Ellen Calmon

Fjölskylduvæn borg fyrir fjölbreytt fólk

Ég heiti Ellen Calmon og býð fram krafta mína í 4. sætið í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Mannréttindi, jafnrétti og velferð

Ég hef verið ötul talskona mannréttinda, jafnréttis og velferðar í borgarstjórn, þar hef ég meðal annars talað fyrir réttindum og þátttöku barna og fatlaðs fólks. Reykjavík á að vera fjölskyldu- og aldursvæn borg en ég vil einnig að hún verði barnvænt sveitarfélag í samræmi við hugmyndafræði UNICEF.

Borgin á að vera umfaðmandi og manneskjuleg, þar sem allir borgarbúar fá tækifæri til að vaxa og dafna á eigin forsendum óháð öllum breytum. Í starfi mínu sem borgarfulltrúi hef ég lagt áherslu á að jafnrétti, lýðræði, inngilding og hugmyndafræði algildrar hönnunar séu höfð að leiðarljósi í allri uppbyggingu á þjónustu og skipulagi borgarinnar. Þetta eru allt málefni sem snúa að því mæta manneskjunni á hennar eigin forsendum, málefni sem ég brenn fyrir.

Borgarfulltrúinn Ellen

Ég tók sæti sem varaborgarfulltrúi árið 2018 og borgarfulltrúi þann 1. júní 2020 í miðjum heimsfaraldri. Þetta kjörtímabil hefur verið fordæmalaust, krefjandi og lærdómsríkt en spennandi og gefandi í senn. Ég brenn fyrir verkefnunum sem fyrir okkur liggja og sækist hér með eftir umboði til að fá að halda áfram að vinna að jöfnuði og enn betri borg.

Auk annarra verkefna hef ég verið fulltrúi Samfylkingarinnar í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði, menningar-, íþrótta- og tómstundaráði og velferðarráði. Ég gegni einnig formennsku stjórnar Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu og hef tekið þátt í stýrihópi um endurskoðun á jafnlaunastefnu og menningarstefnu Reykjavíkur sem samþykkt var nýlega. Í menningarstefnunni má sjá glöggt sjá áherslur sem ég er stolt af eins og inngildingu, aðgengi og barnamenningu.

Um Ellen

Ég er uppalin í Breiðholtinu. Foreldrar mínir voru frumbyggjar þar. Nýflutt til Íslands tóku þau þátt í að byggja blokkina okkar í Fífuselinu. Pabbi minn er franskur innflytjandi og mamma mín er hálf norsk og hálf íslensk. Ég er því af erlendum uppruna en fædd og uppalin í Reykjavík með íslensku að móðurmáli. Eftir um 20 ár í Breiðholtinu og stúdentspróf frá Kvennaskólanum lá leið mín til Akureyrar í háskólanám en lauk svo í Kennaraháskóla Íslands með B.Ed. gráðu. Síðar lá leið mín í Háskóla Íslands þaðan sem ég lauk diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu en hef einnig stundað meistaranám í því fagi. Nú bý ég í Vesturbæ Reykjavíkur með eiginmanni mínum Johan Tegelblom sem er sænskur og saman eigum við soninn Felix Hugo sem er 10 ára og gára tvo.  

Mér finnst dásamlegt að ferðast með vinum og fjölskyldu. Einnig er ég dugleg að heimsækja söfn og sýningar í Reykjavík árið um kring. Allra best finnst mér þó að eiga gæðastundir með syni mínum og eiginmanni.

Kennari, flugfreyja, menningarfulltrúi og formaður

Ég hef starfað í fisk- og kjötvinnslu, á leikskólum, í frístundaheimili og félagsmiðstöð, sem flugfreyja, grunnskólakennari, fræðslu- og menningarfulltrúi, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, ritari þriggja borgarstjóra, að innleiðingu Barnasáttmálans í skóla- og frístundastarf og sem formaður Öryrkjabandalagsins svo eitthvað sé nefnt.   

Sjálfboðaliði

Þá hef ég sinnt fjölmörgum sjálfboðaliðastörfum í þágu mannréttinda- og samfélagsmála, meðal annars sem formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands, fulltrúi í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar, forman Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, ritari Kvenréttindafélags Íslands og stjórnarkona í European Womens Lobby sem eru stærstu kvenréttindasamtök Evrópu.

Reykjavíkurborg á að vera fjölskylduvæn borg fyrir fjölbreytt fólk, græn og  mannvæn borg jöfnuðar.

Ég lofa að leggja mig alla fram um að svo verði og óska eftir stuðningi þínum í  4. sætið.

Ég er alltaf til í spjall, endilega sláðu á þráðinn 694 7864 eða sendu mér póst [email protected]