Norræna módelið - ræða Oddnýjar
Ræða Oddnýjar Harðardóttur þingflokksformanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 13. september 2017.
Frú forseti góðir landsmenn.
Ameríski draumurinn er það kallað, þegar fátækt fólk getur tryggt sér og sínum góða afkomu og menntun, komist í álnir og bætt stöðu sína. Rannsóknir sýna hins vegar að sá draumur er mun líklegri til að rætast á Norðurlöndum en í Bandaríkjunum.
Eftir fund Baraks Obama forseta Bandaríkjanna með forsætisráðherrum Norðurlandanna vorið 2016 sagði hann þetta: „Heimurinn væri öruggari og farsælli ef fleiri bandamenn væru eins og Norðurlöndin.“
Norræna módelið sem Obama vildi líta til, féll ekki af himnum ofan. Það byggir á jöfnuði, samhjálp og félagslegu öryggi. Grunninn og stoðirnar sem staðist hafa ágang frjálshyggjunnar, hafa jafnaðarmenn byggt í samstarfi við sterkar verkalýðshreyfingar og stéttarfélög.
Stoðirnar þrjár, góð hagstjórn, velferð fyrir alla og skipulagður vinnumarkaður, standa saman eins og fætur undir þrífættum stól, ef ein brotnar fellur allt.
Norðurlöndunum hefur tekist að vera fyrirmyndarríki þó að vandi hafi oft steðjað að. Það sem nú ógnar helst vinnumarkaði og eðlilegri samkeppni á milli fyrirtækja hér heima og í nágrannaríkjunum, er það sem kallað er félagsleg undirboð, en er í raun ekkert annað en þjófnaður og svik gegn launafólki og svindl í samkeppni á markaði.
Þó að flest fyrirtæki komi vel fram og standi við sitt, fer vandinn vaxandi en eins og aðrir glæpir eru svikin myrkraverk og þola ekki dagsins ljós.
Hagvöxtur hér á landi hefur verið mikill undanfarin ár. Þessi hagvöxtur hefði ekki orðið til nema fyrir innflutt vinnuafl og þar eru undirboðin algengust. Það er óþolandi að velferðin okkar, sé að hluta til, byggð á svikum og á því að gengið sé á réttindi launamanna.
Við í Samfylkingunni munum ekki sitja þögul hjá og láta verkalýðsfélög ein um að benda á óréttlætið.
Með fjársvelti eftirlitsstofnanna og lögreglu og óskýrri lagalegri ábyrgð fyrirtækjanna leyfa stjórnvöld glæpunum að grassera.
Kæru landsmenn
Barnafjölskyldur geta treyst því að Samfylkingin vinni að þeirra hag. Bættar aðstæður barna og jöfn tækifæri ungs fólks er og verður okkar aðal áherslumál.
Hin norrænu ríkin laða ungt fólk til sín og sérstaklega barnafjölskyldur, með meiri stuðningi við börn, betri aðstæðum fyrir námsmenn, styttri vinnutíma og hærri launum. Og gjaldmiðli og lánakjörum sem unnt er að treysta á.
Lenging fæðingarorlofs í eitt ár og að tryggt sé að leikskólar geti tekið við börnum frá eins árs aldri, eru breytingar sem skipta barnafjölskyldurnar okkar miklu máli. Barnabætur eiga að vera með öllum börnum og auka þarf húsnæðisstuðninginn svo um munar.
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eru þessi nauðsynlegu jöfnunartæki veikt og færð í óravegu frá því sem norræna módelið byggir á.
Það er nefnilega ekkert lögmál að á Íslandi þurfi alltaf að vera lakari kjör en í hinum norrænu ríkjunum. Það er engin haldbær ástæða fyrir því að við ættum að sætta okkur við að fólkið okkar fái ekki bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, að við getum ekki séð til þess að allir eldri borgarar hafi það gott og að öryrkjar séu fastir í fátækrargildru. Við eigum ekki að sætta okkur við að barnafjölskyldur séu á vergangi vegna húsnæðisvanda, börnin flakki á milli skólahverfa og geti ekki stundað íþróttir vegna þess að laun foreldranna duga rétt fyrir húsnæði, fæði og klæði.
Við eigum ekki að sætta okkur við að góðærið nái ekki til allra.
Og þetta þarf ekki að vera svona, en er það, vegna pólitískra ákvarðana. Vegna þess að alþingismenn samþykka fjárlög svipuðum þeim sem núverandi fjármálaráðherra mun mæla fyrir á morgun, með fjársveltu velferðarkerfi og úrræðaleysi í húsnæðismálum.
Við eigum að horfa til norræna módelsins og vinna af heilum hug að því að auka jöfnuð og jafnrétti og að velferð fyrir alla.
Við eigum líka að herða á baráttunni gegn hlýnun jarðar og mengun hafsins.
Og við eigum að rétta fólki á flótta hjálparhönd, fólki sem glímir við ógn og vanda.
Við í Samfylkingunni stöndum fyrir mannúð, mildi og samhjálp, af því við getum ekki annað.
Af því að það er það sem jafnaðarmenn gera.
Góðar stundir