Ræða Loga á Flokksstjórnarfundi

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar á Bifröst

Ræða formanns

 

Lífið er dásamlega flókið og samfélag mannanna hefur þróast út frá staðháttum og gjöfum jarðar. Með mögnuðu hugviti höfum við snúið mörgu af því sem áður voru ógnir í tækifæri – en þessi ofurfærni hefur þó leitt til  þess að við ofbeitum jörðina. Örlög lífs á jörðinni mun ráðast af því hvort   við snúum taflinu við. Þetta er megin verkefni stjórnmála dagsins.

Stundum freistast fólk til að útskýra lífið á einfaldan, grípandi hátt. Þannig hafði sögupersónan Forrest Gump eftir mömmu sinni að lífið væri eins og konfektkassi – þú vissir aldrei hvað þú fengir.

En þó líf einstaklingsins sé að einhverju leiti háð duttlungum tilverunnar höfum við þróað samfélög sem eiga að skapa þeim sem fá síðri mola,  tækifæri. Smæð Íslands, fólksfæð og nálægðin, knýr á að við vinnum saman, hjálpum hvert öðru – við megum ekki una ógæfu einstaklings og horfa bara á heildina.

En ef fólk hefur einhverja þörf fyrir einfalda myndlíkingu sem lýsir gangverki samfélagsins, mundi ég segja að það líktist reiðhjólaferð.

Til að halda góðu jafnvægi þarftu að vera á hæfilegri ferð – Of mikill hraði veldur því að þú missir stjórn, ef það hægir of á þér verður erfiðara að halda jafnvægi og stoppirðu – missirðu jafnvægið og dettur.

Sé ekki nægilegt loft í dekkjunum er ill mögulegt að taka af stað og mikið erfiðara að komast á áfangastað.

Ég freistast til þess teikna upp þessa myndlíkingu því helsti hægri stjórnmálaflokkur landsins talar gjarnan um stöðugleika og jafnvægi.

Við þurfum hins vegar ekki jafnvægi Sjálfstæðisflokksins sem byggir á því að örfáir sitja öðru megin á vegasaltinu, með þorra gæðanna en allur almennings heldur jafnvægi hinum megin.

Þá byggir stöðugleiki flokksins á íhaldssemi og kyrrstöðu. Og stöðnuðum samfélögum vegnar ekki vel til lengdar.

 

Við þurfum framþróun og sókn sem byggir á almennri þáttöku fólks og hún næst ekki nema allir búi við sómasamleg lífskjör. Fyrir utan mannvirðinguna sem í því felst hefur fámennt samfélag ekki efni á öðru en veita öllum  tækifæri á að þroska styrkleika sína og örva þá til þess. Annað er ótrúleg    sóun verðmæta.

Ástæða þess að börn sem alast upp á efnameiri heimilum eru líklegri til að vera með háar tekjur síðar á ævinni og skýringin á því að færri konur sitja í stjórn fyrirtækja hefur ekkert með upplag einstaklingsins að gera, heldur samfélagsgerð sem byggir ekki á nægjanlega miklu jafnrétti og réttlæti.

Þó staðreyndin sé ef til vill sú að við fæðumst með merkilega þróaðan persónuleika ræður umbúnaðurinn fram á fullorðinsár hvernig við náum að spila úr honum.

____________________________________________________ Núverandi ríkisstjórn gefur ekki góð fyrirheit um gifturíkt ferðalag.

Kjörtímabilið er ekki hálfnað og við stöndum andspænis flókinni vinnudeilu

og erfiðri stöðu efnahagsmála.

Stöðugur vinnumarkaður endurspeglast í stórum og smáum  fyrirtækjum, sem búa við öruggt rekstrarumhverfi, heilbrigða samkeppni og geta borgað starfsfólki góð laun.

Fólk á lægri tekjum naut síður efnahagsbata síðustu ára, ekki síst vegna þess að stjórnvöld grófu ýmist kerfisbundið undan velferðarkerfinu og innviðum eða létu hvort tveggja drabbast niður með vanrækslu, í góðæri.

