Fjárfestum í framtíðinni og verjum velferðina

Samfylkingin lagði í dag fram 10 breytingatillögur við fjármálaáætlun sem taka til sérhvers árs í áætluninni.

Samfylkingin telur að ríkisstjórnin taki skref aftur á bak með breytingartillögum við eigin fjármálaáætlun. Ríkisstjórnin ætlar að láta þá hópa sem sátu eftir í uppsveiflunni taka höggið af niðursveiflunni; öryrkja, námsmenn, aldraða og fjölskyldur með lágar- eða meðaltekjur.

Breytingar á fjármálastefnu er alvarlegur áfellisdómur yfir hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Stefnan átti að duga í fimm ár en hún lifði í rétt um eitt ár. Fjármálaráð hefur bent á veikleika í hagstjórn stjórnvalda og skort á vönduðu verklagi. Samfylkingin hefur sömuleiðis varað við óábyrgri hagstjórn og gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að gera ráð fyrir 14 ára samfleytum hagvexti og óbreyttu gengi næstu fimm ár við áætlanagerð.

Samfylkingin leggur því fram 10 breytingartillögur við fjármálaætlun sem taka til sérhvers árs í áætluninni. Í ljósi þess að Samfylkingin er ekki í ríkisstjórn og leggur því ekki fram fullmótaða fjármálaáætlun er ekki um að ræða tæmandi upptalningu á þeim breytingum og aðgerðum sem hún myndi annars leggja fram í 5.000 milljarða kr. fjármálaáætlun.

A. Fjárfestum í framtíðinni:

Ein helsta gagnrýni sem Samfylkingin hefur haft uppi um ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er skortur á framtíðarsýn. Til að íslenskt framtíðarsamfélag verði farsælt verður að horfa lengra fram í tímann en næsta kjörtímabil og fjárfesta í menntun, nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum, og setja mun meira fjármagn í baráttuna gegn hamfarahlýnun.

 1. Framlag til loftslagsmála hækki um 8 milljarða kr.Áhersla lögð á grænar fjárfestingar og uppbyggingu umhverfisvænna innviða sem verkar sem innspýting í niðursveiflu.

Hægt er að fjármagna þessa breytingu að mestu leyti með því að fresta lækkun bankaskatts. Um væri að ræða tvöföldun á fjármunum ríkisstjórnarinnar í aðgerðaráætlun í loftslagsmálum.

 1. Framlag til framhaldsskóla aukist um 1 milljarð kr.

Samfylkingin leggur til að fyrirhuguð lækkun á framlögum til framhaldsskóla verði dregin til baka og settir verði viðbótarfjármunir til skólanna og fjárfestinga þeim tengdum.

 1. Framlag til háskóla aukist um 1 milljarð kr.
 2. Framlag til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um 1 milljarð kr.

Samfylkingin leggur til að fyrirhuguð lækkun á framlögum til nýsköpunar verði dregin til baka og fjárfest verði aukalega í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum.

 1. Framlög til húsnæðisstuðnings aukist um 2,5 milljarða kr.

Hér er lagt til að dregin verði til baka fyrirhuguð lækkun ríkisstjórnarinnar til málaflokksins.

B. Verjum velferðina

Samfylkingin hefur lagt áherslu á að verja velferðina á tímum niðursveiflu í hagkerfinu og hlífa þeim hópum sem hafa setið eftir á hagsældarskeiðinu. Ríkisstjórnin leggur aftur á móti til að framlög til öryrkja taki mestum breytingum milli umræðna, eða um 4,5 milljarða króna. Samfylkingin vill draga þá skerðingu til baka og bæta í, ásamt því að verja sjúkrahúsþjónustuna, aldraða og barnafólk.

 1. Framlag til öryrkja aukist um 5 milljarða króna.

Samfylkingin leggur til að dregin verði til baka sú 4,5 milljarða kr. lækkun á 5 árum sem kemur fram í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar og ríflega 4 milljörðum verði bætt við. Það væri tvöföldun á því sem ríkisstjórnin segist ætla að gera.

 1. Framlag til aldraðra aukist um 1 milljarð kr.
 1. Framlög til fæðingarorlofs hækki um 400 m. kr.

Hér er lagt til að tvöfalda það fjármagn sem rennur til fæðingarstyrks sem rennur til fólks utan vinnumarkaðar og/eða í námi

 1. Framlög til barnabóta aukist um 1 milljarð kr.
 2.  Framlög til sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu aukist um 1,8 milljarða kr.

Tekjuúrræði til að mæta auknum útgjöldum upp á 23 milljarða kr.:

Samfylkingin leggur til nokkrar hugmyndir um auknar tekjur fyrir ríkisvaldið. Áhersla er lögð á að hlífa almenningi og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í landinu í niðursveiflunni, en sækja tekjur til útgerðarinnar, stórfyrirtækja og auðmanna.

 1. Auðlindagjöld: Hækkun um 3 milljarða kr.

Veiðileyfagjöld verði aftur jafn há og fyrir lækkun ríkisstjórnarflokkanna

 1. Fjármagnstekjuskattur: Hækkun um 3 milljarða kr. með 2%-stiga hækkun

Fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndum og yrði það áfram eftir 2%-stiga hækkun.

 1.  Tekjutengdur auðlegðarskattur: 3 milljarðar kr.

Þegar auðlegðarskatturinn var hæstur var hann tæpir 11 milljarðar kr. og því væri um að ræða tæplegan fjórðung af því sem hann var.

 1. Kolefnisgjald: Hækkun um 1 milljarð kr.

Tvöföld hækkun frá því sem ríkisstjórn gerði síðast.

