Í vikulokin

Við í þingflokki Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands á Alþingi létum til okkar taka dagana 27. mars – 6. apríl 2017 eins og við var að búast.
Við lögðum fram nokkur mál í lok mars, s.s. aðgerðir til að bregðast við kennaraskorti, niðurfelling námslána við 67 ára aldur, myndlistarnám fyrir börn og viðbrögð við nýrri tæknibyltingu. Á heimasíðu Samfylkingarinnar www.xs.is er hægt að skoða öll málin sem við höfum lagt fram á þessu þingi. Hér er slóðin. Ég hvet ykkur til að fylgjast með heimasíðunni. Þar eru reglulega settar inn fréttir af flokkstarfinu sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma mánudaginn 27. mars spurði Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar ferðamálaráðherra um sölu á flugstöð Leif Eiríkssonar. Uppbygging á Keflavíkurflugvelli er ekki greidd með skattfé heldur með ágóða af rekstri flugstöðvarinnar og þjónustugjöldum frá flugfélögum. Samt vilja hægrimenn selja flugstöðina og þá hringa allar viðvörunarbjöllur jafnaðarmanna. Hér er slóð á spurningar Loga og svör ráðherrans.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á fimmtudaginn 30. mars spurði ég forsætisráðherra út í meðferð trúnaðarupplýsinga um losun gjaldeyrishafta og fyrrum aðstoðarmann hans og ráðgjafa sem nú starfar fyrir kröfuhafana. Spurningar mínar og svör forsætisráðherra eru hér.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma mánudaginn 3. apríl spurði Logi fjármála- og efnahagsráðherra út í ósættið á stjórnarheimilinu og misvísandi skilaboð sem stjórnarþingmenn og ráðherra senda frá sér. Hér eru athyglisverð samskipti þeirra Loga og Benedikts.
Guðjón S. Brjánsson var upphafsmaður að afar góðri umræðu um umbætur í aðbúnaði og málefnum eldriborgara. Allir flokkar tóku þátt í umræðunni og Logi líka. Slóðin á hana er hér.
Í sérstökum umræðum um þungunarrof og kynfrelsi kvenna flutti Logi tvær ræður og fréttir af þeim rötuðu í fjölmiðla. Ræðurnar eru hér og hér.
Undir liðnum störf þingsins vakti Guðjón máls á flutningi HB Granda frá Akranesi og kallaði stöðuna því ágæta nafni kerfismartröð sem íhaldið ver með kjafti og klóm. Hér er slóðin á þessa fínu ræðu Guðjóns.
Allir flokkar tóku þátt í sérstakri umræðu um gegnisþróun og afkomu útflutningsgreina. Hér er ræða Loga og hér er ræðan mín um skítareddingar.
Umræða um fjármálastefnuna til næstu 5 ára hófst þriðjudaginn 29. mars. Segja má að fjármálastefnan sé mikilvægast plagg hvers kjörtímabils og henni má ekki breyta nema að eitthvað hræðilegt gerist eins og efnahagshrun eða miklar náttúruhamfarir. Í því ljósi var sérstakt hvað fjölmiðlar veittu umræðunni litla athygli. Hér er ræðan mín með nefndaráliti okkar í Samfylkingunni.
Umræður um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu Búnaðarbankans og blekkingar tengdar aðkomu banka frá Þýskalandi voru á dagskrá 30. mars. Hér er slóð á umræðurnar en niðurstaða rannsóknarinnar er sérlega sláandi í því ljósi að allar fyrirspurnir um blekkingar og umræður var afar illa tekið af ráðherrum þess tíma og bæði Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið bar ásakanir um blekkingar á bak aftur. Einkavæðingin og vöxtur bankakerfisins í framhaldinu var rót hrunsins með mjög slæmum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag svo vægt sé að orði komist. Við tókum öll þrjú þátt í umræðunni.
Guðjón ræddi fiskeldi sem er mikilvægt mál og áríðandi einmitt nú um stundir. Hér slóðin á ræðuna hans.
Fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir fjármálaáætlun til næstu 5 ára sem byggð er á fjármálastefnunni. Þar kemur fram svart á hvítu að ríkisstjórnin er ein mesta hægristjórn sem við höfum haft hingað til og kosningaloforðin öll meira og minna svikin. Hér er ræða mín um áætlunina og hér er ræða Loga. Fagráðherrarnir fara yfir stefnu sem heyra undir þeirra ráðuneyti 6. apríl og þá munu Guðjón og Logi standa vaktina.
Við Logi tókum þátt í vikulegum umræðuþáttum um stjórnmál líðandi stundar. Ég var í Vikulokunum á rás1 og Logi í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.
Ég fór á fund Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og sat þar einnig fund í stjórn þingflokks jafnaðarmanna og þingflokksfund jafnaðarmanna og fund í forsætisnefnd ráðsins. Þar bar ýmislegt á góma en helsta umræðan var um Norðurlöndin og Bandaríkin í breyttu umhverfi, Stjórnsýsluhindranir á milli landa og tillögu Færeyinga um sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Norrænt samstarf er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga og ekki síst fyrir okkur jafnaðarmenn.
Handan við hornið er páskahátíðin og vonandi gefst þá góður tími til að njóta samvista með fjölskyldu og vinum.
Gleðilega páska og góðar stundir! Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar.