Borgin opnar ungbarnadeildir og fjölgar leikskólaplássum

Reykjavíkurborg ætlar að bæta þjónustu við foreldra með ung börn. Aðgerðir þess efnis voru samþykktar í borgarráði í síðustu viku. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir unnið að því að bæta vinnuumhverfi starfsfólks leikskólanna, fjölga leikskólakennurum og bæta kjör þeirra enn frekar.

Frá og með næsta hausti verða settar á fót sjö ungbarnadeildir við fjóra leikskóla borgarinnar. Um er að ræða leikskólana Miðborg, Holt (Breiðholti), Sunnuás (Laugardal) og Blásali (Árbæjarhverfi) og alls verður pláss fyrir 90 börn á þessum ungbarnadeildum. Stefnt er að því að slíkar ungbarnadeildir verði starfræktar í öllum hverfum borgarinnar.

Þá mun Reykjavíkurborg fjölga plássum um 300 í leikskólum borgarinnar og með samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla og hækka niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum. Niðurgreiðslurnar verða hækkaðar um 10% til viðbótar við 2,5% hækkun sem tók gildi um áramótin.

Nú er að störfum starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara sem skila mun tillögum sínum um mitt ár. Samhliða verður lögð aukin áhersla á að auglýsa og kynna störf á leikskólum Reykjavíkurborgar sem eftirsóknarverð og gefandi störf með börnum í skapandi umhverfi.