Um myndun ríkisstjórnar

Bréf sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar sendi félögum í Samfylkingunni 10. janúar 2017 þegar ljóst var að Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð væru að mynda nýja ríkisstjórn.

Kæru félagar,

um leið og ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka það liðna er ljóst að okkar bíða mikilvæg verkefni. Í gær varð endanlega ljóst að nú verður til ríkisstjórn þriggja flokka; Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ekki verður annað séð enn að sú stjórn sé fremst mynduð um óbreytt ástand, þar sem varðstaða um sérhagsmuni og peningaöfl verður öflugri en áður hefur þekkst. Hún kemst á koppinn vegna atbeina tveggja flokka sem sigldu undir nokkuð fölsku flaggi í kosningarbaráttunni. Björt framtíð og Viðreisn lögðu báðar áherslu á kerfisbreytingar í mikilvægum málaflokkum, ekki síst til að hægt væri að standa undir nauðsynlegri uppbyggingu á heilbrigðis- og menntamálum og bæta lífskjör almennings. Við blasir hins vegar að löngu tímabærar breytingar sem voru á stefnuskrá þessara flokka fyrir kosningar voru bara til skrauts og áframhaldandi auðsöfnun á fárra hendur þar sem enginn vilji virðist til þess að nýta tekjuöflunarmöguleika ríkisins til að dreifa byrðunum með réttlátari hætti.

Samfylkingin tók virkan þátt í tilraunum til stjórnarmyndunar, þótt með misjöfnum hætti væri. Tvívegis var gerð tilraun til að mynda umbótastjórn fimm flokka og það eru mér mikil vonbrigði að þær tilraunir bæru ekki ávöxt.  Raunar er það óskiljanlegt, því ekkert kom fram í viðræðunum sem bentu til þess að gjáin milli einstakra hreyfinga væri óbrúanleg.  Raunar vil ég fullyrða að enginn þessara fimm flokka hefði nokkurn möguleika á því að fá meira út úr því samstarfi en í öðru mynstri, a.m.k. ef taka átti baráttumál þeirra fyrir kosningar trúanleg. Í ljós kemur nú að Viðreisn hefur fullkomlega fellt grímuna sem harðskeyttur hægri flokkur. Hún gefur nú eftir helstu baráttumál sín, ESB, kerfisbreytingar í sjávar- og landbúnaði, fyrir ráðherrastóla. Í kaupunum fylgir raunar að hin nýja stjórn mun fylgja skattastefnu Sjálfstæðisflokksins, sem fellur henni líklega betur í geð, þótt þægilegra hafi verið að minnast ekki á hana í aðdraganda kosninga. Hvað varðar Bjarta Framtíð eru tíðindin kannski enn óvæntari og líklegast að flokkurinn hafi tekið sjálfan sig fram yfir stefnumálin og hag þjóðarinnar.

Þegar hyllti undir þessa nýju stjórn rétt fyrir jól, ræddu formenn Framsóknar og VG við mig um snertifleti flokkanna og hvort hægt væri að mynda ríkisstjórn þessara flokka ásamt Sjálfstæðisflokki. Að sjálfsögðu var þingflokkurinn til í samtal við þau, án þess þó að gefnar væru of miklar væntingar um að slíkt gæti borið ávöxt. Samtalið, sem var mjög óformlegt, varði fram yfir áramót. Það fór fyrst og fremst fram með símtölum en þó freistuðu menn þess að festa niður á blað einhvers konar sameiginlega sýn á verkefnin framundan. Þá kom í ljós að  ýmislegt greindi Samfylkinguna frá þessum þremur flokkum í grundvallaratriðum.  Mér fannst ólíklegt að vilji væri til þess að mæta kröfum Samfylkingarinnar í einstökum málum, sem eru reyndar að hluta til þau sömu og Viðreisn og Björt framtíð hafa gefið eftir nú. Ég gerði því formanni VG grein fyrir því að ekki væri grundvöllur til staðar af okkar hálfu til slíkrar eftirgjafar, án þess að verulegrar árangur myndi nást í jöfnun lífskjara og eflingu velferðarkerfisins. Þá benti ég henni góðfúslega á að þau þyrftu ekki okkar atbeina þar sem flokkarnir þrír byggju yfir nægilegum þingstyrk en VG virtust hins vegar ekki treysta sér í slíkan leiðangur nema hafa okkur með.  Í mjög mörgum málum eigum við mikla samleið með VG og munum ásamt þeim berjast fyrir réttlátara og heilnæmara samfélagi. Sá kokteill sem hér átti að bjóða uppá virtist ekki vera mikið annað en framlenging á stjórnarstefnu síðustu ríkisstjórnar.

