Stefnuræða Oddnýjar

Oddný Harðardóttir nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar flutti stefnuræðu sína við lok landsfundar í eftirmiðdaginn. Hún lagði áherslu á þau málefni sem Samfylkingin berst fyrir, heilbrigðismálin, fjármálakerfi fyrir fólk, meiri áherslu á nýsköpun og hugvitsgreinar og jafnrétti kynjanna.

 

Kæru félagar og vinir.
Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum fyrir frábæra málefnavinnu og gagnlegar og góðar samverustundir á þessum auka landsfundi okkar í Samfylkingunni. Ég vil sérstaklega þakka Árna Páli Árnasyni fyrir hans góðu störf sem formaður Samfylkingarinnar á erfiðum tímum. Ég hef oft dáðst af Árna Páli undanfarnar vikur hvernig hann hefur haldið ró sinni í öldurótinu, varist árásum pólitískra andstæðinga okkar og sótt að þeim þegar að við hefur átt. Kærar þakkir Árni Páll. Ég vil einnig þakka fráfarandi varaformanni flokksins Katrínu Júlíusdóttur og fyrrum formanni framkvæmdarstjórnar Semu Erlu Serdar fyrir þeirra góðu störf og einnig fráfarandi stjórn og framkvæmdarstjórn flokksins. Það er styrkur að eiga þau öll áfram að í baráttunni sem framundan er.

 

Kosningabaráttan er hafin
Kosningabaráttan hefst núna á mánudaginn með 130 daga áætlun um kosningasigur Samfylkingarinnar í haust. Það er bara fyrsti áfanginn. Framundan er hin endalausa barátta við að sannfæra kjósendur um að stefnumál okkar bæta íslenskt samfélag.
Við leggjum af stað strax eftir helgi með samtölum við fólkið í landinu um þeirra hjartans mál, um jafnaðarstefnuna, kynningu á kosningamálunum og mótun skipulags kosningabaráttunnar. Við munum óska eftir fundum með verkalýðsfélögum, stéttarfélögum og hagsmunasamtökum. Við ræðum við samtök eldri borgara, öryrkja og fatlaðra sem allt eru félagasamtök sem berjast fyrir bættum kjörum og betra samfélagi eins og við í Samfylkingunni. Ef við ætlum að ná fram grundvallar breytingum þá þurfum við öll að vinna saman.

Við erum samherjar, bræður og systur í baráttunni.

Við höfum á þessum landsfundi fengið verðmætt veganesti frá góðum gestum fundarins – lýsingu á kosningabaráttu Justins Trudeau í Canada, þeirri greiningarvinnu og virkjun almennings sem þar átti sér stað og samtal Kate Lyons blaðakonu á dagblaðinu Guardian við ungafólkið og kjör þess hér fyrr í dag. Hvorutveggja afar gagnlegt og mun nýtast okkur vel þegar við tökum saman næstu skref .

 

Samfylkingin er velferðarafl
Góðir félagar. Við erum í Samfylkingunni því við viljum skapa réttlátt samfélag sem gætir að þörfum hvers og eins, þar sem allir eiga jafnan rétt og þar sem allir geta verið virkir þátttakendur í samfélaginu.
Við erum flokkurinn sem fékk það verkefni að endurreisa efnahag eftir hrunið. Það var krefjandi og kostaði fórnir og var aldrei líklegt til að verða vinsælt verkefni. Göran Person fyrrum forsætisráðherra sænska verkamannaflokksins, sagði okkur nákvæmlega það í upphafi. Að við þyrftum ekki að búast við miklum þökkum í bráð. En við höfum séð landið rísa þar sem við erum að uppskera árangur erfiðis okkar flokks og samstarfsflokks okkar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Við í Samfylkingunni erum velferðarafl. Og við viljum leiða stærsta verkefni næsta kjörtímabils sem verður endurreisn heilbrigðiskerfisins.
Hrunið og kreppan sem henni fylgdi leiddi óhjákvæmilega til niðurskurðar í heilbrigðismálum, en hnignun heilbrigðiskerfisins hófst því miður löngu fyrir Hrun. Skortur á fjárfestingum og rekstrarfé blasir við hvert sem litið er. Langvinn verkföll lækna og annarra starfsmanna sjúkrahúsa eru sjúkdómseinkenni kerfis sem þarfnast uppbyggingar og umhyggju. Það er einnig sjúkdómseinkenni heilbrigðiskerfisins ef einhver þarf að fresta því að fara til læknis vegna kostnaðar. Sjúklingar eiga ekki að þurfa að taka upp veskið þegar þeir þurfa á læknishjálp að halda.
Íslendingar geta ekki og munu ekki sætta sig við lakara heilbrigðiskerfi en nágrannaþjóðir okkar.

