Íhaldssöm fjármálastefna ógnar stöðugleika

Efnahagslegar forsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar eru brostnar áður en hún kemur til umræðu á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur komið þjóðarbúinu í spennitreyju sem mun bitna á ungu fólki, fólki með lágar- og millitekjur, öryrkjum, eldri borgurum og á þeim sem þurfa helst á þjónustu ríkisins að halda. Forsendur áætlunarinnar eru óraunsæjar og augljóst er að bregðast verður við með niðurskurði eða tekjuöflun vegna þeirrar fjármálastefnu sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett sér. Fjármálaráð, ASÍ og fleiri hafa gagnrýnt stefnuna harðlega.

Í ljósi kólnunar í hagkerfinu setur ríkið fram 2% aðhaldskröfu á flest málefnasvið hins opinbera, það bætist ofan á óumflýjanlegan niðurskurð ef kjarasamningar ríkisstarfsmanna leiða til meira en 0,5% launahækkana umfram verðlag.

Fjármálaráðherra hefur sagt að ef hagvöxtur verði minni en forsendur fjármálaáætlunar gera ráð fyrir, sjái hann enga aðra möguleika en að skera niður á útgjaldahliðinni. Óvissa í flugrekstri, loðnubrestur og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar geta orðið til þess að niðursveiflan dýpki enn frekar. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við niðursveiflu í hagkerfinu er birtingarmynd óábyrgrar hægri stefnu og mun bitna á þeim sem síst skildi. 

Samfylkingin telur að breyta ætti fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar svo að svigrúm skapist til að minnka skaða niðursveiflunnar. Þannig væri hægt að liðka fyrir kjarasamningum með skattkerfisbreytingum, fjárfestingum í innviðum til að létta undir með verst stöddu hópunum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum og tryggja velferðina í landinu. Það er í niðursveiflunni sem fjármálastefna ríkisstjórnarinnar fer að bíta. Þá reynir á viðbrögð stjórnvalda. Hvort þau hafa hag þeirra sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda fremstan eða hvort draumur Sjálfstæðismanna um minni ríkisumsvif og aukinn einkarekstur í velferðarþjónustu fáist uppfylltur í gegnum þrengingar þjóðarinnar.

Fjármálaætlunin vinnur hvorki gegn ójöfnuði né tryggir hún stöðugleika. Á næstu vikum munu þingmenn rýna áætlunina frekar, lesa þær umsagnir sem berast og ræða hana á Alþingi. Samfylkingin mun leggja fram breytingartillögur fyrir afgreiðslu fjármálaáætlunarinnar. 

Helsta gagnrýni Samfylkingarinnar:

 • Viðbótaraðhaldskröfu á ráðuneytin er laumað inn í fjármálaáætlun þannig að ef launabætur ríkisstarfsmanna á árunum 2020-2022 verði hærri en  0,5% umfram verðlag þá þurfa ráðuneyti að skera niður fyrir þeim kostnaði. Þetta gætu orðið verulegar upphæðir t.d. innan  heilbrigðisráðuneytis og menntamálaráðuneytis.
 • Stóru kvennastéttirnar eiga skv. áætlun ekki að hækka umfram 3,8% í launum á milli áranna 2019 og 2020 en ef svo verður þá þurfi þeir sem njóta þjónustu þeirra að bera kostnaðinn með skertri þjónustu eða kvennastéttirnar með auknu álagi.
 • Enn eru tekjustofnar ríkissjóðs veiktir. Á síðastliðnum uppgangsárum hafa tekjustofnar ríkisins markvisst verið veiktir með afnámi auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og neysluskatta ásamt því að stjórnvöld sóttu ekki tekjur til ferðaþjónustunnar á meðan vel áraði.
 • Framlög í húsnæðisstuðning munu lækka næstu fimm árin.
 • Ríkisstjórnin sýnir ekki nægilega mikinn metnað í loftslagsmálum, bregðast verður hraðar við því neyðarástandi sem blasir við okkur.
 • Framlög í menningar- og æskulýðsmál munu lækka næstu fimm árin.
 • Útgjöld til háskólastigsins lækka úr 46,8 milljörðum niður í 43,2 milljarða.
 • Engin áform eru um frekari umbætur á barnabótakerfinu og áfram er markmið stjórnvalda að barnabótakerfið sé eins konar fátækrastyrkur í stað almenns stuðnings við barnafjölskyldur. Í ár fá 13.000 færri fjölskyldur barnabætur en árið 2013.
 • Afnám kr. móti kr. skerðinga öryrkja er ófjármagnað. Lífeyrir hjá fólki í sambúð nær ekki lágmarkslaunum.
 • Fram koma í áætluninni óljósar og loðnar áætlanir hins opinbera til að auka svigrúm til fjárfestinga í innviðum. Þar er gefið í skyn að það eigi að selja bankana og hluti ríkisins í fyrirtækjum til að fjármagna innviðauppbyggingu án þess að það sé útfært frekar.
 • Skerða á framlög til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, um þrjá milljarða. Hlutverk jöfnunarsjóðs er að fjármagna hluta af þjónustu við fatlað fólk og nauðsynlega þjónustu sveitarfélaga sem búa við veikan fjárhag.