Aprílgabb ríkisstjórnarinnar

Fyrir kosn­ingar hróp­aði almenn­ingur á upp­bygg­ingu heil­brigð­is- og vel­ferð­ar­kerf­is­ins, mennta­stofn­ana, sam­göngu­mann­virkja og ann­arra inn­viða. Raunar af því­líkum krafti að allir flokkar lof­uðu að ráð­ast í þær, næðu þeir kjöri. Það var í raun ósköp eðli­legt, því á síð­ustu árum, jafn­vel eftir að létt­ast fór fyrir fæti í efna­hags­líf­inu hafa inn­við­irnir haldið áfram að drabb­ast nið­ur. Kallað var eft­ir á­formum um að mæta vanda ungs fólks sem ekki á hús­næði og leigj­enda. Það herðir stöðugt fastar að þessu fólki i fá­tækt­ar­gildru leigu­mark­að­ar­ins.

10 októ­ber síð­ast­liðin var sam­þykkt metn­að­ar­full en þörf sam­göngu­á­ætlun sem var svo skotin á kaf af starfs­stjórn Fram­sóknar og Sjálf­stæð­is­flokks sem fann engar leiðir til að fjár­magna hana. Þá stefnu gleyptu rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir Björt fram­tíð og Við­reisn hráa til að geta hreiðrað um sig í nokkrum ráðu­neyt­u­m.

Við birt­ingu stjórn­ar­sátt­mál­ans kom svo í ljós að það átti að hlaupa á frá stóru orð­unum sem féllu í kosn­inga­bar­átt­unni, því engin til­raun var gerð til að afla tekna hjá þeim sem aflögu­færir voru. Milli­tekju­þrepið var fellt niður og aðra tekju­stofna á ekki nota, s.s. hátekju­skatt, auð­legð­ar­skatt, stig­vax­andi fjár­magnstekju­skatt og aukin auð­linda­gjöld af sjáv­ar­út­vegi og raf­orku.

Ef það á að takast að end­ur­reisa heil­brigð­is­kerf­ið, gera háskól­ana sam­keppn­is­hæfa við sam­an­burð­ar­skóla í nágranna­lönd­un­um, leggja grunn að félags­legum lausnum á hús­næð­is­mark­aði og bæta kjör aldr­aðra og öryrkja verður að auka tekj­ur. Það eina sem okkur vantar eru stjórn­völd sem sýna hug­rekki og kjark.

Fjár­mála­stefnan

Nú á næst­unni fer fram atkvæða­greiðsla á þingi um eitt mik­il­væg­asta þing­mál kjör­tíma­bils­ins, fjár­mála­stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Tvennt vekur einkum athygli við hana.

Ann­ars vegar úti­lokar hún að flokk­arnir geti staðið við lof­orð sín frá því fyrir kosn­ingar og hins vegar teikna minni flokk­arnir tveir sig upp sem ósköp venju­legir hægri flokk­ar. 80 dagar liðnir og gríman hefur ekki aðeins verið felld, heldur hent í ruslagám­inn. Það er út af fyrir sig heið­ar­legt að gang­ast loks við sinni póli­tík en það verður fróð­legt að fylgj­ast með því hvort þeir gramsa í gámnum aftur eftir þrjú ár, freista þess að ná henni upp og end­ur­taka leik­inn.

Þessi svik birt­ast fólki skýrt þegar fjár­mála­á­ætlun rík­is­stjórn­ar­innar verður birt en rammi hennar er snið­inn að fjár­mála­stefn­unni og þar kemur í ljós hverjar fjár­veit­ingar verða í ein­staka mála­flokka. Fjár­mála­á­ætl­un­ina á að birta fyr­ir 1.apríl. Þá verður hul­unni end­an­lega svipt af apr­ílgabb­inu. Það átti aldrei að standa við kosn­inga­lof­orð­in.