Stefnumál Samfylkingarinnar eru okkur mörg of dýrmæt til þess að við getum látið hagsmunamat þæginda og valdastóla ráða för. Það munum við ekki gera. Ferðalag okkar verður því um fjallabak með erfiðum brekkum og óbrúuðum ám, en við hlökkum engu að síður til þess ferðalags.  Það er satt að segja góð tilfinning að vakna upp eftir kosningar, trúr stefnu sinni, vitandi það að öll barátta tekur tíma. Stjórnmál eru langtíma verkefni.  Þannig hafa líka sigrar okkar jafnaðarmanna unnist gegnum tíðina; með elju og þrautseigju.

Formenn stjórnarandstöðunnar hittust á fundi í gær til þess að stilla saman strengi sína, að því leiti sem það er hægt og skynsamlegt. Við erum sammála um að sýna nýrri stjórn fullt en málefnalegt aðhald. Þá höfum við ákveðið að reyna að sannmælast um nefndarskipan á Alþingi, og það verður mikilvægt að hinn litli þingflokkur Samfylkingarinnar fái ásættanlega lendingu í þau mál.

Verkefnin framundan verða að sjálfsögðu fjölmörg og ég mun reyna að gera þeim skil í stuttum bréfum til ykkar, eftir því sem tilefni gefast til. Við munum hins vegar, eins og áður sagði leggja rækt við okkar stefnu og vera henni trú. Veikleiki okkar er lítill þingflokkur og því þurfum við á allri hjálp flokksmanna að halda til þess að rödd okkar heyrist.  Við þurfum að kalla þau ykkar til sem kunnið á fjöl- og nýmiðla en ekki ekki síður þau sem treysta sér til að skrifa greinar. Á morgun mun framkvæmdarstjórn vafalaust ákveða fyrirhugaðan flokkstjórnarfund, og þar gefst okkur tóm til að varða leiðina fram á við og upp.

Verkefni dagsins  í dag á þingi eru því miður einkennandi fyrir þá þróun sem er að verða á íslensku samfélagi og við verðum að berjast gegn.  Það er raunveruleg hætta á því að í stað virks lýðræðis almennings, sé að verða hér til auðræði fárra.  Hún er heldur nöturleg skýrslan um eignir Íslendinga á lágskattasvæðum. Hún lýsir því vel hvernig vel stæðir einstaklingar og fyrirtæki hafa valdið hér stórkostlegu samfélagslegu tjóni, með kerfisbundnu undanskoti peninga. Einstaklingar sem sumir hafa dásamað íslensku krónuna flúðu sjálfir með sinn auð til að komast hjá því að greiða skatta til samfélagsins. Þannig áttu þeir stóran þátt í að fella gengið í hruninu. Afleiðingarnar af því þekkjum við öll; venjulegu launafólki blæddi og fjölmargir misstu heimili sín eða urðu a.m.k. fyrir verulegum skakkaföllum.  Skattaundanskot eru grafalvarlegur glæpur sem grefur undan velferðarkerfinu, eykur ójöfnuð og leggur þyngri byrðar á þá sem minna mega sín.

Fjármálaráðherra, verðandi forsætisráðherra, leyndi skýrslunni í aðdraganda kosninga og það sýnir óvenjumikla forherðingu. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð gefur ekki fyrirheit um nýja og opnari stjórnarhætti af hálfu ríkisstjórnarinnar. Alveg sama þótt formaður Bjartrar framtíðar, teldi í viðtölum í gær, að ný vinnubrögð yrðu í öndvegi.

Ekki síst í þessu ljósi er ný ríkisstjórn kvíðvænleg og ljóst að jafnaðarmenn hafa mikið verk að vinna.

Kveðja,
Logi Einarsson
formaður Samfylkingarinnar.