Samfylkingin leggur fram Grænan samfélagssáttmála
Á næstu fimm til tíu árum mun ráðast hvort hægt verður að stemma stigu við frekari loftslagsbreytingum eða fást við skelfilegar afleiðingar þeirra. Þótt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sé ágætt fyrsta skref í þeirri baráttu gengur hún of skammt og of litlu fjármagni er þar varið í loftslagsaðgerðir. Ísland getur orðið fyrirmynd annarra þjóða í loftslagsmálum – og því hefur Samfylkingin lagt fram þingsályktunartillögu um grænan samfélagssáttmála sem tekur til allra sviða þjóðlífs. Meginþráðurinn í allri stefnumótun sáttmálans verður sjálfbær þróun – að Ísland verði grænt land með hringrásarhagkerfi. Í sáttmálanum felst:
- Grundvallarstefnumótun sem mun krefjast breytinga á samfélagsskipan til framtíðar, en í því felast bæði áskoranir og tækifæri.
- Samráð við almenning, vísinda- og fræðasamfélagið og atvinnulífið strax frá upphafi sem hefst á sérstökum þjóðfundi um Græna Ísland. Komið verði á fót sérstökum samráðsvettvangi og samtakamátturinn þannig virkjaður til að gera Ísland að sjálfbærri þjóð með grænt hagkerfi.
- Endurskoðun og útvíkkun aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og fjármálaáætlun með það að markmiði að aðgerðir hins opinbera byggi á sjálfbærri þróun (í nýtingu auðlinda og allri umgengni við náttúruna, við opinberar fjárfestingar og framkvæmdir og lagasetningu).
- Tekin verði upp umhverfistengd hagstjórn og fjárlagagerð.
- Tekin verði markviss skref í átt að því að 2,5% af vergri landsframleiðslu renni í aðgerðir stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfismálum líkt og Milliríkjanefnd SÞ um loftslagsmál telur nauðsynlegt.
- Stefnt sé að því að íslenskt hagkerfi verði raunverulegt hringrásarhagkerfi þar sem öll framleiðsla er hugsuð með hringrás efna í huga.
- Markaðnum sé stýrt með hagrænum hvötum og kröfum, framleiðsluferlum breytt og stuðlað að vitundarvakningu neytenda.
- Breytingar verði gerðar á skattkerfinu, í samgöngumálum, húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
- Aðgerðum við orkuskipti í vegasamgöngum verði flýtt, nýskráningar bensín- og dísilbíla bannaðar fyrr en áætlað er og uppbyggingu hraðað á nauðsynlegum samgönguinnviðum til að gera þéttbýli og borgarumhverfi vistvænna.
- Dregið verði verulega úr útstreymi frá stóriðju og kolefnisgjald hækkað
- Grænar rannsóknir og nýsköpun efldar
- Lagaumgjörð mótuð um hvað teljist græn og sjálfbær fjárfesting.
- Lífeyrissjóðir og aðrir stærri fjárfestingarsjóðir skuldbindi sig til að fjárfestingar þeirra standist markmið Parísarsáttmálans.
- Íslenskt hagkerfi byggist í auknum mæli á hugviti til að skapa verðmæti – og í því augnamiði verði menntun aukin og nýsköpun efld.
Hérna er tillagan í heild: https://www.althingi.is/altext/149/s/1534.html