Forgangsröðum til framtíðar

Ríkisstjórnin tekur skref aftur á bak með breytingartillögum við eigið fjárlagafrumvarp. Það tryggir hvorki félagslegan né efnahagslegan stöðugleika og vanrækir félagslega innviði. Ekki er heldur ráðist í nauðsynlega tekjuöflun til að tryggja grunnþætti velferðarkerfisins.

Nú sjáum við fram á niðursveiflu og þeir fyrstu sem fá að finna fyrir henni eru þeir sömu og sátu eftir í uppsveiflunni; öryrkjar, ungt fólk og fjölskyldur með lágar- eða meðaltekjur. Á toppi hagsveiflunnar hefði átt að fjárfesta verulega í grunnstoðum eins og heilbrigðiskerfi og samgöngum og ráðast gegn vaxandi eignaójöfnuði.

Samfylkingin leggur fram 17 breytingartillögur við frumvarpið upp á rúma 24 milljarða kr., en þær eru að öllu leyti fjármagnaðar. Samfylkingin gerir auk þess ráð fyrir meiri afgangi á ríkissjóði á næsta ári heldur en ríkisstjórnin. Mikilvægt er að vernda velferðarkerfið gegn kólnun hagkerfisins.

Í aðdraganda kjarasamninganna hefur fátt verið rætt meira en nauðsyn stórátaks í húsnæðismálum og því leggur Samfylkingin til að stofnframlög til almennra íbúða verði aukin (2 makr.) og vaxtabætur sömuleiðis (2 makr.). Ríkisstjórnarflokkarnir lækka aftur á móti húsnæðisstuðning milli umræðna. Samfylkingin leggur auk þess til að barnabætur hækki umtalsvert (2 makr.).

Öflugt heilbrigðiskerfi er það málefni sem sameinar alla landsmenn. Samfylkingin leggur  til að auka framlög verulega til hjúkrunarheimila (1 makr.) til að komast hjá niðurskurði. Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eru í brýnni fjárþörf en það er algerlega litið framhjá þeim í frumvarpinu. Því leggur Samfylkingin til 800 mkr. viðbót til heilbrigðisstofnana. Samfylkingin leggur einnig til aukna fjármuni til sjúkrahúsa (2 makr.) og sérstakar 150 mkr. til SÁÁ.

Samfylkingin leggur til 4 milljarða aukningu til öryrkja en fulltrúar ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefnd hafa ákveðið að lækka framlög til öryrkja um rúman milljarð frá því að frumvarpið var kynnt í haust.

 Samfylkingin leggur auk þess til aukna fjármuni í málefni aldraðra (4 makr), almenna löggæslu (800 mkr.), til samgöngumála (2 makr), ásamt auknum framlögum til háskóla og framhaldsskóla sem og Sjónvarpssjóðs (300 mkr). Til að bæta upp fyrir metnaðarleysi stjórnvalda í framlögum til þróunaraðstoðar er lagt til að 400 mkr. renni í neyðarhjálp UNICEF fyrir börn í Jemen.

 Í fjárlagafrumvarpinu eru enn vannýtt tekjuúrræði s.s. hækkun fjármagnstekjuskatts, álagning tekjutengds auðlegðarskatts, auknar tekjur af erlendum ferðamönnum, hækkun kolefnisgjalds og aukin auðlindagjöld en veiðileyfagjöld eiga að lækka um 3 milljarða milli ára samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar. Með breyttri forgangsröðun í skattamálum væri hægt að fjármagna ofangreindar breytingartillögur. Samfylkingin leggur til að gistináttagjald renni til sveitarfélaga og að lagður verði á sykurskattur upp á milljarð.

 

Breytingartillögur Samfylkingarinnar um aukin framlög:

 1. Stofnframlög til almennra íbúða (málefnasvið 31 Húsnæðisstuðningur) 2 milljarðar króna.
 2. Barnabætur (málefnasvið 29 Fjölskyldusvið) 2 milljarðar króna.
 3. Vaxtabætur (málefnasvið 31 Húsnæðisstuðningur) 2 milljarðar króna.
 4. Öryrkjar (málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks) 4 milljarðar króna.
 5. Aldraðir (málefnasvið 28 Málefni aldraða) 4 milljarða króna.
 6. Háskólar (málefnasvið 21 Háskólastig) 1 milljarð króna.
 7. Framhaldsskólar (málefnasvið 20 Framhaldsskólastig) 400 milljónir króna.
 8. Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri (málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta) 2 milljarðar króna.
 9. Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni með almenna sjúkrahúsþjónustu (málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta) 800 milljónir króna.
 10. Hjúkrunarheimili (málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta) 1 milljarð króna.
 11. Samgöngur (málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál) 2 milljarðar króna.
 12. SÁÁ (málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta) 150 milljónor króna.
 13. Sjónvarpssjóður sem heyrir undir Kvikmyndamiðstöð Íslands (málefnasvið 18 Menning) 300 milljónir króna.
 14. Þróunarsamvinna (málefnasvið 4 Utanríkismál) 400 milljónir króna og sú aukning renni til neyðarhjálpar UNICEF fyrir börn í Jemen.
 15. Löggæsla (málefnasvið 9 Almanna- og réttaröryggi) 800 milljónir króna.
 16. Gistináttagjald renni til sveitarfélaga, 1,3 milljarðar króna.
 17. Sykurskattur (vörugjöld á sykur og sætuefni) verði lagður á en það mun færa ríkissjóði um 1 milljarð króna.