 
Þess vegna er stefna Samfylkingarinnar skýr:
– Setja þarf húsnæðismál Landspítalans í forgang, sjúklingar eiga ekki að liggja á göngum og bílskúrum. Starfsmenn eiga ekki að þurfa að flýja húsnæði vegna myglu og lélegs viðhalds.
– Fjárfesta þarf í tækjabúnaði sjúkrahúsa. Nútíma læknisfræði krefst nútíma tækja.
– Löngum biðlistum eftir nauðsynlegum aðgerðum verður eytt hratt og örugglega með samstilltu átaki.
– Uppbygging hjúkrunarheimila fyrir aldraða og langveika þar sem búið er vel að fólki með persónulegri þjónustu er okkur mikilvægt. Og vel framkvæmd geðheilbrigðisstefna er annað forgangsmál.
– Við höfnum leið einkavæðingar í heilbrigðismálum, við viljum leið samábyrgðar og jöfnuðar.

 

Alvöru lýðræði og jafnrétti

Við í Samfylkingunni erum talsmenn alvöru lýðræðis. Við höfum sýnt það í verkum og flokksstarfi, með kosningakerfi okkar og vali á frambjóðendum og efnt til formannskjörs þar sem allir skráðir félagar áttu kost á að taka þátt í. Við þurfum að þróa áfram leiðir til að virkja beint lýðræði og samtal við alla þá sem vilja taka þátt í umræðunni og leggja sitt að mörkum. Það ferli hófum við með endurskoðun stjórnarskrárinnar á síðasta kjörtímabili. Þar hófum við lýðræðisumbætur sem við viljum ljúka og tryggja að þjóðin geti átt beina aðkomu að öllum stórum hagsmunamálum.

 
Samfylkingin er flokkur kvenfrelsis og jafnréttis kynjanna. Við glímum enn við ójöfnuð á milli kynjanna. Kynbundinn launamun verður að uppræta. Hann mælist nú rúmlega 20% hér á landi. Kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna heldur á öll réttindi kvenna sem þær ávinna sér á vinnumarkaði, sem birtist í lægri orlofsgreiðslum og lægri lífeyri. Og konur eru því líklegri til að búa við fátækt á efri árum.

 
Við í Samfylkingunni vitum að við munum öll njóta góðs af því ef konur standa jafnfætis körlum á öllum sviðum samfélagsins. Það er réttlætismál sem vert er að berjast fyrir. Við byggjum málflutning okkar ekki aðeins á kjararannsóknum. Við byggjum hann ekki síður á rannsóknum um líðan og hagi ungs fólks. Um sjálfsmynd og sjálfstraust ungs fólks, um áhættuhegðun og einelti, viðhorf til náms og væntingar. Því meiri jöfnuður og jafnrétti sem ríkir því betri er líðan unga fólksins.

 

Fyrir barnafjölskyldurnar
Samfylkingin er afl sem barnafjölskyldur geta treyst á. Bættar aðstæður og jöfn tækifæri ungs fólks er eitt okkar aðaláherslumál. Við horfum upp á að tekjur ungs fólks hafa dregist meira saman en tekjur eldra fólks. Landflótti er áhyggjuefni, bæði þeirra sem fara utan í nám og snúa ekki aftur og svo þeirra sem flýja land í von um betra líf annars staðar. Heimurinn hefur minnkað og nágrannalöndin laða að ungt fólk og sérstaklega barnafjölskyldur með meiri stuðningi, betri aðstæðum fyrir námsmenn, styttri vinnutíma og hærri launum. Og gjaldmiðil og lánakjör sem unnt er að treysta á.

 
Fjárhagslegur ávinningur þess að fara í kostnaðarsamt nám er töluvert minni hér en í nágrannalöndunum og þeirri stöðu svaraði ríkisstjórnin núverandi með námslánafrumvarpi sem hefði aukið enn á ójöfnuðinn. Því viljum við svara með námsstyrkjakerfi sem ekki rýrir lífsgæði síðar á ævinni.

 
Þó sumir finni fyrir auknum kaupmætti þá virðist hann ekki rata til unga fólksins enda hefur ekki dregið úr landflótta þeirra þrátt fyrir aukinn hagvöxt. Hátt leiguverð, húsnæðisverð og matarverð hafa þar mikil áhrif. En hér á landi er öll tækifæri til þess að byggja gott samfélag fyrir alla. Grípum þau!

 
Lenging fæðingarorlofs í eitt ár og að tryggt sé að leikskólar geti tekið við börnum frá eins árs aldri er það sem barnafjölskyldurnar okkar helst vantar. Barnabætur eiga að vera með öllum börnum.

