Tillögum um aukin stuðning við fátæk börn hafnað

Við lok afgreiðslu fjárlaga gerði okkar fólk loka atlögu til þess að bæta kjör þeirra þúsunda barna sem líða skort. Að bæta kjör þeirra fjölskyldna sem hafa lökustu kjörin.

Þingmenn Samfylkingarinnar, í samstarfi við alla aðra flokka í stjórnarandstöðunni, fluttu tillögur um hærri barnabætur og vaxtabætur. Kosið var um tillögurnar í dag og skemmst frá því að segja að þessum hóflegu og réttlátu tillögum var hafnað.

Tillögurnar gáfu nýrri ríkisstjórn í fyrsta lagi tækifæri til þess að standa við stóru orðin sem hafa fallið á árinu sem nú er að líða. Standa við stóru orðin sem féllu fyrir kosningar. Að nú væri kominn tími til þess að varða leiðina í átt að félagslegum stöðugleika sem verkalýðshreyfingin kallar á. Ríkisstjórnin fékk auðvelt tækifæri til þess að stíga fyrsta skrefið og mæta þeim þúsundum barna sem búa við skort.

Í öðru lagi tækifæri til að standa við stóru orðin sem féllu eftir kosningar um ný og betri vinnubrögð. Um betra samstarf við stjórnarandstöðuna og verkalýðshreyfinguna. Þessir aðilar eru allir sannfærðir um mikilvægi þeirra tillagna sem hér liggja fyrir.

Nánar um tillögurnar sem var hafnað
Lagt var til að skerðingamörk barnabóta miðuðust við lágmarklaun (300.000 kr. á mánuði). Á næsta ári eiga barnabætur að byrja að skerðast við 240.000 kr., langt fyrir neðan lágmarkslaun. Með breytingum hefðu fleiri fjölskyldur fengið barnabætur og fólk á lægstu tekjunum hefði fengið meira í sinn hlut.

Að auki var lagt til að vaxtabætur rynnu í auknu mæli til þeirra sem eru í lægstu þremur tekjutíundunum. Í dag fær fólk með 3. tekjutíund litlar sem engar vaxtabætur.

Í nefndaráliti Oddnýjar Harðardóttur frá Samfylkingu, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar frá Miðflokki, Helga Hrafns Gunnarssyni frá Pírötum og Þorsteins Víglundssonar frá Viðreisn með stuðningi Ólafs Ísleifssonar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, er fjallað með ítarlegri hætti um áhrifin af breyttum reglum. Í nefndarálitinu segir m.a.:

Barnabætur.

Á Norðurlöndum og víðar í Evrópu hefur ríkt mikil sátt um gildi stuðnings til barnafjölskyldna en hér hefur markvisst verið dregið úr vægi þeirra. Barnabætur á Norðurlöndum eru föst upphæð á barn en stuðningur á Íslandi er ekki aðeins háður fjölda og aldri barna heldur einnig tekjum foreldra og hjúskaparstöðu. Mikil skerðing barnabóta strax við lágar tekjur, líkt og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur til, stuðlar að meiri fátækt meðal vinnandi fólks. Hjón sem bæði eru í launaðri vinnu en á lágum launum fá litlar barnabætur hér á landi. Það er meðal þess sem veldur því að barnafjölskyldur eru líklegri til að búa við fátækt hérlendis en barnlausar fjölskyldur.

Ríkisstjórnin leggur til að viðmiðum til úthlutunar barnabóta verði aðeins lítillega breytt þannig að foreldrar með minna en 242.000 kr. í mánaðarlaun fái óskertar barnabætur í stað 225.000 kr. á árinu 2017. Greiðslur með fyrsta barni hækka aðeins samkvæmt þessu um 1.447 krónur á mánuði og greiðslur hækka um 1.758 kr. á mánuði við hvert barn eftir það. Ríkisstjórnin leggur þetta til þótt barnabætur hafi dregist saman um 23% að raunvirði frá árinu 2008 og að þeim fjölskyldum sem njóta barnabóta hafi fækkað um rúmlega 12 þúsund frá árinu 2013.

Minni hlutinn leggur til sem málamiðlun milli norræna fyrirkomulagsins og tillagna ríkisstjórnarinnar að skerðingarmörk barnabóta árið 2018 miðist við lágmarkslaun, sem verða þá 300.000 kr. á mánuði. Foreldrar með lægri tekjur en það fái því óskertar barnabætur.

Vaxtabætur.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta í ákvæði til bráðabirgða XLI í lögum um tekjuskatt verði framlengdar um eitt ár. Greiddar vaxtabætur ríkissjóðs hafa lækkað verulega á undanförnum árum. Vegur þar þungt að eignaviðmiðum hefur ekki verið breytt þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignaverði. Er nú svo komið að einstaklingar og sambúðarfólk með lágar árstekjur (3. tekjutíund) í hóflegu húsnæði njóta lítilla sem engra vaxtabóta. Miðað við sambærilegar tekjur í eign árið 2008 fékk þessi hópur vaxtabætur sem námu um 30-40% vaxtagjalda sinna en í dag eru þær hverfandi.

Minni hlutinn leggur til að eignaviðmið einstaklinga og hjóna og samskattaðs sambúðarfólks samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu hækki um 5,2 milljónir kr. Samkvæmt minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið tók saman fyrir nefndina mundi hækkun vaxtabóta vegna hækkunar á eignaviðmiðum skerðinga um 5 milljónir kr. koma lægstu þremur tekjutíundum best.

Áætlað er að kostnaður við hækkun skerðingamarka barnabóta miðist við lágmarkslaun (300.000 krónur á mánuði) verði 1,8 milljarður kr.

Áætlað er að kostnaður vegna hækkunar á eignaviðmiðum vaxtabóta um 5 milljónir kr. verði 1,3 milljarðar kr.