Samfylkingin skrifar undir sameiginlega viljayfirlýsingu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Varaformaður Samfylkingarinnar, Heiða B. Hilmisdóttir undirritaði í gær, fyrir hönd Samfylkingarinnar, sameiginlega viljayfirlýsingu fulltrúa stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í henni kemur m.a. fram að íslensk lög og reglur kveði á um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum skuli ekki liðin. Komi það upp skuli bregðast við því með markvissum hætti. Þá segir að öryggiskennd og góður starfsandi skipti sköpum fyrir vellíðan starfsmanna.

Öryggiskennd og góður starfsandi skipta sköpum fyrir vellíðan starfsmanna. Á vinnustaðnum eigum við góð samskipti og virðum eftirfarandi sáttmála:

  • Við þekkjum stefnu og viðbragðsáætlun vinnustaðarins gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og erum meðvituð um skyldur okkar.
  • Við líðum ekki einelti, áreitni eða ofbeldi, beitum því ekki og vitum að meðvirkni með geranda getur skaðað starfsmenn og vinnustað okkar.
  • Við berum sameiginlega ábyrgð á vinnuumhverfinu og leggjum okkar af mörkum til að bæta það enn frekar.
  • Við erum ólík, með mismunandi bakgrunn og lífsskoðanir, en sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum.
  • Við skiljum að upplifun af samskiptum er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.
  • Við ræðum um framkomu sem okkur mislíkar og tökum upp varnir fyrir þá sem brotið er gegn.
  • Við tökum tillit til ábendinga um að við getum bætt framkomu okkar.
  • Við sýnum öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.

Viljayfirlýsingin var undirrituð á fundi Vinnueftirlitsins, stjórnar Vinnueftirlitsins og Velferðarráðuneytisins sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík. Markmið fundarins var að vekja athygli á mikilvægi þess að efla forvarnir á sviði vinnuverndar með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Yfirlýsinguna er að finna í heild sinni vef Vinnueftirlitsins. Þar gefst forsvarsmönnum fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka jafnframt tækifæri til að undirrita hana með rafrænum hætti og gerast þar með aðilar að henni.