Guðjón um stefnuræðu
Ræða Guðjóns S. Brjánssonar nýs þingmanns Samfylkingarinnar í umræðu á alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, 24. janúar 2017.
Frú forseti, góðir landsmenn,
við höfum í kvöld hlýtt á stefnuræðu forsætisráðherra og umræður og viðhorf stjórnmálaflokka á Alþingi, – en nýrri ríkisstjórn fylgja góðar óskir um velfarnað í öllum sínum verkefnum.
Stefnuræða forsætisráðherra var ljóðræn á köflum og full með fögrum fyrirheitum. Mörgum þótti nýleg stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar vera fátæk að innihaldi, lítið vera sem hönd á festi og flest leysast upp í fyrirvara og viðtengingarhætti – og eftir umræður kvöldsins er þetta enn blindingsleikur. Hverjar eru áherslurnar þegar til kastanna kemur, hver er sýn nýrrar ríkisstjórnar um bætt og betra samfélag fyrir alla?
Fram kom hjá hæstvirtum forsætisráðherra að gildi eða leiðarstef ríkistjórnarinnar eru af tvennum toga og heita jafnvægi og framsýni, rammíslensk hugtök sem vekja jákvæð hughrif. En hvað tákna þau raunverulega í huga þeirra sem nú fara með húsbóndavaldið? Heitir það jafnvægi að standa vörð um óbreytt ástand og skiptingu sameiginlegra gæða landsmanna eða þetta góða samband milli stjórnvalda og þeirra sem ráða yfir dýrmætustu auðlind þjóðarinnar gegn málamynda afnotagjaldi? Er skilningurinn sá að ekki megi hrófla við þeirri kyrrstöðu, því jafnvægi sem ríkt hefur undanfarin ár um lífskjör barnafjölskyldna, aldraðra og þeirra sem hafa skerta starfsorku?
Frú forseti. Það eru allir sammála um að efnahagslegt jafnvægi, stöðugleiki og ábyrg fjármálastjórnun sé hornsteinn velferðar. Það hefur á hinn bóginn ríkt smánarlegt ójafnvægi gagnvart stórum hluta þegnanna, hið efnahagslega og félagslega ójafnvægi. Það er ekki sæmandi í velferðarsamfélagi, að þúsundir einstaklinga eigi tæplega til hnífs og skeiðar. Við vitum líka að það býr í landinu fámennur hópur sem hefur ofgnótt fjár handa á milli, og því miður eru engin merki um að nýrri ríkisstjórn sé kappsmál að draga úr ójöfnuði og vinna að auknu réttlæti og sanngirni að þessu leyti. Er þetta jafnvægið sem forsætisráðherra á við? Ef eitthvað er, þá hefur óréttlætið eitt verið í jafnvægi og því verður að aflétta.
Framsýni er annað leiðarstef nýrrar ríkisstjórnar. Það verður tæplega sagt um Sjálfstæðisflokkinn sem hefur verið ráðandi stjórnmálafl í áratugi að framsýni hafi verið í forgrunni eða ábyrgð og umhyggja fyrir náttúru og umhverfi þessa lands. Viðreisnarbrot Sjálfstæðisflokks fylgir nú gagnrýnislítið sínum gamla húsbónda og sú hætta vofir yfir að horft sé til bjartrar framtíðar á nákvæmlega sama hátt og áður, með hagsmuni útvalinna í huga. Ný kynslóð kallar hins vegar eftir annarri hugsun, öðrum leiðum, og virðingu fyrir sameiginlegum eigum landsmanna, náttúru og auðlindum.
Við í Samfylkingunni, frú forseti hvetjum almenning til að gleyma ekki kosningaloforðum stjórnarflokkanna, hengið þau á ísskápinn í eldhúsinu, límið þau á rúmstokkinn í svefnherberginu, látið þau ekki hverfa úr huganum. Hin góðu mál jafnaðarmanna hafa reynst þeim haldgóð til skyndinota, efndir að engu orðið, við höfum lifandi dæmin. Dýrmæt gildi okkar um aukinn jöfnuð, sanngjarna skiptingu gæðanna, samhjálp og réttlæti í þágu almennings eru hins vegar sígild og fyrir þeim munum við jafnaðarmenn berjast áfram, – fáliðuð um sinn á þingi.
Hávær umræða var um heilbrigðismál á nýliðnu ári, frú forseti sem snerist að umtalsverðu leyti um Landspítala og þann vanda sem blasir við starfseminni, bæði í rekstri og aðstöðuleysi. Spítalinn gegnir eins og allir vita lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu landsmanna og það verður ekki undan því vikist að skapa honum grundvöll til eðlilegrar starfsemi. Það eru fleiri þættir heilbrigðisþjónustunnar sem valda áhyggjum og brýnt að horfa til. Heilsugæslan, grunnþjónustan er í lamasessi í Reykjavík og ekki síður á landsbyggðinni. Á allflestum heilsugæslustöðvum þar, er læknisþjónusta veitt að hluta til eða öllu leyti í skammtímaverktöku. Svona hefur þetta verið frá efnahagshruni þegar stofnanir lutu allt að fjórðungs niðurskurði í fjárveitingum og bera ekki sitt barr eftir. Þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem landsbyggðin fer halloka og nýtur ekki jafnræðis. Fyrirheit nýrrar ríkisstjórnar er að vinna að stefnumótun í heilbrigðisþjónustu og krafan er vitaskuld sú að hugað verði að endurreisn á öllu landinu.
Frú forseti. Ný ríkisstjórn tekur við þegar vel árar, atvinnuvegir í blóma, afkoma góð og ytri aðstæður jákvæðar. Þegar svona háttar til eigum við að hefja raunverulega endurreisn velferðarsamfélagsins, þar sem enginn er undanskilinn og allir eru með. Ef það verður raunin, þá gleðjast sannir jafnaðarmenn þúsundum saman, hvar sem þeir eru í sveit settir á Íslandi.
Góðar stundir