Tjón upp á 62 milljarða króna

Almenningi farnast best í opnu hagkerfi þar sem frjálsræði ríkir í viðskiptum, samkeppni er virk og gagnsæi ríkir í allri efnahagsstarfsemi. Frjáls viðskipti nást ekki með  afskiptaleysi hins opinbera. Þvert á móti er grundvöllur frjálsra viðskipta ævinlega fólginn í því að stjórnvöld tryggi sanngjarnar leikreglur og skýra umgjörð á markaði …

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Hér er vitnað beint í stefnu Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. Frjáls samkeppni á markaði er grundvöllur neytendaverndar og heilbrigðs atvinnulífs. Hún stuðlar að jafnræði á milli fyrirtækja og lægra vöruverði til neytenda. Hún eykur kaupmátt og bætir kjör almennings. Launafólk á því mikið undir því að stjórnvöld hér á landi styðji við og stuðli að samkeppni á markaði.

Þetta eru ekki flókin sannindi en okkar litla, auðlindadrifna og opna hagkerfi er mjög hætt við samþjöppun og fákeppni á tilteknum mörkuðum. Það er því dapurlegt að fylgjast reglulega með fulltrúum atvinnulífsins hjóla í Samkeppniseftirlitið og starfsemi þess. Sums staðar í Borgartúninu virðist það sjálfstætt markmið að grafa undan samkeppni á markaði og eftirliti stjórnvalda með henni. Þannig haga samtök atvinnurekenda á Norðurlöndunum sér ekki, heldur sjá hag sinn í því að standa með heilbrigðri samkeppni ásamt með verklýðshreyfingunni. Stjórnvöld í nágrannaríkjum okkar styðja einnig myndarlega við starfsemi Neytendasamtaka í sínum löndum, enda meðvituð um mikilvægi þeirra á markaði. Það er ekki gert á Íslandi.

Ólögmætt samráð stóru skipafélaganna Eimskips og Samskipa kostaði íslenskt samfélag tæplega 62 milljarða króna á árunum 2008 til 2013. Þar af var kostnaðarauki neytenda 26 milljarðar króna sem rekja má beint til hækkana gjaldskrár skipafélaganna umfram almennt verðlag. Þetta kom fram á úttekt sem Analytica vann að beiðni Neytendasamtakanna, Félags Atvinnurekenda og VR og birt var í síðustu viku. Hér er um gríðarlegar háar upphæðir að ræða. Til samanburðar nægir að nefna að áætlað er að uppkaup húseigna í Grindavík muni kosta ríkissjóð rúmlega 60 milljarða króna. Það setur tjónið af hinu ólöglega samráði í samhengi sem flest skilja.

Í frétt á heimasíðu Neytendasamtakanna má einnig lesa að lántakendur verðtryggðra lána hafi greitt um 17,4 milljarða aukalega vegna hækkunar vísitölu sem tilkomin er vegna samráðsins, og er það varlega áætlað. Aðgangs- og samkeppnishindranir stóru skipafélaganna á því árabili sem um ræðir höfðu því bein áhrif á kjör verðtryggðra lána vegna vísitölubindingar þeirra.

 

Þannig var svínað á neytendum og komið í veg fyrir að ný flutningafyrirtæki gætu náð fótfestu á markaði. Fórnarkostnaður almennings nemur samkvæmt úttektinni sem hér er fjallað um tilboði ríkisvaldsins í húseignir allra íbúa Grindavíkur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. febrúar 2024.