1. maí ræða Loga

1. maí ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar flutt á fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík í Iðnó, 2017. 

Á hundrað árum hefur Ísland þróast frá örbyrgð til ríkidæmis. Við höfum margsinnis mætt andstreymi en ævinlega sigrast á því. Okkur tókst t.d. að rísa á fætur eftir hrunið, þökk sé, nýjum fiskistofnum, gríðarlegum vexti ferðaþjónustunnar en alls ekki síst fórnum almennings. Alltof margir glíma þó enn við eftirköst þess.

Nú búum við aftur við velsæld og fordæmalausan efnahagsvöxt og í því ljósi er aukin misskipting auðvitað algjörlega óþolandi. Það er því tímabært og ekki óvænt að umræða um fátækt, húsnæðismál og almenn lífskjör skuli meðal helstu umræðuefna þjóðmálanna.

Hvernig má það vera að í þessu  auðuga landi, ríku af auðlindum, með hátt menntunarstig, skuli vinnandi, harðduglegar fjölskyldur ekki ná endum saman og þurfi að velja milli þess að greiða reikninga, veita börnum sínum tómstundir eða sækja sér læknisþjónustu?

Núverandi ríkisstjórn hafnar skattheimtu sem jöfnunartæki og kallar hana andstæðu frelsis. Hún heykist á að sækja tekjur til þeirra sem geta borið byrðarnar og vanrækir að innheimta sanngjarnt gjald af sameiginlegum auðlindum okkar; fjármagn sem nýttist til uppbyggingar á vanfjármagnaðri almannaþjónustu; heilbrigðis- og menntamálum, ásamt uppbyggingu annara samfélagslegra innviða.

Hún rekur stefnu sem elur á misskiptingu; þar sem þeir ríku verða sífellt ríkari og soga til sín á gríðarleg völd. Í dag hreiðra ofsaríkir einstaklingar samtímis um sig í fjármálafyrirtækjum, tryggingarfyrirtækjum, orkufyrirtækjum, á van þroskuðum húsnæðismarkaði, matvælamarkaði og jafnvel dagblöðum.

Afleiðingin er skortur á trausti í samfélaginu, ekki síst á stjórnmálaflokkum og hættan á að virkt lýðræði láti í minni pokann fyrir auðræði er raunveruleg.

Það er því ekkert skrítið að margir kjósendur sé leitandi, ráðvilltir og finnist jafnvel núverandi stjórnmálaflokkar hafa brugðist. Við slíkar aðstæður er heldur ekki óvænt að sífellt kvikni hugmyndir um ný stjórnmálaöfl.

Það þarf Samfylkingin að taka alvarlega og bregðast við með því að líta í eigin barm og skoða hvernig við getum skerpt áherslurnar og komið frá okkur jafnaðarstefnunni með trúverðugri hætti. Þá þurfum við að vera dugleg að halda því á lofti sem hreyfing okkar hefur gert vel.

Við búum sem betur fer í samfélagi þar sem hver og einn getur fundið eigin farveg fyrir stjórnmálaþáttöku sína og jafnvel stofnað flokk ef honum sýnist svo. Það er hins vegar áhyggjuefni þegar málflutningur þeirra sem hyggjast stofna vinstri flokka beinist gegn nágrönnum þeirra í stjórnmálum en ekki fyrst og fremst höfuðandstæðingnum. Og illt þegar uppi eru órökstudd brigsl um lygar, svik og sannleikanum er hagrætt.

Það er þó ekki einungis alvarlegt fyrir þá sem fyrir því verða Ekki síður fyrir baráttuna fyrir betri kjörum og réttlátara samfélagi.  Í slíkum málflutningi felst nefnilega í besta falli afleitt stöðumat, í versta falli takmarkalítil slægð, þar sem tilgangurinn virðist helga meðalið og hið raunverulega markmið er ásókn í einhver völd.

