Oddný um stefnuræðu

Ræða Oddnýjar Harðardóttur, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, í umræðu á alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, 24. janúar 2017. 

Frú forseti góðir landsmenn.

Fögur fyrirheit voru gefin í ræðu forsætisráðherra. Hér þarf sannarlega að efla innviði samfélagsins og byggja upp grunnþjónustu og það var líka skýr krafa almennings fyrir kosningar. Ég treystir hins vegar ekki þessari ríkisstjórn til að gera þetta sómasamlega, hvað þá til að hafa jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi í verkum sínum, enda er því svo sem  ekki lofað.

Leiðarstef ríkisstjórnarinnar eru tvö að sögn forsætisráðherra: jafnvægi og framsýni. Það hljómar alls ekki illa, en ég veit,  og ég tel að þjóðin viti það líka af fyrri reynslu af verkum íhaldsaflanna, að skilningur okkar á þessum hugtökum er harla ólíkur. Jafnvægi í þeirra skilningi, merkir, að öllum brögðum megi beita. Hvort sem það er að fela auð fyrir skattinum, fela skýrslur fyrir almenningi fram yfir kosningar eða afvegaleiða umræðu með fölskum loforðum og skrautsýningum.

Það er hins vegar rétt sem forsætisráðherra segir, að þjóðfélagið er samansafn þeirra einstaklinga sem það byggja, með ólíka sýn og þarfir og það er vissulega „misjafn tilgangurinn sem fyrir þeim vakir“. En til þess að þjóðfélagið virki sem skyldi, þurfa allir að leggja sitt að mörkum.

Panamaskjölin sýna að stór hópur fólks kýs að geyma auðæfi sín í skattaskjólum og er þannig í stöðu til að ákveða sjálft, hve mikið eða hvort það leggur sitt að mörkum til samneyslunnar en fær samt að njóta góðs af öllu því sem þjóðfélagið hefur upp á að bjóða. Þeim finnst jafnvægið fólgið í því að aðrir beri þeirra byrðar við rekstur velferðarkerfisins.

Það sem Panamaskjölin upplýstu okkur um eru ákveðin merki um siðrof, sem varð á Íslandi, þegar ýmsir nýttu sér ófullnægjandi regluverk og lítið eftirlit til að velta byrðum yfir á aðra.  Ójöfnuður jókst í samfélaginu og græðgi náði nýjum hæðum. Þessi hegðun var og er meinsemd og þá meinsemd þarf að uppræta.

Það er ekki hægt að tala um jafnvægi, jöfn tækifæri eða sátt í samfélagi þar sem slíkt er látið viðgangast.

Nýlega las ég skáldsöguna Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, og sú bók varð mér mikið umhugsunarefni. Þessi hrollvekjandi skáldsaga vakti hjá mér hugrenningar um hve auðveldlega siðuð samfélög geta hrunið við áföll. Hversu brothætt samfélög eru í raun. Tekist er á við hvað það er að tilheyra fjölskyldu og vera Íslendingur, hvað sameini okkur og sundri og hve stutt getur verið í sérhygli, fordóma og öfga þjóðernishyggju.

Bókin vakti upp hugsanir um hvað hefði getað gerst hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins,  en þó enn frekar um ýmsar hörmungar sem bæði sagan og nútíminn geyma um hrun menningarríkja. Þegar fólk telur sig ekki lengur þurfa að fylgja leikreglum samfélagsins.

Öll viljum við góða og örugga framtíð fyrir börn og afkomendur og við Íslendingar höfum verið lánsöm. En illska og hörmungar finnast víða í kring um okkur.

Við höfum horft á Sýrland líða undir lok á fáum árum, og við sitjum hálf máttvana hjá yfir þeim ósköpum þegar hundruð þúsunda saklausra er fórnað í illskiljanlegum stríðsátökum. Við getum ekki leitt flóttamannavandann hjá okkur.

Það er bara ein  jörð, eitt Hótel Jörð, og við Íslendingar erum ekki einu gestirnir. Ófriður og loftslagsváin er það sem rekur flóttafólk áfram í leit að betra lífi og margir vilja koma til okkar. Við eigum að mæta þessum vanda af samúð og mannúð og koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Ísland er fjölmenningarsamfélag eins og forsætisráðherra benti á í ræðu sinni og það þýðir að við verðum að bregðast við, mjög ákveðið og skýrt, gegn fordómum, öfgum og hatursorðræðu í garð innflytjenda.

Öfgafull þjóðernishyggja er að færast í aukanna víða um hinn vestræna heim. Við verðum að mæta slíku af ákveðni.

Ég vil því að lokum hvetja alla íslenska stjórnmálaflokka til að tengjast ekki með nokkrum hætti populískum öfgaflokkum eða þjóðernissinnum hvort sem er á Norðurlöndum, í Evrópu eða Vestanhafs og varast daður við slíka hugmyndafræði.

Kæru landsmenn. Tökum öll afstöðu með mannréttindum og lýðræðisöflum, jöfnuði og réttlæti. Tökum öll skýra afstöðu gegn öfgum og fordómum.

Góðar stundir