Ræða Loga á flokkstjórnarfundi
Kæru félagar.
Við höfum öll mismunandi sýn á lífið og það gerir tilveruna margslungna, fjölbreytta og dásamlega.
Hins vegar lita aðstæður, hvers og eins, frásögnina og það finnst því miður allt of margt fólk sem býr við svo slæmar aðstæður að myndin sem það dregur upp verður óhjákvæmlega dökk, og því finnst ekkert benda til þess að hún muni breytast.
Ástæðurnar geta verið margar – fátækt – sjúkdómar – fordómar. Við eigum erindi við þetta fólk.
Eitt af því sem gerir mannkynið eins öflugt og raun ber vitni, er hæfileikinn til að segja flóknar sögur – aðrar og stærri en þær sem felast í staðreyndum hversdagsins og deila þeim hvert með öðru.
Við getum sagt sögur um tækni sem er ekki til staðar – samfélög sem finnast ekki enn þá – teiknað upp drauma sem heilla milljónir um allan heim.
Fólk af mismunandi þjóðerni, stéttum, trúarbrögðum – sem aldrei hefur hist – og mun líklega aldrei gera það, finnst það eiga eitthvað sameiginlegt og er tilbúið til að vinna að sama markmiði.
Við deilum t.d. þeirri sannfæringu, með hundruðum milljóna, að jafnaðarstefnan geti skapað mannkyninu betri og friðsælli framtíð – ekki fyrir suma heldur alla.
Við vitum vel að draumurinn raungerist ekki á stuttum tíma, með einni aðgerð, í einu landi. Það krefst þvert á móti þrotlausrar vinnu, samstöðu og stöðugs endurmats í síbreytilegum heimi.
Við þurfum að hafa skýra áætlun um hvað þarf til að gera hann að veruleika. – Annars verður draumurinn ekkert annað en örlítil friðþæging, sem yljar okkur í brauðstritinu.
Þó við séum auðvitað ósköp smá í alþjóðlegu samhengi, gegnir Samfylkingin mikilvægu hlutverki í þessari alþjóðlegu hreyfingu.
Nærtækasta verkefnið er auðvitað að tryggja jafnari og betri lífsskilyrði hér á landi en við þurfum líka að vera virkir samherjar í alþjóðlegri baráttu gegn stærstu ógnum samtímans: Ójöfnuði – ófriði og loftlagsvánni.
Samfylkingin er ekki hreyfing sem sprettur upp vegna tilfallandi aðstæðna eða dægurmála sem verða umdeils í samtímanum en gufar fljótt upp.
Við erum hluti af meira en 100 ára fjöldahreyfingu sem berst fyrir því að allt fólk búi við ásættanleg lífsskilyrði, geti lifað með reisn og erum sífellt að þróa verkfæri í þeirri baráttu.
Um leið og við erum þakklát þeim sem undan okkur voru og unnu áfangasigra, höldum við sem erum nú á vettvangi, baráttunni áfram. Og jafnvel þó okkur finnist stundum miða of hægt og við náum ekki öllum markmiðum, er góð tilfinning að vita að nýjar kynslóðir munu taka við og færa okkur nær markinu.
Þess vegna eigum við aldrei að láta glepjast af stundarhagsmunum, fara út af sporinu, ganga gegn grunngildum vegna mála sem eru einungis til þess fallin að skapa flokknum stundarávinning í kosningum.
Samfylkingin mun á endanum uppskera ef hún víkur ekki af leið umburðarlyndis, frelsis og samhjálpar.
Við eigum nefnilega skapalón sem við getum alltaf notað við ákvarðanatöku: Mun ákvörðunin gagnast þeim sem höllum fæti standa; hjálpar hún börnum, stuðlar hún að meiri jöfnuði, gagnast hún komandi kynslóðum – og ef svarið er já er ákvörðun oftast auðveld.
Kæru félagar,
Fyrir 10 árum ríkti hér hálfgert neyðarástand, eftir að bankarnir hrundu. Afleiðingar þess eru okkur öllum ljósar og enn hafa ekki allir jafnað sig á þeim.