 

Stór áfangi náðist í húsnæðismálum

Stór áfangi náðist í vikunni með samþykkt húsnæðisfrumvarpa með stuðningi allra flokka, verkalýðsfélaga og sveitarfélaga undir forystu formanns velferðarnefndar, okkar konu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Það mun vonandi leysa brýnasta vandann og sýnir enn og aftur að hægt er að treysta á félagslegar lausnir í húsnæðismálum.

Gróðabrask nýfrjálshyggjunnar er ekki lausn á vandanum.

 

Fjármálakerfi fyrir fólk
Við í Samfylkingunni viljum bankakerfi sem þjónar fólki og viljum að Landsbankinn verði þjóðarbanki.
Eitt af stóru verkefnum næsta kjörtímabils er endurskipulagning fjármálakerfisins. Samfylkingin getur ekki og mun ekki sætta sig við óbreytt ástand. Fjármálaráðherra dreymir um að einkavæða bankana hratt og örugglega, en varð að fresta því vegna vantrausts í samfélaginu og skyldi engan undra. Áður en hægt er að selja hlut ríkisins í bönkunum þarf að liggja fyrir hverskonar bankakerfi við viljum til frambúðar. Koma þarf í veg fyrir ábyrgðarlausa áhættusókn og ofsagróða.

 
Samfylkingin hefur skýra stefnu í þessum efnum. Hlutir í bönkum verði ekki seldir fyrr en tryggt er að rekstur þeirra fari ekki úr böndunum á kostnað almennings. Til þess að svo geti orðið þarf að grípa til aðgerða.

– Í fyrsta lagi þarf að aðskilja með skýrum hætti almenna viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Fjármálakerfi sem þjónar venjulegu fólki frá vöggu til grafar, sér um fjármál fólks og ávaxtar með lítilli áhættu er eftirsóknarvert.
– Í öðru lagi þarf að tryggja dreift eignarhald á bönkunum. Hér hræða sporin, gamlar valdklíkur fylgjast með af hliðarlínunni og setja þarf strangar reglur og stífar skorður.
– Í þriðja lagi þarf að tryggja betur réttindi neytenda á fjármálamarkaði, enda er þekking og staða einstaklinga og banka mjög ójöfn í dag. Vaxtakjör og þjónustugjöld banka verða að vera hófsöm og lúta skýrum reglum.

 
Auðlindirnar eru okkar allra
Samfylkingin vill að þjóðin fái fullan og réttlátan arð af auðlindum lands og sjávar.

Smjör drýpur af hverju strái á Íslandi en það drýpur ekki til allra þjóðfélagsþegna. Ágóði auðlinda lands og sjávar rennur til fárra en ætti að nýtast okkur öllum og skapa að betra samfélag. Samfylkingin á að hafa forystu um að nýting auðlinda verði fyrst og fremst í þágu almennings. Þar mun útboð á aflaheimildum reynast best með girðingum til að gæta byggðasjónarmiða og að heimildir rati ekki í fárra hendur. Meginreglan verði að allar veiðiheimildir verði boðnar út á markaði.

Með skynsamlegri auðlindastýringu fær almenningur að njóta gæðanna. Þetta á við um allar auðlindir okkar, fiskinn, orkuna og landið sjálft, víðerni hálendisins og ferðamannastaðina, sem enn bíða markvissra aðgerða til að stýra álagi og þar með verndun dýrmætra náttúruperla.

Náttúra Íslands er sannarlega auðlind, en hún er takmörkuð og viðkvæm auðlind.

Vöxtur ferðaþjónustunnar og skortur á stýringu á þróun þeirrar atvinnugreinar er kapituli út af fyrir sig og verður viðfangsefni næstu ríkisstjórnar að bæta, því sú sem nú er við völd ræður því miður ekki við verkefnið.

Og á meðan greinin er verðmæt fyrir samfélagið og skapar okkur atvinnu víða um land og gjaldeyri sem við þurfum á að halda er þjónustan við okkur íbúana undir álagi, hvort sem er vegakerfið, heilbrigðisþjónusta eða löggæsla. Ef ekki er gripið í taumana og raunhæf atvinnustefna sköpuð mun illa fara. Það á bæði við um þróun ferðaþjónustunnar en einnig ruðningsáhrif frá fyrirferð hennar og samfélagsbreytingar sem þau hafa í för með sér.

 

Nýsköpun, hugvitsgreinar og listir

Við eigum að setja Íslandi aftur framsækna atvinnustefnu með blöndu af fjölbreyttum atvinnutækifærum, með því að ýta undir nýsköpun, hugvitsgreinar og listir við hlið stóru atvinnugreinanna. Við eigum að styðja nýsköpun í öllum greinum, líka í sjávarútvegi en þar hafa orðið til margþætt tækifæri við fullvinnslu afla, vinnslu slors og roðs og beina sem áður fór í snigilinn í frystihúsunum og varð engum að gagni. Slor er nefnilega ekkert slor, sem minnir okkur á að sjómannasunnudagurinn er á morgun með hátíðarhöldum í sjávarbyggðum.