Hin kalda staðreynd er nefnilega sú að enginn einn flokkur vinstra megin við miðju mun ná hreinum meirihluta í landinu; a.m.k. ekki í mjög fyrirsjáanlegri framtíð. Ef félagshyggju öflin og stéttarfélögin ætla að breyta landinu, þurfa þau að geta unnið saman; jafnt gamlir flokkar sem nýir.

Við skulum því ekki svara slíkum árásum með sömu meðulum; fjandskap, dylgjum og útilokun. Gerum það með festu og rökum en ekki síður með umburðarlyndi, rausnarskap  og trú á að saman geti félagshyggjuöflin breytt samfélaginu til hins betra.

Við þurfum sannarlega að líta inná við og velta því fyrir okkur hvort svipuð orðræða, innan okkar eigin raða, hafi kannski leikið hreyfinguna grátt; dregið úr okkur tennur og gert okkur tímabundið máttlausari í íslenskum stjórnmálum en ella.

Tíminn eftir kosningar sýndi enn og aftur að það þarf sterkan sósíaldemókrataflokk til að mynda félagshyggjustjórn. Tilraunir til að mynda fimm flokkaflokka umbótastjórn, sem setti aukin jöfnuð á dagskrá, mistókst og í staðin sitjum við uppi með hreina hægri stjórn, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fer með öll völd.  Það er sannfæring mín að hefði Samfylkingin verið stærri við samningaborðið, hefði hún verið límið sem gat bundið saman ólíkar áherslur VG annars vegar en Viðreisnar hins vegar.

Það er mikil blekking þegar fólk telur sér trú um að barátta fyrir réttlátum heimi sé áhlaupaverk. Að öll markmið náist í einni svipan. Slagurinn krefst þolinmæði , langlundargeðs, samningsvilja og getur jafnvel tekið fleiri mannsaldra.  Það auðnast ekki einu sinni öllum, sem standa í eldlínunni, að uppskera árangur erfiðis síns. Því er mikilvægt að vera meðvitaður um einstakan hæfileika mannsins til að vinna saman og miðla þekkingu, jafnvel þvert á kynslóðir.

Þetta ættu þeir kannski að þekkja allra best sem hverfa af sviðinu, oft eftir óeigingjarna baráttu og afhenda nýju fólki keflið. Sjálfir fengu þeir nefnilega góð verk og velvilja í arf frá fyrirrennurum sínum, sem deildu með þeim hugsjónum. Einhverju náðu þeir eflaust að koma í höfn, öðru skiluðu þeir frá sér til yngri stjórnmálamanna, þegar þeir drógu sig sjálfir í hlé. Í stjórnmálahreyfingu þurfa menn að treysta hverjir öðrum og vera örlátir. Nógu stórir til að geta óskað nýrri kynslóð góðs gengis og aðstoða eftir mætti. Þannig hafa flestir stórir sigrar unnist.

Ég hvet því allt félagshyggjufólk að temja sér uppbyggilega nálgun og orðræðu: Sundruð munum við aðeins verða vatn á myllu hægri aflanna en saman getum við lyft grettistaki. Þetta gildir þótt við séu ekki sammála um allt og jafnvel þótt við veljum að starfa í mismunandi flokkum. Sameiginlega eigum við þó þá sýn að skapa samfélag meiri jöfnuðar, ríkari mannúðar, réttlætis og deilum þeirri trú að samhjálpin skili okkur lengst.

Samfylkingingarfólki er algjörlega óhætt að bera höfuðið hátt.  Um það vitna bæði verk flokksins og forverana. Vissulega hefur okkur orðið á og jafnvel stundum borið af leið en þá verða menn að sjá að sér og rétta kúrsinn.

Jafnaðarmenn hafa unnið marga stóra áfangasigra. Í lengri fortíð má nefna Vökulögin, lög um verkamannabústaði, almannatryggingar, jöfn laun karla og kvenna og Lánasjóður námsmanna. Allt mál þar sem jafnaðarmenn lögðu harðast á árar.