Flestir íbúar hafa sem betur fer gott, a.m.k. bærilegt en hér er þó fjöldi fólks sem líður skort, lifir í sífelldum kvíða, nær ekki að veita börnum sínum   sömu lífsjör og skólafélögunum. Einstaklingar sem eru villtir í frumskógi kerfisins eða hafa leiðst út í fikniefnaneyslu. Hér búa ungmenni sem hafa enga stefnu, hafa steitt á vegg og íhuga eða taka jafnvel eigið líf. Það er komið tími til að forgangsraða í þágu allra þessa – það er skynsamleg og siðleg fjárfesting.

Talsmenn launþegahreyfingarinnar og reyndar einnig atvinnulífsins hafa margsinnis bent á að það er fleira en launahækkanir sem tryggja góð lífsskilyrði: Réttlátt skattkerfi, almennari barna- og húsnæðisbætur,

 

gjaldfrjáls almannaþjónusta en ekki síst öruggur húsnæðismarkaður. Þetta er samhljóða hugmyndafræði Samfylkingarinnar sem margoft hefur lagt fram tlillögur í þessa átt.

Í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum vöktum við sérstaka athygli á því að næstu ríkisstjórn yrði að mynda um almenna lífskjarasókn – ella skapaðist erfið staða á vinnumarkaði. Það er nú komið á daginn. – Vinstri-græn og Framsókn völdu aðra samstarfsaðila og því situr ríkisstjórn Sjálftstæðisflokksins undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

Samfylkingin hefur veitt ríkisstjórninni stíft aðhald og lagt áherslu á almennar lífkjarabætur.

Tillögur um – málefni ungs fólks, húsnæðismál, framlög til háskóla, nýsköpunar og rannsókna, lengra fæðingarorlof, bætta heilbrigðis- og geðheilbrigðisþjónustu, réttindi aldraða, öryrkja, hinsegin fólks og innflytjenda, umhverfisvernd og sjálfbærni. Ásamt fjölbreyttum skattatillögum sem miðar að því að jafna byrðar.

Lítið hefur verið gert með þær og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur meira segja gortað sig af að hafa fellt þær allar – kannski með velþóknun VG.

Staðreyndin er sú að byrðar lág- og meðaltekjufólks á Íslandi hafa aukist  meira en í samanburðarlöndum okkar og langt umfram skatta á hæstu launin. Nýlegt skattaútspil ríkisstjórnarinnar ber þess skýr merki að ekki eru áform  um að ráðast gegn þeim órétti.

Skattabreyting sem skilar ráðherra sömu krónutölu og þernu  á  hóteli  var blaut tuska í andlitið á launafólki. Sem var fylgt eftir með kaldri gusu þegar í ljós kom að frysta ætti persónuafslátt samhliða, sem gera skattalækkunina líklega að engu. Millitekjuhópunum var gefið langt nef og skerðast  barnabætur þeirra skarpar en áður og vaxtabótakerfið er nánast sagnfræði.

Með veikari krónu, hærri vöxtum og verðlagi gæti almenningur á endanum staðið uppi með kjararýrnun.

 

Það væri freistandi að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um en hægri stefnan virðist dafna ágætlega undir verndarvæng gamla góða Framsóknarflokksins og forsæti Vinstri-grænna. Sú harka sem nú er á vinnumarkaði er í boði ríkisstjórnar sem neitar að horfast í augu við það að hér búa hópar fólks; bótaþegar, lág- og meðaltekjufólk, námsmenn, við aðstæður sem ekki eru bjóðandi í ríku landi.

 

Afleiðingar vanrækslu síðustu ára hefur leitt til félagslegs óstöðugleika og fullkomin afneitun núverandi ríkisstjórnar gæti hugsanlega leitt til þess að atvinnulífið taki allan skellinn til að brúa það sem ríkisstjórnin hefur hunsað.

 

Það er óforskammað að stilla hlutunum þannig upp að launafólk kalli hamfarir yfir samfélagið, með því að beita verkföllum. Ábyrgð á slæmri stöðu láglaunafólks liggur annars staðar – m.a. hjá stjórnvöldum sem hafa leyft ójöfnuði að grassera og holað að innan velferðarkerfið.

 

Í umræðum við varaformann Sjálfstæðisflokksins sagði ég að fólk lifði ekki   í meðaltölum; hún svaraði að það borðaði heldur ekki háa vexti og  verðbætur. Það er sannarlega rétt en í orðunum felst bein hótun í garð láglaunafólks – haldið ykkur á mottunni!.

