Jómfrúarrræða Bjarts Aðalbjörnssonar

Bjartur Aðalbjörnsson settist á þing í fyrsta skipti í vikunni í stað Loga Einarssonar og hélt jómfrúarræðu sína í dag. Ræðan hans fjallaði um skattkerfið og hvernig hægt er að nýta það til að gefa öllum jöfn tækifæri.  Bjartur ætlar að láta til sín taka inn á þingi og ætlar að beita sér fyrir raforkuöryggi á landsbyggðinni, húsnæðismálum og sanngjarnara skattkerfi.

Bjartur er 24 ára Vopnfirðingur sem hefur undanfarin ár starfað við kennslu í Vopnafjarðarskóla. Þrátt fyrir ungan aldur er Bjartur ekki alveg blautur á bak við eyrun þegar að kemur að stjórnmálastarfi en hann hefur látið til sín taka í sveitastjórnarmálum í Vopnafirði. Í sveitarstjórnarkosningum í vor var Bjartur yngsti oddviti lista á landinu og tryggði Samfylkingunni tvo menn í sveitarstjórn á Vopnafirði, þá aðeins 23 ára gamall. Í sveitarstjórn hefur hann barist fyrir aukinni áherslu á framtíðarsýn, fyrir uppbyggingu húsnæðis og gagnrýnt eignasöfnun auðmanna á jörðum í landinu.

Hérna má sjá ræðu Bjarts:

Virðulegi forseti.

Stefna Samfylkingarinnar er skýr um jöfn tækifæri allra.

Samneysla að fyrirmynd jafnaðarmanna þar sem gæðunum er dreift þannig að öllum sé tryggt lífsviðurværi er leiðin.En angar frjálshyggjunnar hafa á undanförnum áratugum grafið undan þessari samneyslu. Samfélagið hefur í auknum mæli verið sniðið að þeim sem meira eiga. Vasar þeirra ríku dýpka og þeir sem ekki vita aura sinna tal koma auðnum fyrir í buxnavösum afskekktra eyríkja, til þess eins að komast hjá sinni ábyrgð í samneyslunni.

Samkvæmt nýrri skýrslu Oxfam eiga 26 ríkustu einstaklingar heims jafn mikinn auð og fátækari helmingur heimsbyggðarinnar. Til að koma í veg fyrir frekari misskiptingu auðs hér á landi þarf að breyta skattkerfinu og byggja það upp öllum til hagsældar.

Árið 2016 runnu 60 milljarðar fjármagnstekna til 330 einstaklinga. Sá tekjuhæsti í þessum hópi þénaði 3 milljarða í fjármagnstekjum. Það tæki lágtekjumann mörghundruð ár að vinna sér inn þessa upphæð. Stefna stjórnvalda á ekki að greiða leið þeirra ríku til að verða ríkari á kostnað þeirra fátæku. Háar tekjur á að skattleggja á réttlátan hátt.

Fjalldalaregla John Rawls rammar þetta ágætlega inn. Þorsteinn Gylfason orðaði hana svona, með leyfi forseta:

‘’Fjöll mega ekki vera hærri né tignari en þarf til þess að dalirnir séu sem blómlegastir og byggilegastir.’’

Virðulegi forseti. Í nýrri skýrslu Oxfam segir að ríkasta fólkið í heiminum og fyrirtæki þess séu beinlínis undirskattlögð; það á við á Íslandi. Hér er fjármagnstekjuskattur lægstur af Norðurlöndunum, aðeins 22% – miklu lægri en tekjuskattur einstaklinga. Bæði Oxfam og OECD tala fyrir hærri fjármagnstekjuskatti til að jafna samfélagið. Og einnig eignaskatti, svipuðum auðlegðarskattinum, sem skilaði þegar mest lét 10 milljörðum í ríkissjóð. Tækifæri til skattlagningar á þá sem mest eiga eru allt í kringum okkur.

Við jafnaðarmenn lítum á skattkerfið sem tekjujöfnunarkerfi þar sem þeir greiða mest sem eiga mest. Skref til vinstri er rétta skrefið – skref í átt að félagshyggju.