Fréttatilkynning: Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar óraunsæ og ósanngjörn

Þingflokkur Samfylkingarinnar boðaði til blaðamannafundar 7. júní kl. 10. Jafnframt sendi hann frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

 

Þingflokkur Samfylkingarinnar telur fjármálaáætlun meirihlutans byggja á óraunhæfum forsendum og muni ýta undir frekari ójöfnuð í samfélaginu og skammarleg kjör ákveðinna hópa samfélagsins.

Þrátt fyrir fjölmargar og grafalvarlegar athugasemdir, frá mörgum umsagnaraðilum, við tæplega 5.000 milljarða króna fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á ekki að hnika til krónu. Flestir umsagnaraðilar eru sammála um að forsendur fjármálaáætlunarinnar séu fullkomlega óraunsæjar. Þær byggja á að hér verði 13 ára samfleytt hagsvaxtarskeið sem hefur aldrei gerst í sögu Íslandsbyggðar. Einnig er gert ráð fyrir óbreyttu raungengi krónunnar næstu 5 árin en raungengið hefur aldrei verið eins sterkt og nú er. Við slíkar aðstæður hefur gengið alltaf fallið sem hefur bein áhrif á hagvöxt, verðbólgu, vexti, skatttekjur, einkaneyslu o.s.frv. Forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins í umfjöllun sinni lýstu því að reka íslenskt fyrirtæki í samkeppni við erlend fyrirtæki væri eins og „að búa í harmonikku á sveitaballi“.

Að mati Samfylkingarinnar er því fjármálaáætlunin pólitísk tálsýn og draumsýn ríkisstjórnarinnar.

Helstu gagnrýnisatriði þingflokks Samfylkingarinnar á fjármálaáætlun:

 1. Sett er þak á þá fjármuni sem eiga að renna til barnabóta og vaxtabóta sem er ekki krónu hærri en það sem nú rennur til þessara mikilvægu úrræða velferðarkerfisins.
 2. Landspítalinn telur sig þurfa um 87 milljarða kr. til viðbótar samanlagt næstu fimm árin og strax á næsta ári um 5,4 milljarða sem er „algjört lágmark“ til að mæta núverandi þörf.
 3. Fjármunir sem renna til aldraðra eru fyrst og fremst vegna fjölgunar í þeim hópi og enn eru ekki tryggðir nægjanlegir fjármunir til reksturs hjúkrunarheimila.
 4. Gert er ráð fyrir einungis um 4 milljarða kr. aukningu til öryrkja umfram þá fjármuni sem bætast við vegna fjölgunar í þeim hópi. Slík upphæð er um einn þriðji af því sem afnám svokallaðrar „krónu-á-móti-krónu“ getur kostað fyrir utan aðrar kjarabætur sem öryrkjar hafa verið að kalla eftir.
 5. Fjármunir sem renna til framhaldsskólanna er einungis það fé sem sparaðist vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs. Því hafði verið lofað af fyrrverandi ríkisstjórn og getur því alls ekki kallast stórsókn í menntamálum eins og ríkisstjórnarflokkarnir vilja vera láta.
 6. Háskólastigið fær minna en helming af því sem lofað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.
 7. Helmingi minna fjármagn rennur í uppbyggingu leiguíbúða en nú er gert.
 8. Boðuð er skattastefna sem færir tekjuháum einstaklingum þrisvar sinnum meiri skattalækkun en þeim sem minnst hafa. Þá er lækkun skatta á banka sett í forgang.
 9. Framlög til menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála lækka næstu fimm árin.
 10. Fjárframlög til samgöngumála á tímabilinu ná ekki einu sinni 10 ára meðaltali fjármagns í þennan málaflokk og eru einungis svipuð og þau hafa verið undanfarin 5 ár.
 11. Samneyslan (neysla hins opinbera) dregst saman næstu fimm árin þrátt fyrir orð forsætisráðherra fyrir nokkrum mánuðum um að samneyslan ætti að aukast vegna innviðauppbyggingar og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar.

Samfylkingin telur að eftirfarandi breytingar á framlögum myndu ganga langt til að skapa sátt og ýta undir stöðugleika í landinu. Breytingartillögurnar eru að fullu fjármagnaðar.

 1. Framlög aukin um 6 milljarða til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri
 2. Framlög til barnabóta aukin um 3 milljarða kr. og vaxtabóta um 2 milljarða kr.
 3. Framlög til framhaldsskóla aukist um 400 millj. kr. og háskóla um 3 milljarðar kr.
 4. Einum milljarð bætt inn í átak í samgöngumálum.
 5. Framlög til að bæta kjör aldraðra aukist um 1,5 millj. kr.
 6. Framlög í málefni öryrkja aukist um 3 milljarð króna til að mæta afnámi krónu-á-móti-krónu skerðingunni.
 7. Stofnframlög til almennra íbúða aukist um 1,5 milljarða kr.
 8. Framlög til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni aukist um 500 milljónir kr.
 9. Heilsugæslan efld með 400 milljónir kr. viðbót
 10. Framlög til þróunarsamvinnu aukin um 900 millj. kr

Áhrif breytingartillagna Samfylkingarinnar eru rúmlega 23 milljarða kr. og yrðu að fullu fjármagnaðar með annarri forgangsröðun í skattamálum. Með því að falla frá 1%-stigs lækkun tekjuskatts hefði ríkissjóður um 14 milljarða króna meira á milli handanna á ári. Þá kostar fyrirhuguð niðurfelling bankaskattsins 7,3 milljarða og afnám samsköttunar færir ríkinu um 2,7 milljarð króna. Hér er því að ræða um samanlagt 24 milljarða króna sem gætu fjármagnað ofangreindar breytingartillögur.