Gleðilegan baráttudag!

Samfylkingin óskar íslensku verkafólki til hamingju með daginn.✊🏼🌹Hér er smá hugvekja í tilefni hans eftir rithöfundinn og þingmanninn okkar hann Guðmund Andra Thorsson:

___________________

BYRÐAR OG GÆÐI

Um það snýst þetta allt. Við skiptumst í flokka og fylkingar eftir afstöðu okkar til þess hvernig við skiptum sameiginlegum gæðum og deilum sameiginlegum byrðum. Við skiptumst í jafnaðarmenn og ójafnaðarmenn. Um þetta snúast stjórnmál – og um það hvort við aðhyllumst almenn réttindi eða forréttindi fárra, raunverulegt frelsi til athafna og tjáningar eða rétt hins freka til að sitja yfir hlut annarra eða ausa hatri yfir saklaust fólk.

Ójafnaðarmenn vilja að „markaðurinn“ ráði; þeim finnst að markaðurinn sé eins og alvitur og óskeikull guð úr gamla testamentinu sem er heldur í nöp við fólk, dyntóttur og sífellt að leggja óþarfar prófraunir á saklaust fólk sem ekki hefur annað til saka unnið en að vilja vera til. En rétt eins og við trúum lengur fæst á slíkt ranglátt afl sem stýri veröldinni utan við okkar vilja þá föllumst við ekki á óskeikulleika markaðarins, sem er bara manngerður vettvangur og lýtur þeim reglum sem við setjum honum.

Jafnaðarmenn vilja deila sameiginlegum gæðum sem jafnast en ekki sem ójafnast eins og ójafnaðarmenn.

Jafnaðarmenn vilja skipta byrðunum þannig að enginn þurfi að sligast undan tilveru sinni. Ójafnaðarmenn aðhyllast samfélag þar sem sumir missa krónu á móti krónu sem þeir fá en aðrir fá milljón fyrir hverja krónu sem þeir láta af hendi rakna.

Jafnaðarmenn vilja hjálpast að, eiga samfélag um hlutina, frekar en „hinn sterki“ ráði, auðvaldið neyti aflsmunar til að gera út um hlutina. Launafólk tekur höndum saman með því að bindast samtökum um mannsæmandi laun og boðleg lífskjör, í húsnæðismálum og verðlagsmálum. Innan raða verkalýðsfélaganna á fólk sem stendur höllum fæti að geta fundið skjól og afl til að bæta kjör sín, ekki síst nýir íbúar landsins.

Jafnaðamenn vilja sterkt sameiginlegt kerfi kringum heilbrigðismál og skólamál og önnur velferðarmál þar sem starfsfólk fær sanngjörn laun sem endurspegla ábyrgð þess. Jafnaðarmenn vilja öflugt atvinnulíf þar sem fyrirtæki geta blómstrað og skilað arði, bæði fyrir eigendur sína og samfélagið allt. Jafnaðarmenn telja að leita þurfi leiða til að lækka vaxtabyrði á heimilum og fyrirtækjum og við í Samfylkingunni teljum að það verði einungis gert með nýjum gjaldmiðli, evru, og fullri aðild að Evrópusambandinu.

Kannski er munurinn á vinstri og hægri hér á landi ekki síst fólginn í þessu: Jafnaðarmenn vilja að markaðsöflin njóti sín í framleiðslugreinum, sjávarútvegi, landbúnaði,ferðaþjónustu, nýtæknigreinum … þar sé fyrirgreiðsla ríkisins lítil og afskipti í lágmarki, enda séu greiddir sanngjarnir skattar af þeim mikla arði sem myndast af afnotum á sameiginlegum auðlindum okkar en hins vegar sé opinber rekstur reglan í umönnunarstörfum. Ójafnaðarmenn vilja hins vegar að ríkið styðji sem mest við þjónustugreinarnar, frumframleiðslugreinarnar og sé með puttana þar í útdeilingu gæða á borð við kvóta – en að markaðsöflin leiki lausum hala þegar kemur að umönnunarstörfunum.

Jafnaðarmenn sameinast um þessa hugsjón: jöfnuð, réttlæti, frelsi. Svo erum við ósammála um alls konar hluti og hnakkrífumst um hvaðeina. Þannig á það líka að vera, þó við höfum að vísu, íslenskir vinstri menn, nánast gert það að listgrein að vera ósammála og verið ótrúlega fundvís á blæbrigði í ágreiningi sem við þaulræktum og stofnum helst nýjan flokk um …

Við erum misjafnlega skilningsrík á þarfir fyrirtækjanna á markaði, athafnafrelsi einstaklinga, misjafnlega tortryggin á einkarekstur en það er líka stöðugt úrlausnarefni að finna út úr því hvernig við skiptum á milli okkar gæðunum sem landið okkar býður okkur takmarkalausar og deilum byrðunum sem lífið færir okkur. Því allt snýst þetta um það: Gæði og byrðar.