 

Ráðherra hefði verið nær að beita sér fyrir endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins, sem flokkur hennar lagði niður, auka aftur barna- og vaxtarbætur, sem flokkur hennar lækkaði, setja aftur á hátekju- og auðlegðarskatt, sem flokkur hennar aflagði. – Búa þannig um hnútana að fólk hefði ekki þurft tugprósenta hækkun launa.

 

Varaformaðurinn mætti líka horfa til leiðar út úr íslensku hávaxtaumhverfi með stöðugri mynt í stað þess að stunda eilífar hrossa og smáskammtalækningar.

 

Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn leikur lausum hala í efnahaglífinu er svo beinlínis raunarlegt að horfa á Vinstri græn kyngja hverju málinu á fætur öðru, sem þau áður töluðu gegn:

 

Áframhaldandi hvalveiðum, Grimmari útlendingastefnu Rýmri rétt til hatursorðræðu

Óréttlátu skattkerfi.

Það sem stjórnarflokkarnir hafa þó verið samstíga um er íhalds- og afturhaldsemi. – Varðstöðu um krónuna og gamaldags atvinnupólitík.

 

Ég hélt í einfeldni minni að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn væru eðlisólíkir flokkar en líklega hef ég haft fullkomlega rangt fyrir mér. Og leiðtogi sósíalista sem dásamar skattbreytingu sem færir forstjóranum sömu krónutölu og þernu, vegna þess að þernan hafi fengið hlutfallslega meira, hefur líklega villst talsvert af leið. Forsætisráðherra, til upplýsingar kostar  dós af grænum baunum jafn þernuna jafnmikið og forstjórann – en reyndar hlutfallslega meira af kaupinu hennar.

Við þurfum nýja forystu sem áttar sig á því að sómasamleg lífskjör allra er forsenda þeirrar sóknar sem íslenskt samfélag verður að  ráðast  í  til  að tryggja samkeppnishæfi þjóðarinnar á tímum miklla breytinga. En hefur jafnframt framsýni til að fjárfesta í þeim þáttum sem eru líklegastar eru til að skila okkur þangað.

——————————————–

Samkvæmt nýjustu spám mun stór hluti allra starfa hverfa á næstu áratugum og önnur ný verða til. Þetta mun leiða til meiri framleiðni, gæti minnkað vistspor og dregið úr fátækt – ef vel er á spilum haldið. En getur líka leitt til hörmunga ef auðurinn fær óheftur að safnast hjá fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum – ójöfnuður aukist og samneyslan veikist.

 

Við getum og eigum ekki að reyna að stöðva þróun tækninnar en það þarf kjark og framsýni til þes að tryggja að hún verði til góðs og nýtist heildinni.

 

Besti undirbúningur okkar undir slíka framtíð er fjárfesting í menntun

 

Við verðum að tryggja öllum jöfn tækifæri til menntunar og ungu fólki það góð skilyrði að því finnist eftirsóknarvert að sækja sér menntun; áhugavert og raunhæft að starfa hér í framtíðinni og ala upp börnin sín. Sú staðreynd  að það sé nánast óhugsandi að stunda hér nám án þess að eiga efnaða foreldra eða vinna með námi sýnir að eitthvað stórkostlegt er að. Það að meira en helmingur íslenskra nemenda á Norðurlöndunum velji nú að taka lán í námslandinu er áfellisdómur yfir LÍN.

 

Í betur fjármögnuðum skólum þurfum við að laða fram og styrkja eiginleika eins og hugmyndaflug, sköpunarkraft og frumkvæði. Leggja aukna áherslu á raun- og tæknigreinar en líka listir og menningu. Og á tímum örra tækniframfara þar sem siðvitið dregst sífellt aftur úr tækninni verður að   leggja meiri áherslu á almenn gildi.

 

Framsýn stjórnvöld stuðla að jöfnum tækifærum fólks í atvinnulífinu. Við munum ekki geta staðið undir betra velferðarkerfi samfara breytingu á aldurssamsetningu þjóðarinnar nema með kröftugum fyrirtækjum, með mikla framleiðni, sem eru drifin áfram af áræðnum, framtakssömum og hugvitssömum einstaklingum. Það þarf því að stuðla að heilbrigðri samkeppni; auka fjölbreytni, eyða fákeppni og hvetja til aukinnar umhverfisvitundar.