Þó að fjár­mála­stefnan sé almennt orðað skjal með mis­mun­andi mark­miðum birt­ist skýrt í henn­i hvers konar sam­fé­lag rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir ætla að byggja á næstu árum: Öllu má fórna svo ekki þurfa að ráð­ast í frek­ari skatt­heimtu.

Fjár­mála­stefnan ætti að vera þannig úr garði gerð að hún rúmi ann­ars vegar þær nauð­syn­legu upp­bygg­ingu sem brýnt er að ráð­ast í og hins vegar ætti hún að ver­a nægi­lega sveigj­an­leg til að gera stjórn­völdum kleift að bregð­ast við breyt­ingum sem kunna að verða í þjóð­ar­bú­skapn­um. Reynslan hefur nefni­lega kennt okkur Íslend­ingum að eftir feit ár koma önnur mög­ur; þessar sveiflur hafa gjarnan verið á sjö til átta ára frest­i.

Fjár­mála­stefnan gerir hvor­ugt.

Það kemur einna skýr­ast fram í útgjalda­regl­unni.

Útgjalda­reglan

Hún felur í sér að rík­is­út­gjöld mega ekki vera meira en til­tekið hlut­fall af lands­fram­leiðslu. Hlut­fall rík­is­út­gjalda fyrir árið 2017 er áætlað 41% af lands­fram­leiðslu. Við vitum úr fjár­laga­vinn­unni fyrir árið 2017 að útgjöld þurfa að aukast. Hvað ákveður hægri rík­is­stjórnin að gera? Sam­þykkir að útgjöld mega aðeins aukast um 0,5% af lands­fram­leiðslu umfram það sem spár gera ráð fyr­ir, og þau verði ekki umfram 41,5% af lands­fram­leiðslu á tíma­bil­in­u.

Það er mjög óskyn­sam­legt nú þegar vel gengur að styrkja ekki inn­við­ina eftir mögur ár. Svo er það bein­línis hættu­legt að festa útgjalda­reglu í fjár­mála­stefnu þannig að nið­ur­skurð­ar­hníf­ur­inn verði að fara á loft ef lands­fram­leiðsla dregst sam­an.

Ekk­ert gert með athuga­semdir fjár­mála­ráðs

Það veldur óneit­an­lega óhug að ekk­ert er gert með alvar­legar aðfinnslur fjár­mála­ráðs. Það er þó skipað af fjár­mála­ráð­herra, í þessu til­felli núver­andi for­sæt­is­ráð­herra; skip­stjór­anum á skút­unni. Fjár­mála­ráðið á að meta hvort stefnan sé í sam­ræmi við mik­il­væg mark­mið nýrra laga um opin­ber fjár­mál sem for­sæt­is­ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins lagði þunga áherslu á að næðu í gegn. En um ráðið segir á heima­síðu fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins: „Ráðið er sjálf­stætt og er því ætlað að leggja mat á hvort fjár­mála­stefna og fjár­mála­á­ætl­un, sem rík­is­stjórn leggur fyrir Alþingi, fylgi þeim grunn­gildum sem lögin segja að stefnu­mörkun í opin­berum fjár­málum skuli byggð á, en þau eru sjálf­bærni, var­færni, stöð­ug­leiki, festa og gagn­sæ­i.“

Það er skemmst frá því að þessi örygg­is­vent­ill rík­is­stjórn­ar­inn­ar, fjár­mála­ráð­ið, setur sér­stak­lega út á að áður­nefnd útgjalda­regla taki ekki mið af hag­sveiflu­leið­rétt­ingu. Væri það gert er ljóst að áætl­aður afgangur af opin­berum fjár­málum ætti að vera meiri nú þegar vel árar en raun ber vitni. Af umsögn ráðs­ins er ljóst að afla þarf auk­inna tekna núna og auka svig­rúm fyrir rík­is­út­gjöld ef þrengir að. Ann­ars verður vel­ferð­ar­kerfið fórn­ar­lamb nið­ur­skurðar þegar um hægist og stjórn­völd lenda í spenni­treyju fjár­mála­stefn­unn­ar.

