Sala bankanna

Þegar við ræðum bankakerfið íslenska, umfang þess og þjónustu, þurfum við að horfa til þess að við erum fámenn og markaðurinn lítill. Við þurfum þrátt fyrir smæðina að koma okkur upp regluverki og eftirliti með fjármálastarfsemi sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og trausts, og það er einnig forsenda þess að rekin sé samkeppnisfær utanríkisverslun.

Sjálfstæður gjaldmiðill með óstöðugu gengi sem hefur mikil áhrif á breytingar verðlags í landinu er líka eitt sérkenni íslenska hagkerfisins ásamt verðtryggingu.

Það er mikilvægt að ríkið beiti eigendaáhrifum sínum í bönkunum til þess að stuðla að heppilegri og hagkvæmri þróun á fjármálamarkaði og skipulagi hans.

Markmið ætti að vera að hér á landi þrífist fjármálakerfi sem getur staðið af sér fjármálaáföll. Framtíðarskipan fjármálakerfis á Íslandi þarf að miða að því að kerfið verði öruggt, skilvirkt og hæfilega umfangsmikið fyrir þjóðarbúskapinn.

Mér finnst mikilvægt að við tryggjum það í núverandi stöðu að fjármálakerfið verði ekki til frambúðar í óbreyttri mynd. Aðkallandi breyting er að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Almenningur verði þannig varinn fyrir áhættu fjárfestingabankastarfsemi og búnir verði til bankar sem sjá um þjónustu á eins ódýran máta og mögulegt er, við fólk og venjuleg fyrirtæki. Greiðslukerfið og fjárfesting með lágmarksáhættu verði hluti af almennri þjónustu við fólkið í landinu.

Þess vegna eigum við alls ekki að selja bankana frá okkur núna, heldur nýta tækifærið til að endurskipuleggja bankakerfið. Að því loknu mætti skoða hagkvæmni þess að selja hluta kerfisins.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.