Í seinni tíð höfum við einnig af mörgu að státa. Við lögðum mikið að mörkum til að reisa þjóðina á fætur aftur eftir rothögg hrunsins. Þar var megin áherslan lögð á að verja þá sem höllustum fæti stóðu.

Í seinni tíð höfum við sett fjölmörg mál á dagskrá sem við þurfum berjast áfram fyrir af fullri hörku. Þar nefni ég nýja stjórnarskrá, gjaldmiðilsmálin, viðræður við ESB og uppstokkun í auðlindamálum.

Stóru verkefni dagsins lúta að sjálfsögðu að baráttunni fyrir jöfnuði. Í dag búa  þúsundir barna enn við fátækt, fjöldi manns er í húsnæðiserfiðleikum, launamunur eykst og sífellt stærri hluti auðsins safnast á fárra hendur. Við höfum því enn mikilvæg verk að vinna.

Við þurfum þó líka að komast fyrir vaðið og búa okkur undir framtíðina. Það nægir ekki að læsast í viðbragðinu.

Þróun tækninnar stillir okkur upp andspænis fjölda áskoranna og siðferðisspurninga. Náum við að standast þær og nýta tæknina, í stað þess að verða þjónar hennar, getum við skapað betri og réttlátari heim.

Ef við hins vegar skellum skollaeyrum við og leyfum framtíðinni að koma aftan að okkur, gætum við þurft að takast á við skelfilegar afleiðingar; aukinn ójöfnuð, félagsleg undirboð og ófrið.

Þegar verksmiðjur og fyrirtæki verða rekin án eða með fáum starfsmönnum verður aðhald vinnandi stétta veikara.  Störfin verða fjölbreyttari og ekki endilega víst að starfsfólki finnist það eiga jafn mikið sameiginlegt hvert með öðru og óljósara í hvaða hóp það vill skipa sér. Þetta verður gríðarleg áskorun fyrir stéttarfélögin; stærri en þau hafa staðið frammi fyrir í langan tíma. Þar munu þau þurfa öflugan pólitískan bandamann.  Meðal okkar helstu verkefna verður að stórefla menntun en líka að hindra  að allur ávinningur af tækniþróuninni renni til fyrirtækja.  Slíkt mundi auka enn ójöfnuðinn og gera okkur vanmáttug til að halda uppi öflugri almannaþjónustu.

Kæru félagar, lífið er ekki eins og marsering á hersýningu, þar sem gengið er í samhæfðum jöfnum takti án þess að litið sé til hægri og vinstri.  Þar sem markmiðið er að sýna mátt sinn, jafnvel hræða. Og hugmyndafræðin byggir á svartri hvítri skynjun á veruleikanum; ofuráhersla lögð á að draga upp einfalda mynd af óvininum.

Lífið er sem betur fer miklu líkara tangó; eitt skref áfram, tvö aftur á bak. Fullur af tilfinningum; gleði og sorg, sigrum og ósigrum. Þar sem samvinnan gerir gæfumuninn.

Stundum heyrist að áherslur Samfylkingarinnar séu of dreifðar og flokkurinn eigi fyrst og fremst að tala um fá kjarna mál. Í því kann að leynast sannleikskorn.  En gleymum því aldrei að Samfylkingin á sér draum um réttlátan innihaldsríkan heim. Það væri því aumi jafnaðarmannaflokkurinn sem tæki ekki slaginn fyrir jafnrétti kynjanna, réttindi samkynhneigðra, fólk  á flótta undan hörmungum, umhverfið, menninguna og listina svo fá dæmi séu tekin, ásamt því að berjast gegn fátækt og ójöfnuði.

Og að lokum kæru félagar, án gleðinnar náum við ekki langt. Með henni eru okkur flestir vegir færir.