Stöðvum þessa vit­leysu

Þetta er með öllu óásætt­an­legt og því leggur Sam­fylk­ingin það til að útgjalda­reglan verði felld brott úr stefn­unni þannig að stjórn­völd geti sett sér útgjalda­mark­mið á hverju ári þegar fjár­mála­á­ætlun er sam­þykkt.

Fjár­mála­stefnan er gríð­ar­lega mik­il­vægt plagg; þetta er stefna rík­is­stjórn­ar­innar út kjör­tíma­bilið og fjár­lög verða að tak mið af henn­i. Ekki er heim­ilt að víkja frá henni nema stór­kost­legar ham­farir ríða yfir sam­fé­lagið eða þjóð­ar­bú­ið. Þess vegna verða þing­menn stjórn­ar­meiri­hlut­ans að vakna og stöðva þessa vit­leysu rík­is­stjórn­ar­inn­ar!

Nor­ræna mód­elið

Að mati Sam­fylk­ing­ar­innar er þörf á meiri fjár­fest­ingu í heil­brigð­is- og mennta­kerf­inu og sér­stak­lega þarf að huga að því að bæta kjör barna­fjöl­skyldna, leigj­enda, fyrstu kaup­enda hús­næð­is, aldr­aða og öryrkja. Allt of margir í þessum hópum búa við kröpp kjör og fátækt. Líf­eyrir og laun þess­ara hópa eru að hækka minna en hús­næð­is­kostn­aður og það eykur á vand­ann.

Auð­velt er að fjár­magna þessi brýnu verk­efni með því að auka tekjur rík­is­ins af auð­lindum þjóð­ar­innar og styrkja jöfn­un­ar­hlut­verk skatt­kerf­is­ins.

Far­sæl þróun sam­fé­lags­ins bygg­ist á efna­hags­leg­um ­stöð­ug­leika. Rétt eins og félags­legum stöð­ug­leika sem er und­ir­staða þess að hér þró­ist frið­sælt og rétt­látt sam­fé­lag. Því miður hjó síð­asta rík­is­stjórn í þann stöð­ug­leika með því að veikja tekju­stofna, lækka vaxta- og barna­bætur og bregð­ast ekki við þeim fyr­ir­sjá­an­lega vanda sem var að skap­ast á hús­næð­is­mark­aðn­um. Ný rík­is­stjórn virð­ist ætla að festa þennan óstöð­ug­leika í sessi.

Ísland er í sókn­ar­færum til að gera bet­ur, nýta ein­stakt árferði sem er til­komið vegna vel heppn­aðrar úrvinnslu í efna­hags­málum í kjöl­far hruns­ins, mak­ríl­göngu og stór­auk­inna heim­sókna ferða­manna . Við erum að upp­lifa mesta hag­vöxt hins vest­ræna heims­hluta. Honum verður að skipta jafnt. Ann­ars verður engin sátt.

Saman getum við byggt upp til fram­tíð­ar, frið­sælt og kraft­mikið sam­fé­lag sem væri eft­ir­sókn­ar­vert fyrir fram­tíð­ar­kyn­slóðir að búa í. Skyn­sam­legt væri að byggja það upp á hinu nor­ræna mód­eli sem kannski er það besta sem ver­ald­ar­sagan hefur séð.

Það byggir á þremur stoð­um; stöðugri efna­hags­stjórn, þrí­hliða vinnu­mark­aðs­mód­eli laun­þega, atvinnu­rek­enda og rík­is­ins og öfl­ugu vel­ferð­ar­kerfi sem tryggir félags­legan stöð­ug­leika. Því miður hafa rík­is­stjórnin ekki næga fram­sýni til að stefna þang­að.

Logi Einarsson, for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.