflugt velferðarkerfi. Við erum ekki annaðhvort náttúruverndarfólk eða virkjunarsinnar. Ég hef aldrei skilið þá framsetningu ekki fremur en ég hef skilið þá framsetningu að annaðhvort sé fólk með eða á móti mislægum gatnamótum. Við hljótum að spyrja okkur hverjar séu aðstæðurnar á hverjum stað, hvert sé markmiðið, hvað vinnst og hvað tapast.

Í þessum málum eins og öðrum er hægt að ná sátt með aðferðafræði hins frjálslynda lýðræðis sem leiðir ólík sjónarmið saman með það að markmiði að ná sátt sem allir geta sæmilega við unað. Þar sem ábyrgðin á niðurstöðunni og hinn lýðræðislegi réttur til afskipta er sameign okkar allra en ekki bara stjórnvalda. Í umhverfismálum eigum við að hafna hinu stjórnlynda lýðræði og setja hið frjálslynda lýðræði í öndvegi.

Í efnahags- og atvinnumálum hljótum við líka að leiða til öndvegis leikreglur hins frjálslynda lýðræðis. Okkur kemur ekkert við hvað þeir heita sem stjórna fyrirtækjum landsins eða hvaða flokki þeir fylgja að málum. Gamlir peningar eru ekkert betri en nýir. Ef ketti er ætlað að veiða mýs þá má einu gilda hvort hann er svartur eða hvítur – svo lengi sem hann gegnir sínu hlutverki. Í atvinnu- og efnahagslífinu eru það umferðarreglurnar sem gilda og þær eiga að vera skynsamlegar og í þágu alls almennings. Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á leikreglunum en leikendur bera ábyrgð á því að fara eftir þeim.

Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækum landsins sé ein aðalmeinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Þannig má segja að það sé orðstír fyrirtækja jafnskaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans. Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki – þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gegnsæju leikreglur lýðræðisins taki við.

Þetta er verkefni Samfylkingarinnar. Samfylkingin á að vera óháð öllum helstu eignahópunum í samfélaginu, hún á að gæta almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna. Í fjármálum, fyrirtækjarekstri, fjölmiðlum og sveitarstjórnarmálum á Íslandi er ennþá spurt: Í hvaða liði ertu? Ertu í náðinni hjá stjórnarráðinu eða ekki? Þessu verður að linna, við verðum að losna við hina sjálfmiðuðu, stjórnlyndu valdsmenn. Við verðum að endurvekja traust almennings á stofnanir samfélagsins með nýjum leikreglum, nýju inntaki, nýrri ímynd. Þetta er hlutverk Samfylkingarinnar.

Og síðast en ekki síst: Í hinu smáa íslenska samfélagi verður það aldrei þolað að búi tvær þjóðir í efnalegu tilliti. Við getum ekki horft upp á þúsundir ganga atvinnulausa, við getum ekki horft upp á þúsundir berjast í bönkum til að halda þaki yfir höfuðið á sér og sínum, við getum ekki horft upp á þúsundir í óöryggi um afkomu sína vegna elli, örorku eða ómegðar. Svona þarf þetta heldur ekki að vera. Við getum örvað atvinnulífið og auðveldað íbúðareigendum lífið með því að lækka vexti – bæði stýrivexti Seðlabankans og útlánsvexti bankanna sem höfðu 7,7 milljarða í hagnað eftir skatta á síðasta ári. Við getum líka afnumið verðtryggingu fjárskuldbindinga sem myndi gera hvort tveggja í senn, gera vaxtabyrði lána gegnsærri og auka sveigjanleikann í samskiptum lánveitenda og lántakenda. Og við getum dregið úr jaðarsköttum barnafjölskyldna og ellilífeyrisþega.

Samfylkingin hefur verk að vinna í íslenskum stjórnmálum. Hún hefur ekki svör á reiðum höndum við öllum þeim spurningum sem upp kunna að koma en hún kann að leita svaranna. Hún hafnar ráðleysi stjórnvalda sem þora ekki að spyrja en allt þykjast vita. Hún er ekki bundin á klafa gamalla kennisetninga sem eiga rætur sínar í samfélagi gærdagsins. Hún treystir brjóstviti og skynsemi þess fólks sem mesta hefur reynsluna og þekkinguna á hverju sviði og leitar óhrædd í smiðju þess. Hún þorir að setja umdeild mál á dagskrá þjóðmálaumræðunnar. Hún hafnar kreddum og kerfislausnum gamla flokkakerfisins. Hún er ekki hrædd við að ræða nýjar leiðir í opinberum rekstri og þjónustu en hvikar hvergi frá markmiðinu um hina samfélagslegu ábyrgð og nauðsyn jafnréttis og jafnra tækifæra.

Samfylkingin hafnar stjórnlyndi Sjálfstæðisflokksins sem hefur það stefnumið eitt að halda völdum. Samfylkingin býður fram fólk, stefnu og starfshætti með það að markmiði að leysa íslenskt samfélag úr viðjum þeirra þröngsýnu sérhagsmuna sem hafa þrifist í skjóli Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin á erindi – við erum komin til að vera.

Ræða á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Borgarnesi 9. febrúar 2003.