 1. Skattaeftirlit: 5 milljarðar kr.
 2. Frestun á lækkun bankaskatts: 8 milljarðar kr.

 

Helstu gagnrýnisatriði Samfylkingarinnar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

 1. Húsnæðisstuðningur lækkar um 13% næstu fimm árin þrátt fyrir mikinn vanda á húsnæðismarkaði.
 2.   Nýsköpun og rannsóknir fá tæpa 3,2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin, frá því sem eldri tillaga að fjármálaáætlun hafði gert ráð fyrir í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar.
 3.   Umhverfismálin lækka um 1 milljarð kr. samanlagt næstu 5 árin frá því sem hafði verið tilkynnt í fjármálaáætluninni í breytingartillögunum við hana.
 4.   Framlag til framhaldsskóla eykst ekki næstu 5 árin þrátt fyrir hina margboðuðu menntasókn og hin mörgu loforð um að styttingarpeningarnir svokölluðu ættu að haldast inni. Í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar fá framhaldsskólar 1,2 milljarð kr. lægri upphæð samanlagt næstu 5 árin miðað við framlagða fjármálaáætlun frá því í mars sl.
 5.   Háskólastigið án framlaga LÍN mun fá svipaða upphæð 2024 og það fær 2019, þrátt fyrir háfleyg loforð um að það ætti að ná meðaltali Norðurlanda og OECD ríkja.
 6.   Menning, listir, íþróttir- og æskulýðsmál lækka á áætlunartímanum um 7,6% þrátt fyrir augljóst gildi þessa málaflokks.
 7. Löggæsla og réttaröryggi lækkar um 7,7% þrátt fyrir mikla aukningu á ferðamönnum og flóknari verkefnum löggæslunnar.
 8.  Sjúkrahúsþjónusta hækkar í hlutfalli við hækkun á heildarútgjöldum ríkisins næstu fimm árin. Þetta gerist þrátt fyrir ört hækkandi hlutfall aldraðra og mikinn vilja þjóðarinnar til þess að setja stóraukna fjármuni í sjúkrahúsþjónustu. Hins vegar fær sjúkrahúsþjónusta um 2 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin í breytingartillögunum, frá því sem hafði verið lagt fram í áætluninni. Framlög til heilsugæslu og sérfræðiþjónustu lækkar um 1,5 milljarða næstu 5 árin, frá eldri tillögu fjármálaáætlunar í meðförum meirihluta fjárlaganefndar.
 9. Þá lækka fjárframlög til öryrkja næstu 5 árin samanlagt um 4,5 milljarða frá því sem hafði þegar verið kynnt þegar fjármálaáætlunin var fyrst lögð fram, fyrir rúmum 2 mánuðum. Öryrkjabandalag Íslands segir að þessi fjármálaáætlun ríkisstjórnarflokkanna sé „algjörlega óásættanleg og mun engu breyta um kjör fólks sem búið hefur við verulegan skort árum saman“. Þá segir ÖBÍ að öryrkjar séu einnig skildir eftir í svokölluðum lífskjarasamningum.
 10. Aldraðir fá fyrst og fremst aukningu næstu fimm árin vegna fjölgunar í þeim hópi.
 11. Framlög til hjúkrunarþjónustu þ.e. hjúkrunarheimili lækkar næstu 5 árin um 3,3% þrátt fyrir mikla fjölgun á eldri borgurum.
 12. Skerðingar á barnabótum hjá millitekjuhópum hafa verið auknar og ennþá lendir þorri barnafólks í miklum skerðingum barnabóta.
 13. Engin sérstök innspýting er í vaxtabæturnar. Núgildandi fjárlög gera ráð fyrir minni fjármunum í vaxtabætur heldur en áætlað var á síðasta ári.
 14. Samgöngumál lækka um 17% næstu fimm árin þrátt fyrir mikla þörf um allt land. Það vekur athygli að samgöngumál í breytingartillögunum 3 milljarð kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem áætlunin gerði fyrst ráð fyrir.
 15. Þróunarsamvinna lækkar í meðförum fjárlaganefndar frá því sem tilkynnt hafði verið fyrir rúmum 2 mánuðum og nemur lækkunin um 1,8 milljarð samanlagt næstu fimm árin.
 16. Skattastefna hinna ríku og fáu er staðfest í fjármálaáætluninni. Enn stendur til að lækka bankaskattinn um tæpa 8 milljarða kr. á ári þegar lækkunin er komin að fullu til framkvæmda. Tekjutap ríkissjóðs á 4 árum verður yfir 18 milljarðar vegna þessarar forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar. Þá stendur enn til að hafa lægsta fjármagnstekjuskatt á Íslandi af öllum Norðurlöndum og jafnvel vernda ríkustu einstaklinga landsins fyrir verðbólgu með breyttu fyrirkomulagi á þeim skatti. Persónuafsláttur verður ennþá lægri en tilefni er til og veiðileyfagjaldið nálgast tóbaksgjaldið í upphæðum og er auðlegðarskattur bannorð hjá þessari ríkisstjórn.
 1. Forsendur fjármálaáætlunarinnar eru afskaplega óraunhæfar. Til dæmis er gert ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar næstu fimm árin sem mun aldrei gerast. Og þá er byggt á forsendum um að hagkerfið taki strax við sér á næsta ári sem er ansi bjartsýn spá. Einnig er gert ráð fyrir lítilli hækkun launa opinberra starfsmanna og að atvinnuleysi og verðbólga verði frekar lág og breytist ekki mjög mikið.