Það var þungt og erfitt verkefni að koma landinu í skjól, m.a. með erfiðum ákvörðunum sem Samfylkingin þurfti að taka í ríkisstjórn en reyndust afgerandi.
Vissulega snérist vinna ríkisstjórnar Jóhönnu fyrst og fremst um að verja almenning; að bjarga því sem bjargað varð en þó einnig leggja grunninn að efnahagsbata, sem nú hefur skilað sér í fordæmalitlu hagvaxtarskeiði undanfarin ár.
Ýmislegt lagðist auðvitað með okkur og aðrir flokkar eiga líka sinn þátt. Makríllinn synti inn í lögsöguna og ferðamenn streymdu til landsins sem aldrei fyrr. Síðast en ekki síst var það þó æðruleysi og fórn almennings sem kom okkur í gegnum þessa erfiðu tíma.
Þótt miklu hafi verið áorkað náðum við ekki að klára stór mál – við gengum ekki í Evrópusambandið og tókum ekki upp stöðugri gjaldmiðil – náðum ekki að koma á fiskveiðistjórnunarkerfi sem skilar þjóðinni réttmætum arði og við búum enn við úrelta stjórnarskrá.
Allt eru þetta mál sem eru enn mikilvæg og við munum berjast fyrir áfram.
Allir stærstu sigrar jafnaðarmann hafa líka krafist þrotlausrar baráttu í langan tíma og í stjórnmálum er þolinmæði vanmetin dyggð.
Ágætu félagar
Nú þegar þjóðarskútan er komin á réttan kjöl, skiptir miklu máli að það sé tekinn nýr kúrs og stefnan sett á samfélag sóknar og jöfnuðar. Átök íslenskra stjórnmála næstu árin munu snúast um hvert skal halda.
Samfylkingin hefur skýra sýn á hvað þarf að gera og hefur allt aðra hugmynd um það en höfuðandstæðingur okkar á hægri vængnum. Þess vegna er mikilvægt að við náum vopnum okkar og verðum nægilega stór til að mynda félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar.
Auðvitað væri þó best að við kæmumst í stjórnarráðið strax á morgun – það bíða nefnilega mikilvæg verkefni.
Við þurfum að Koma á réttlátari skattbyrði til að draga úr vaxandi ójöfnuði og bæta þannig stöðu aldraðra, öryrkja og almenns launafólks og beita til þess klassískum aðferðum jafnaðarmanna.
Vinna að upptöku Evru, eins og meirihluti Íslendinga vill, samkvæmt nýjustu könnunum, – með aðild að Evrópusambandinu.
Með stöðugri gjaldmiðli gætu fjölskyldur sparað sér tugi þúsunda í hverjum mánuði og notið sambærilegra lífskjara og íbúar hinna Norðurlandanna. Fyrirtækin, ekki síst á sviði nýsköpunar, fengju öruggara rekstrarumhverfi.
Rétta hlut unga fólksins sem er að hefja sín fyrstu búskaparár og eignast börn. Þessi hópur verið skilinn eftir á hagvaxtarskeiði síðustu ára. Þau hafa ekki notið ávinning þess og eru læst inni á ómanneskjulegum húsnæðismarkaði; geta ekki keypt og varla leigt.
Þetta er þó kynslóðin sem mun bera uppi íslenskt samfélag næstu áratugi og það er afgerandi að við búum betur að þeim ef við eigum yfir höfuð að geta vænst þess að þau hafi áhuga eða möguleika á að búa og starfa hér.
Og ég sleppi ekki að nefna að sjálfsögðu myndum við tafarlaust ráðast í aðgerðir til að stöðva nýðingsskap sem viðgengst á vinnumarkaðnum. – Ekki síst gegn erlendu fólki, sem hingað kemur til að bæta lífskjör sín og skilar auk þess ómetanlegu framlagi til lífskjara okkar.
Kæru félagar, hér hafa alltof margir verið skyldir eftir og ekki notið góðæris síðustu ára.
Samfylkingin tekur því einarða afstöðu með launafólki sem býr sig nú undir harða kjarabaráttu í vetur. Hún ætti ekki að koma neinum á óvart – á meðan við sem erum hálaunafólk höfum fengið miklar launahækkanir er fólkið með verstu kjörin enn að bíða.