 

Stundum er talað eins og atvinnulífið sé ein skepna, en staðreyndin er sú að meginþorri allra fyrirtækja eru lítil og meðalsmá. Rekin af harðduglegu fólki sem stjórnast af athafnaþrá, hugmyndaauðgi og  oft  af  hugsjónum  fyrir faginu og nærsamfélaginu. Það verður að auðvelda starfsemi þeirra með því

t.d. að lagfæra regluverk, hvetja og aðstoða þau við nýsköpun.

 

Þá ættum  við   að byggja enn meir hugviti í stað einfaldrar framleiðslu. Það  er líklegt til að byggja upp atvinnulíf sem rís undir hærri launum. Við höfum sýnt að t.d. á sviði vísinda, gervigreindar, hönnunar og lista getum við náð langt og skapað mikil verðmæti.

 

Einföld yfirlýsing um þetta væri að afnema þak á endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði strax! – Þessu þarf svo að fylgja eftir með markvissri áætlun um upptöku stöðugri myntar – fátt mundi búa atvinnulífi framtíðar öruggari skilyrði.

 

 

En þó við verðum að byggja meira á hugviti og tækni megum við ekki vanrækja hefðbundnar framleiðslugreinar og í þessu tvennu felst aldeilis engin mótsögn.

 

Það er einmitt gleðilegt hvað sjávarútvegurinn hefur náð að margfalda verðmætasköpun með nýtingu tækni. – Bætt aðbúnað og öryggi starfsfólks og mörg hver nokkuð framsækin í umhverfismálum.

 

Við deilum ekki við forsvarsmenn greinarinnar um mikilvægi sjávarútvegs og viljum tryggja henni stöðugan rekstrargrundvöll, en við erum ósammála þeim um hvernig stjórn greinarinnar er best háttað. Við viljum virða jafnræðissjónarmið, mikilvægi nýliðunar og teljum rétt að greinin sjálf ákvarði gjald til þjóðarinnar, með samkeppni sín á milli. Þannig fær þjóðin sanngjarnan arð af takmarkaðri auðlind, sem er í eigu hennar. Þetta tryggir öruggan rekstrargrundvöll, greinin kemur með ábyrgum hætti að uppbyggingu samfélagsins og nær meiri sátt við þjóðina.

 

Landbúnaður hefur átt erfiðar uppdráttar. Þessi mikilvæga atvinnugrein skapar þúsundir starfa um allt land, er órofinn hluti menningar okkar og sér okkur fyrir nauðsynlegum matvælum. Landbúnaður hefur auk þess burði til þess að verða öflugur bandamaður í loftlagsmálum.

 

Það er því mikilvægt að þessi grein geti dafnað en til þess þurfa fleiri sem í henni starfa að svara kalli tímans. Nýjar neysluvenjur, tíðarandi og lífsýn fólks kalla á sífellda vöruþróun og framleiðsluhætti sem styðja þau.

Auðvitað skiptir máli að neytendur njóti fyllsta öryggis og viti um gæði og uppruna vöru en það verður að ætlast til þess að hræðsluáróður sé ekki notaður til að reisa viðskiptamúra, jafnvel þvert á hagsmuni neytenda.

Grænmetis- og ostaframleiður hafa sýnt að bændur geta og kunna að bregðast við innflutningi með gæðum og fjölbreyttari valkostum.

 

Samfylkingin vill styðja ríkulega við þróun greinarinnar en leggur áherslu á að stuðningur taki í auknum mæli mið af umhverfisþáttum, búsetu, menningu, nýsköpun og vöruþróun sem drifin er áfram af heiðarlegri samkeppni. Bændur þurfa svo líka að fá sómasamleg laun fyrir vinnu sína, það fá þeir ekki í núverandi kerfi.

 

Vel menntað og ánægt starfsfólk er besta tryggingin fyrir góðu rekstrarhæfi fyrirtækja framtíðarinnar ásamt stöðugleika sem fylgir stærri gjaldmiðli.