Samfylkingin er málsvari menningar og lista og við metum framlag listamanna á öllum sviðum til sjálfsmyndar og menningar okkar lands. Menningarminjar og safnastarf er mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu og ómetanlegur þáttur í varðveita menningararfinn þannig að sómi sé af.

Það vill stundum gleymast að ein merkilegasta menningarstofnun landsins er útvarp allra landsmanna, Ríkisútvarpið, sem miðill menningar og frétta. Hlutlæg og vönduð miðlun frétta er stór þáttur í hverju lýðræðissamfélagi. Ríkisútvarpið á að rýna til gagns í fréttaumfjöllun og fréttaskýringum og það má svíða undan gagnrýninni þegar stjórnvöld fara út af sporinu. Þar að auki varðveitir Ríkisútvarpið menningararf í formi hljóðritana og myndefnis sem spannar nánast allan starfstíma þess og þjóðin mun vonandi fá aukinn aðgang að í framtíðinni.

 

Samfylkingin er málsvari umhverfisins
Loftslagsbreytingar ógna tilveru okkar allra og alls óvíst að mannkynið geti tekist á við þann vanda. Þar verðum við að leggja okkar lóð á vogarskálar. Í þessum málum eigum við mikilla hagsmuna að gæta meðal annars hvað varðar súrnun sjávar og við eigum skyldur við mannkynið þótt við séum fámenn þjóð. Okkur ber skylda til að leggja okkar að mörkum með þá þekkingu og kunnáttu sem við búum yfir.

 
Við eigum að vinna af heilum hug með hinum Norðurlöndunum og öðrum umbótaöflum, hvort sem um er að ræða vandamál Norðurskautsins, þurrkasvæða í Afríku, fólks á flótta eða hvar sem fólk glímir við ógn og vanda. Við berjumst fyrir mannúð, mildi og samhjálp, af því við getum ekki annað. Af því að það er það sem Jafnaðarmenn gera.

 

Panamaskjölin sköpuðu tækifæri til breytinga

Íslensk þjóð stendur á tímamótum. Margir töldu að skellur efnahagshrunsins væri að baki en uppljóstranir Panamaskjalana sýna að enn er talsvert langt í land. Ráðherrar úr báðum ríkisstjórnarflokkunum eru þar kirfilega flæktir í netið svo ekki sé meira sagt.

 
Með Panamaskjölunum komst upp um Íslendinga sem höfðu nýtt sér skattaskjól og sumir þeirra hafa væntanlega talið sér vera þar óhætt, í skjóli fyrir skattinum á Íslandi. Við eigum að nýta það tækifæri sem Panamaskjölin gefa okkur til að uppræta kerfi blekkingar og spillingar sem búið hefur verið til fyrir þá sem vilja komast hjá því að greiða sinn hlut til samfélagsins.

 
Því það er okkar stefna að um leið og við sköpum öryggi velferðarsamfélagsins, gerum við þá kröfu að allir taki þátt og skili sínu til baka svo þeir megi búa áfram í góðu samfélagi.

 
Virðing almennings fyrir störfum Alþingis stendur í beinu samhengi við siðgæði stjórnmálanna. Samfylkingin- Jafnaðarmannaflokkur Íslands berst fyrir bættu siðferði í stjórnmálum og fyrir auknu lýðræði. Við viljum gagnsæ og réttlát vinnubrögð á öllum sviðum samfélagsins, og beitum okkur gegn frændhygli, klíkuskap, spillingu og valdablokkum auðmanna.

 
Baráttugleðin mun fleyta okkur langt
Ég vil að lokum óska eftir góðu samstarfi við ykkur öll, við að vinna jafnaðarstefnunni framgang. Það að Samfylkingin rétti úr kútnum er tilhlökkunarefni fyrir alla þá sem þrá að finna baráttunni fyrir jafnrétti og réttlæti greiðan farveg.

 
Ég mun leggja mig alla fram með ykkur og nýkjörnum forystumönnum flokksins, sveitarstjórnarmönnum og Samfylkingarfólki um allt land á öllum aldri. Saman og samstíga getum við allt. Von og mikil vinna, bjartsýni og ákafi, samstaða, heiðarleiki og mannúð er það sem þarf til að auka fylgið við jafnaðarstefnuna. Og baráttugleðin mun fleyta okkur langt.

Áður en hann Valdimar Guðmundsson syngur okkur inn í sumarið þá vil ég biðja nýja forystu Samfylkingarinnar, stjórn og framkvæmdarstjórn að koma hingað til mín.

 

Kosningabaráttan er hafin kæru félagar.