Ríkisstjórninn segir ekkert svigrúm handa fólki sem hefur ekki efni á mat ef bíllinn bilar – getur ekki sent börnin sín í tómstundastarf – þarf að neyta sér um læknisþjónustu eða veit varla hvar það mun búa eftir örfáa mánuði.
Hér búa 50.000 manns á ómannskjulegum leigumarkaði og þúsundir barna líða skort. Það er ósköp skiljanlegt að krafa launþegahreyfingana sé jafnari kjör.
Kæru félagar, við verðum líka að horfa enn lengra fram í tímann – nokkra áratugi.
Samfélag okkar er að taka stakkaskiptum og mannkynið stendur frammi fyrir foræmalitlum samfélagsbreytingum. Þjóðin er að eldast og sífellt færri munu þurfa að standa undir aukinni verðmætasköpun. Gríðarlegar tækniframfarir og sjálfvirkni munu kollvarpa öllu hinu daglega lífi eins og við þekkjum í dag.
Við munum ekki geta staðið gegn þeim og verðum að finna leiðir nýta þær okkur í hag – og það gætu þær vissulega gert.
– Þær gætu aukið framleiðni, sem er nauðsynleg til að takast á við lýðfræðilegar breytingar.
– Gert okkur kleift að framleiða vistvænni vörur sem er forsenda þess að við getum tekist á við loftlagsvandann.
– Skapað okkur betri og fjölskylduvænni lífsskilyrði og minnkað ójöfnuð milli fólks.
Verði ekki brugðist markvisst við þessum breytingum gætu stærstu áskoranir mannkyns orðið óviðráðanlegar – leitt til hruns siðmenningarinnar og stefnt öllu lífi á jörðinni eins og við þekkjum það í voða.
Samfylkingin mun þess vegna taka fullan þátt í vinnu nýrrar framtíðarnefndar þingsins, sem ætlað er að draga upp nokkrar sviðsmyndir af Íslandi næstu áratugina. – En við munum jafnframt móta eins róttækar aðgerðir og þörf er á til að tryggja ávinning af þeim.
Þrennt þurfum við t.d. örugglega að gera.
Í fyrsta lagi: Til þess að vinna gegn hlýnun jarðar, sem ógnar lífi á jörðinni, verður að fara leið jafnaðarmanna en ekki leið hægri aflanna. Þau trúa að markaðurinn muni leysa þetta af sjálfum sér en við vitum að skýr lög, reglur og grænir hvatar, sett af stjórnvöldum eru nauðsynleg forsenda umhverfisverndar sem dugar í þessari baráttu.
Í öðru lagi verðum við að fjárfesta miklu meira í menntun ef lífskjör hér á landi eiga að standast samanburð við þau lönd sem við berum okkur saman við – við höfum ekki efni á því að bíða.
Í framtíðinni þarf nýsköpun að verða lykilþáttur í öllum atvinnugreinum og mikilvægt að við ölum upp sem flesta einstaklinga sem geta horft á hlutina úr nýjum og óvæntum áttum.
Eiginleikar eins og frumkvæði og skapandi, djörf hugsun verða afgerandi og þess vegna þarf að þróa skóla sem laða fram og styrkja þessa þætti nemenda. – Leggja enn meiri áherslu á raun- og tæknigreinar, menningar- og listnám.
Öflugur stuðningur við nýsköpun er bæði nauðsynlegur til að halda samkeppnishæfi gagnvart öðrum þjóðum en ekki síður til að skapa möguleika breyttara atvinnulíf í stað þess að treysta um of á einhæft atvinnulíf og stór fyrirtæki.
Það er hvorki skynsamlegt til að því að treysta byggðir landsins eða tryggja stöðugt efnahagslíf, eins og dæmin sanna því miður alltof vel.
Í þriðja lagi þurfum við strax að endurhugsa skattkerfið með tilliti til þeirra miklu breytinga sem fyrirsjáanlegar eru á vinnumarkaðnum.
Þegar mörg fyrirtæki munu geta framleitt vörur með færri vinnandi höndum, mun núverandi fyrirkomulag þar sem hver vinnustund er skattlögð, ekki duga.