Forsenda stuðnings stjórnvalda við atvinnugreinar verður svo að byggja á virðingu þeirra fyrir umhverfinu og þau leggi sitt af mörkum við að koma okkur úr þeirri hrikalegu stöðu lífríkisins, sem rányrkja og subbuskapur og ofneysla mannsins hefur komið okkur í.

 

Ungt fólk hefur undanfarna föstudaga minnt á þessa stöðu Austurvelli og krefjast markvissari aðgerða gegn hnattrænni hlýnun. Í gær var fyrsta alþjóðlega loftslagsverkfallið haldið og milljónir ungmenna  í  hundrað löndum slepptu skólabókunum og streymdu út á göturnar. Ungt fólk er orðið þreytt á töfum, jafnvel afneitun stjórnvalda, um allan heim og hefur ákveðið að taka málin í sínar hendur.

 

Nýjustu rannsóknir í loftslagsmálum sýna að hlýnun  jarðar er miklu hraðari  en áður var talið og afleiðingar hennar alvarlegri. Næstu fimm til tíu ár verða afgerandi fyrir mannkynið. Ef við snúum ekki við blaðinu horfumst við í   augu við hamfarir á innan við tuttugu árum. Staðreyndin er sú að á hverju ári er ágengni okkar gagnvart náttúrunni meiri en árið á undan. Við erum ekki eingöngu að ávísa vandamálunum á barnabörnin okkar, ef ekkert er að gert, ekki bara á börnin okkar heldur marga hér inni.

Ábyrgðin er okkar, það þýðir ekki að benda á arfleifð fortíðarinnar – það eru aðgerðirnar – eða aðgerðarleysið – núna sem verða afgerandi.

Íslendingar losa tvöfalt meira af gróðurhúsalofttegundum en aðrir Evrópubúar. Tvöfalt. Fjórtán tonn á hvern íbúa á ári, aðgerðir þurfa því að vera róttækar.

Við þurfum víðtækan grænan samfélagssáttmála sem felur í sér gjörbreytta hegðun og stefnu í umhverfismálum. Stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar þurfa að koma sér saman um rótttækar aðgerðir. Samfylkingin mun leggja fram tillögur að slíku sem byggja á samráði við helstu fræði- og vísindamenn, atvinnulífið, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga. Við getum einnig byggt á fyrri vinnu okkar góðu félaga, s.s. Fagra Ísland og Græna hagkerfið.

Aðgerðaráætlun núverandi stjórnvalda í  loftslagsmálum  er  nauðsynlegt fyrsta skref – en hún gengur allt of skammt. Samkvæmt henni náum við ekki einu sinni að uppfylla markmið Parísarsáttmálans innan tímamarka.

Orkuskipti einkabílsins er nauðsynleg en ekki lausn á öllu eins og stundum kann að virðast á umræðunni. Við þurfum að venja okkur við að nota hann minna, búa nær hvert öðru, búa minna og neyta minna. Samhliða framlagi einstaklingsins þarf að samþætta aðgerðir alla stefnumótun – ekki bara hjá hinu opinbera heldur í einkageiranum líka.

 

Það krefst fjárfestinga og fórna. En með slíku samkomulagi getum við skapað betri störf í nýju,og grænna hagkerfi. Lítum því á þetta sem sóknarfæri til að blása nýju, fersku lífi í atvinnulífið.

Semjum um breytingar á skattkerfinu, samgöngumálum, húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu allt með sjálfbærni í huga. Eflum rannsóknir og nýsköpun til muna, virkjum hugvitið og verðum fyrirmyndir í baráttunni gegn hlýnun jarðar á alþjóðavettvangi. Við  getum  þetta  en þurfum bara að þora og vilja.

——————————————————————–

Baráttan gegn hlýnun jarðar hefst heldur ekki nema með nánari alþjóðlegrar samvinnu.

Það eru til þeir sem telja að veröldin snúist eingöngu um eigin túnfót og telja að hægt sé að verja hagsmuni sína, sjálfsákvörðunarrétt og fullveldið með    því að reisa bara hærri girðingar umhverfis  hann.  Samfylkingin  telur  að slíkir hagsmunir verði best tryggðir í miklu meira samstarfi við aðrar þjóðir.

