Látum hjartað ráða för - Ályktun flokksstjórnarfundar
Ályktun flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands
Hótel Natura, Reykjavík, 6. október 2017
Íslendingar ganga til kosninga í skugga spilltrar stjórnmálamenningar þar sem upplýsingum er haldið frá almenningi, ójöfnuður fer hratt vaxandi og hagsmunir hinna ríku ráða för á kostnað almannahagsmuna. Samfylkingin var stofnuð til þess að breyta stöðnuðu stjórnmálakerfi og jafna leikinn í þágu þeirra sem minna bera úr býtum. Það er grundvallarstefna jafnaðarmanna að allir njóti góðs af auðlindum landsins og efnahagslegum uppgangi. Samfylkingin ætlar sér að skapa nýtt, betra og réttlátara samfélag.
Á komandi kjörtímabili leggur Samfylkingin megináherslu á þessi grundvallaratriði:
Betri lífskjör og aukinn jöfnuður
Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang þurfa margir í röðum öryrkja, eldri borgara, sjúklinga og barnafólks að óttast um afkomu sínu um hver mánaðamót. Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að mörg börn búa við fátækt og skort.. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum. Næsta ríkisstjórn verður að taka afdrifarík skref til þess að bæta kjör þessa fólks.
- Aukum verulega stuðning við barnafjölskyldur með tvöfalt hærri barnabótum og auknum húsnæðisstuðningi.
- Stuðlum að byggingu þúsunda leiguíbúða á vegum félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.
- Færum skattabyrði frá milli- og lágtekjufólki til þeirra sem hana geta borið.
- Tryggjum að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum.
- Bætum lífsgæði aldraðra og öryrkja, hækkum lífeyri og drögum verulega úr tekjuskerðingu lífeyris.
Við stöndum við stóru orðin í heilbrigðismálum
Stórauknum framlögum var lofað til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu í síðustu kosningabaráttu. . Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu að setja þessi mál í algjöran forgang en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.
- Höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggjum höfuðáherslu á að bæta heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu.
- Lækkum heilbrigðiskostnað fólks verulega og auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu.
- Ráðumst í átak í geðheilbrigðismálum og heilsueflingu almennt.
Sókn í menntamálum
Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum í anddyri tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að breytast verulega. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og skólarnir þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.
- Gefum nemendum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.
- Aukum virðingu fyrir kennurum og bregðumst við kennaraskorti.
- Fjármögnum háskóla til jafns við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.
- Styðjum betur við fjölbreytta framhaldsskóla út um allt land og vinnum gegn brottfalli framhaldsskólanema með markvissum aðgerðum.
Meiri mannúð og jafnrétti
- Ráðumst í átak gegn ofbeldi.
- Tökum á móti fleiri flóttamönnum og vöndum móttöku hælisleitenda, sérstaklega barna.
Samgöngur og umhverfi sem bæta lífsgæði
- Stóraukum fjárfestingu í vegagerð með fjármögnun samgönguáætlunar.
- Tökum markviss skref til þess að standa við skuldbindingar okkar í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar.
- Flýtum orkuskiptum í samgöngum með skipulagi og hleðslustöðvum um allt land.
Treystum þjóðinni
Traust er einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna. Til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem gaf þeim umboð, hlusta á hana og virða. Þeir mega ekki skýla sér á bak við lagatækni þegar koma þarf í veg fyrir ómannúðlega meðferð á börnum á flótta, veita á upplýsingar sem varða almannahagsmuni eða virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnmálamenn eiga ekki sjálfir að ráða leikreglunum sem þeir spila eftir. Óttumst ekki afstöðu þjóðarinnar, hvorki í stjórnarskrármálum né Evrópumálum.
- Vinnum af krafti á nýju kjörtímabili að nýrri stjórnarskrá á grunni vandaðrar vinnu stjórnlagaráðs sem afgerandi meirihluti lýsti stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslu
Jafnaðarmönnum er best treystandi til að hrinda þessum réttlætismálum í framkvæmd. Við ætlum að reka öfluga gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu, stuðla að byggingu þúsunda íbúða, fjármagna kröftuga byggðastefnu og fara í menntasókn sem leggur grunn að því að lífskjör hér á landi verði áfram í fremstu röð. Við ætlum að hlúa betur að börnum og barnafjölskyldum, vinna gegn fátækt og sjá til þess að allir fái notið þeirra gæða sem við búum við. Látum hjartað ráða för.
Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands