Hlutverk kennara

Nýlega sagði formaður mennta- og allsherjarnefndar Alþingis að ein leið til að sporna við kennaraskorti væri aukin einkavæðing og frammistöðutenging launa kennara. Það er sjálfsagt auðvelt að árangurstengja laun verðbréfasala. Og æskilegt að umbuna góðum kennara fyrir vel unnin störf. En þegar greiða á bónus fyrir barnakennslu flækjast málin. Á að veita þeim kennara umbun sem fær nemanda, vel nestaðan hæfileikum, úr góðum aðstæðum og stendur sig vel á vorprófi, betur en öðrum sem kennir þeim með erfiðari bakgrunn, sem nær miklum framförum, þótt hann fái ekki jafn háar einkunnir og sá fyrr nefndi?
Við eigum að hafna menntakerfi sem gerir einstökum skólum færi á að lokka til sín valda nemendur og rukka jafnvel aukagjöld af þeim sem ráða við þau. Slíkt leiðir til slæmrar aðgreiningar. Við þurfum að reka sterka opinbera skóla sem tryggja öllum nemendum jafnt aðgengi að góðri menntun í umhverfi sem endurspeglar fjölbreytni samfélagsins. Í því felst líka dýrmætt uppeldi og menntun. Það þarf að nálgast hvern einstakling á forsendum styrkleika hans og búa hann undir flókið líf fullorðinsáranna.

Markmið skóla er heldur ekki eingöngu að nemandi leysi námsefni sitt óaðfinnanlega. Hlutverk hans er að gera hverjum og einum kleift að þróa sem best hæfileika sína og þroska með honum eiginleika svo sem víðsýni, umburðarlyndi, samkennd og aðra lyndisþætti sem gera hann að nýtum og farsælum borgara. Eiginleikar sem sumir verða seint og illa mældir en stuðla að betra og friðsælla samfélagi.

Menntun mun leika lykilhlutverk í þeim gríðarlegu breytingum sem samfélagið stendur frammi fyrir fyrir m.a. vegna yfirstandandi tæknibyltingar. Svarið við þeim er alls ekki að veikja opinbera skólakerfið, heldur að styrkja það og fjármagna mun betur.

Tryggjum kennurum sanngjörn laun, bætum vinnuaðstöðu þeirra og lögum aðbúnað skóla, þannig að þeir geti sem best sinnt mikilvægu hlutverki sínu í þágu okkar allra.
 
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.