 

Og ég er orðin hundleiður á því að stundum virðist öll umræða um fjölþjóða samvinnu snúast um beinhörð viðskipti. Hvað ég fæ útúr þessu. Bestu samningarnir eru þó þeir sem allir aðila hagnast á. Gott dæmi um slíkt er   EES samningurinn sem hefur skilað okkur mikilli hagsæld –Ég er   sannfærður um að upptaka Evru með góðum inngöngusamningi við Evrópusambandið yrði enn eitt gæfuspor í sögu þjóðarinnar.

 

Alþjóðleg samvinna verður þó líka að hvíla á félagslegum, heimspekilegum og menningarlegum grunni. Við eigum að binda trúss okkar við þjóðir sem standa fyrir gildum eins og virðingu og samhjálp og ábyrgð og vinna með þeim að betri heimi. Við getum ekki horft upp á neikvæða þróun þar sem sífellt er þrengt að viðkvæmum hópum sem hingað leita. Gleymum heldur ekki að þeir 38.000 útlendingar sem hér vinna léku lykilhlutverk við að   koma Íslandi aftur á lappir eftir hrun.

 

Við megum ekki leyfa ótta, hatri og jafnvel ofbeldi að grassera. Íslendingum sem ríkri þjóð ber siðferðileg skylda til að taka vel á móti fólki sem hingað leitar út af neyð – og gleymum því ekki að það er ekki svo langt síðan að við vorum í sömu stöðu. Þá þurfum við að hækka framlög til þróunarsamvinnu.

 

Íslendingar eru nefnilega ekki eyland, jafnvel þó Íslands sé eyland.

 

——————————————————————–

Það kann að virka nokkuð bratt að segja, nú þegar blikur eru í lofti í efnahagsmálum, að við ætlum að koma landinu á meiri hreyfingu. En með því að virkja þá þætti sem eru forsenda þess, getum við það. Ég nefni: Sómasamleg laun, jafnrétti, menntun, nýsköpun, stöðugri gjaldmiðill og aukin samskipti við útlönd.

Í næstu kosningum mun valið standa á milli stefnu sem byggir á íhaldssemi og stöðugleika hinnar óbreyttu skiptingar gæða eða framsækni, frumkvæði og stöðugleika sem byggir á jafnara samfélagi þar sem allir hafa betri tækifæri.

Leið Samfylkingarinnar er að byggja  upp  samkeppnishæft velferðarþjóðfélag að norrænni fyrirmynd. Þar sem umhverfi barnafólks er hagfellt, fæðingarorlof lengra, húsnæðismarkaður stöðugri og matarkarfan ódýrari. Þar sem jöfn tækifæri eru til náms og mannauður og hugvit samfélagsins nýtist sem best í grænu hagkerfi. Þar sem barist er gegn hvers konar mismunun, þátttaka og velferð innflytjenda er tryggð og tekið er vel á móti fólki á flótta. – Áskorarnir eru miklar og það er ekki hægt að mæta    þeim öllum á stuttum tíma. En við fyrsta skrefið er að snúa skútunni frá  hægri og taka nýjan réttari kúrs.

Við lifum á tímum þar sem stjórnmálafólk verður að vera hugrakkt, með  skýra framtíðarsýn en líka vera meðvitað um dagleg vandamál fólks. Ég finn til mikillar ábyrgðar, því ég veit að væntingarnar eru miklar til okkar í Samfylkingunni. En ég er líka sannfærður um að við getum risið undir þeim.

 

Við ætlum okkur að vera stór flokkur sem rúmar alls konar fólk með fjölbreyttan bakrunn og skoðanir, enda byggi þær á jafnaðarhugsjóninni.

Hreyfiafl flokksins á alltaf að vera bætt velferð og jöfn tækifæri fyri alla. Temjum okkur framsýni, frjálslyndi, samábyrgð – leitum af svörum við vandamálum samtímans sem leiða til réttlátara og gróskumeira samfélags í framtíðinni.

 

Traustir sameiginlegir innviðir eru uppistaðan að sterku og léttu stelli,

Velmenntuð þjóð sem býr við sómasamleg kjör tryggir nægt loft í dekkin,

Kraftmikið atvinnulíf, byggt nýsköpun, drífur áfram grænan, umhverfisvænan hjólhestinn,

og á hnakknum, með stöðugar hendur á stýri, situr ábyrgur jafnaðarflokkur.