Horfa verður til þess hvort greiða eigi skatt af róbótum, framleiðslueiningum eða finna aðrar leiðir. Við getum a.m.k. ekki látið allan ávinning nýrrar tækni renna til eigenda fjármagnsins og framleiðslutækjanna. – Það yki ójöfnuð og rýrði getu stjórnvalda til að tryggja öfluga velferð fyrir alla.
Sífellt fleiri viðurkenndar alþjóðlegar rannsóknir sýna að samfélögum, þar sem jöfnuður er mikill, vegnar betur. Þau eru friðsamari, fjölbreyttari og samkeppnishæfari – þessvegna eigum við mikið starf fyrir höndum!
Fleira þarf auðvitað að koma til en umfram allt verðum við að hætta að sitja alltaf föst í viðbrögðum; berja sífellt í brestina eins og aðkoma þingsins að laxeldismálinu sýndi kannski glögglega
Það gildir ekki síður um viðbrögð vegna úrelts landbúnaðarkerfis, gallaðrar stjórnarskrár, byggðaröskunar vegna sölu á kvóta eða kostnaði af óstöðugum gjaldmiðli sem launafólk í landinu þarf ævinlega að bera.
Við þurfum þvert á móti að vera opin, djörf og þora að gera róttækar grundvallarbreytingar.
Þá gildir að vera framsækin ekki íhaldssöm og umfram allt taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni.
Abraham Lincoln sagði að besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina væri að skapa hana – og við þurfum að hafa kjark til þess.
Kæru félagar,
það er yndislegt að vera staddur á jafn fjölmennum flokkstjórnarfundi, þar sem línurnar eru lagðar.
Samfylkingin er á blússandi siglingu – við náðum prýðilegu kjöri í kosningunum í vor og stýrum mörgum öflugum sveitarfélögum. Landsflokkurinn mælist nú næst stærsti flokkur landsins og við stefnum hiklaust að því að að verða enn stærri og öflugri.
Orðið mannauður kemur auðvitað fyrst upp í hugann þegar maður lítur yfir salinn.
Þið hafið verið ódrepandi – í grasrótarstarfi – í sveitarstjórnum – á Alþingi – í kaffitímum í vinnunni – að tala fyrir jafnaðarstefnunni og mikilvægi Samfylkingarinnar.
Það var kannski ekki svo auðvelt eða sjálfgefið þegar gekk sem verst.
En það er í mótvindi sem best kemur í ljós úr hverju fólk er gert og þið sýnduð sannarlega úr hverju þið eruð.
Rekstur stjórnmálaflokks er ekki einungis vettvangur pólitískrar deiglu og málefnavinnu, þó það skipti auðvitað mestu máli – það þarf líka að reka fjöldahreyfingu sem starfar um allt land.
Án ykkar hefði skrifstofunni á Hallveigarstíg að öllum líkindum verið lokað eftir kosningarnar 2016 og starfið koðnað niður.
Það voru framlög hins almenna flokksmanns sem héldu dyrunum opnum – og auðvitað Gerða sem var um tíð ekki bara skrifstofustjóri heldur í raun framkvæmdarstjóri og skúraði auk þess gólf þegar segja þurfti upp ræstingarþjónustu, vegna peningaleysis.
Sóknarátak flokksins hefur skilað 17 milljónum auk þess sem kjörnir fulltrúar Samfylkingarinnar hafa líka lagt mikið fé að mörkum. Samkvæmt ný samþykktum ársreikningi er rekstrarviðsnúningur félagsins um 60 milljónir króna og reksturinn á öruggu róli.
Nú erum við auk þess búin að ráða öflugt starfsfólk og ekkert því til fyrirstöðu að sækja óhikað fram.
Þetta er ykkur að þakka kæru félagar og fyrir það er ég þakklátur!
En mest af öllu er ég þakklátur fyrir að þið gáfust ekki upp á að trúa því að Samfylkingin væri réttur vettvangur til að elta drauminn – um betri heim fyrir alla.
Og að lokum; kærar þakkir fyrir að vera svona helvíti skemmtileg – það skiptir líka heilmiklu máli.