Ályktanir á flokksstjórnarfundi
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fór fram á laugardaginn á Bifröst, um 150 jafnaðarmenn af öllu landinu tóku þátt í fundinum. Flokksfélagar voru virkir í undirbúningi flokksstjórnarfundar og fyrir fundinn lágu 11 ályktanir. Fjórar ályktanir voru samþykktar og sjö vísað til málefnanefndar eða stjórnar flokksins.
Tillögur sem hlutu samþykki:
„Nýjustu rannsóknir í loftslagsmálum sýna að næstu fimm til tíu ár skipta öllu máli fyrir mannkynið. Á þessum árum mun ráðast hvort við náum að stemma stigu við hlýnun jarðar eða fást við skelfilegar afleiðingar. Flokksstjórn Samfylkingarinnar krefst þess að stjórnvöld ráðist í metnaðarfyllri aðgerðir gegn hlýnun jarðar og tekur undir kröfu ungmenna um allan heim að 2,5% af þjóðarframleiðslu renni beint í slíkar aðgerðir. Flokksstjórn telur ennfremur nauðsynlegt að hækka kolefnisgjaldið og felur þingflokki Samfylkingarinnar að leggja fram frumvarp þess efnis. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál reiknast til að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári, til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5 gráður. Evrópusambandið áætlar að 25% af fjármagni stofnunarinnar verði varið í loftslagsmál til ársins 2027.“
Ályktun 11.1. Störf án staðsetningar
„Það er réttlætismál að fólk eigi kost á að sinna ríkisstörfum þótt það búi á landsbyggðinni og það er einnig réttlætismál að fólk geti valið sér búsetu á landsbyggðinni þótt það vinni hjá ríkinu. Þann 1. Janúar 2018 bjuggu 64% þjóðarinnar á höfuðborgarsvæðinu en þar eru um 70% ríkisstarfa staðsett. Hér hallar því á landsbyggðina. Flokksstjórn Samfylkingarinnar ályktar að opinber störf á vegum ríkisins skuli ávallt vera án staðsetningar, nema aðstæður krefjist annars.“
„Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fagnar 25 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem var mikið heillaskref fyrir Íslendinga. Vissulega gefur samningurinn Íslendingum ekki færi á að hafa umtalsverð áhrif á stofnanir, löggjöf og þróun Evrópusambandsins. Slíkt fæst ekki nema með fullri aðild að Evrópusambandinu. Í ljósi hinnar góðu reynslu af samstarfinu innan EES telur Samfylkingin að mikilvægt sé að það skref sé stigið sem fyrst svo Íslendingar öðlist áhrif á þróun evrópsks samfélags til jafns við þorra annarra Evrópubúa“
„Samfylkingin mun því næst þegar hún er í ríkisstjórn hækka framlög Íslands til þróunarsamvinnu til jafns við það sem gerist á öðrum Norðurlöndunum eða í kringum 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT). Árið 2017 námu framlögin 0,31% af VÞT og stefna núverandi ríkisstjórnarinnar um að hækka framlögin upp í 0,35 lýsir í raun metnaðarleysi að mati Samfylkingarinnar. Á þessum sviðum eru tröllauknar áskoranir. Því er lágmarkskrafa að ríkt land á borð við Ísland geri sitt ítrasta í þessum efnum og að því mun Samfylkingin vinna, hvort sem hún er í stjórn eða stjórnarandstöðu.“
Eftirfarandi ályktanir var vísað til stjórnar eða málefnanefndar sem taka ályktun til meðferðar:
Ályktun 6.1. Tekjutengd sektarupphæð
Ályktun 10.1. Árskort frádráttarbær