LÍN í SÍN: Óljóst hvort um er að ræða lán eða ólán

Til að komast að því hvort SÍN verði betra en LÍN er best að spyrja stúdenta. Á þessum orðum hóf Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar og formaður málefnanefndar flokksins um menntamál, opinn fund um hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og fyrirhugaðar breytingar sem nýtt frumvarp um lánasjóðinn felur í sér en meðal annars er stefnt að því að sjóðurinn verði kallaður Stuðningssjóður íslenskra námsmanna (SÍN). Fundurinn var haldinn  í hádeginu á Iðnó 16. september og sköpuðust góðar, gagnrýnar og um leið uppbyggilegar umræður á fundinum. Meðal þeirra sem tóku til máls voru þau: Sigrún Jónsdóttir varaforseti Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS), Þórunn Sveinbjarnadóttir, framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna (BHM), Marínó Örn Ólafsson, lánasjóðsfulltrúi hjá Stúdentaráði Háskóla Íslands (SHÍ) og Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður allsherjar og menntamálanefndar.

Jóhanna fór yfir nokkrar staðreyndir um íslenska háskólanema:

  • Meðalaldur íslenskra háskólanema er rétt tæplega 30 ár – en meðalaldur þátttökulanda Eurostudent eru 25 ár. Ekkert annað Evrópuland er með jafnhátt hlutfall háskólanema yfir þrítugt.
  • Um þriðjungur íslenskra háskólanema á eitt eða fleiri börn. Það er tvöfalt hærra hlutfall en á Norðulöndunum og það hæsta í Evrópu.
  • Rúm 30% íslenskra háskólanema hafa gert hlé á námi vegna fjárhagserfiðleika, samanborið við rúm 15% á Norðurlöndunum.
  • Töluvert fleiri íslenskir háskólanemar búa hjá foreldrum eða ættingjum, eða um 28% á meðan hlutfallið er 8% á Norðurlöndum.
  • 34% íslenskra háskólanema glíma við mikla fjárhagserfiðleika, þótt það sé algengara að nemar vinni með námi hér en annars staðar í Evrópu.
  • Tæp 90% háskólanema eru í vinnu til að eiga fyrir reglulegum útgjöldum og rúm 70% segjast vinna til að hafa efni á háskólanáminu (sem er næsthæst hlutfallið í könnuninni).
  • Hin löndin fimm þar sem meira en þriðjungur háskólanema glímir við mikla fjárhagsörðugleika eru Georgía, Albanía, Slóvenía, Pólland og Írland.
  • 16% íslenskra háskólanema treysta lítið á tekjur frá námslánum eða styrkjum, á meðan tæp 40% gera það á Norðurlöndum.

Hvað segja þessar tölur okkur?

„Í fyrsta lagi að íslenskir háskólanemar eru eldri háskólanemar annars staðar í Evrópu, töluvert margir þeirra eiga börn, alltof stór hluti þeirra glímir við mikla fjárhagserfiðleika – sem koma niður á námsframvindu þeirra – nær allir sem eru í vinnu gera það til að eiga fyrir reglulegum útgjöldum og mjög stór hluti til að hafa efni á háskólanáminu – enda geta þeir ekki treyst á að geta lifað af námslánunum einum,“ sagði Jóhanna og spurði hversu líklegt væri að háskólanemar – sem búa við þessar aðstæður – nái að ljúka grunnnámi á 3 árum?

Könnun sem gerð hafi verið meðal nemenda í einum af stærstu háskólum landsins sýni að tæp 70 prósent háskólanema á Íslandi vinna með námi. Kennarar í þessum sama háskóla haldi því jafnframt fram að of mikil vinna hafi neikvæð áhrif á frammistöðu nemenda og þar af leiðandi námsframvindu þeirra.

Löngu ljóst sé að breyta þurfi umgjörðinni á LÍN en við þær breytingar verði að gæta mjög að félagslegu hlutverki lánasjóðsins og minnir á að í upphafsgrein núverandi laga um LÍN er því slegið föstu að hlutverk sjóðsins sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til að stunda nám án tillits til efnahags.

„Þetta markmið hefur verið tilgangur sjóðsins frá stofnun hans, enda stofnaður af verkalýðshreyfingunni og öðrum erindrekum jafnaðarstefnunnar til að tryggja börnum verkafólks og efnalítilla fjölskyldna rétt til að afla sér háskólamenntunar og auka þannig möguleika sína til að bæta kjör sín.“

Undanfarin ár hafi þetta meginhlutverk og tilgangur sjóðsins átt undir högg að sækja og háskólanemar gagnrýnt framfærsluviðmið sjóðsins harðlega, frítekjumark og fyrirkomulag á útborgun lána, svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt sé sívaxandi krafa stúdenta um að sjóðurinn taki breytingum í átt að norrænu styrkjakerfi – þar sem hluti láns fellur niður við námslok.

Ekki má skapa falskt öryggi

Á fundinum tóku einnig til máls Sigrún Jónsdóttir, varaforseti LÍS, hún sagði margar fyrirhugaðar breytingar, svo sem innleiðing styrkjakerfis, breytt vaxtakjör og framfærsla stúdenta erlendis verði almennt sú sama og stúdenta á Íslandi. Fulltrúar LÍS, í starfshópi um endurskoðun á lögum, hafi haldið því á lofti að leiðarljósið með vinnunni sé að sjóðurinn sé félagslegur jöfnunarsjóður og margt þurfi að hafa í huga til að hann gagnist sem slíkur og viss atriði í frumvarpinu séu varhugaverð og þarfnist frekari skoðunar.

Þannig leiki vafi á orðalagi í 6. málsgrein frumvarpsins sem þurfi að eyða en í henni stendur að heimilt sé að greiða út námslán mánaðarlega. Sagði Sigrún að ólíðandi væri að stúdentar þyrftu að hafa viðskipti við banka til þess að brúa bil fram að afgreiðslu námslána eins og í núverandi kerfi. Þá guldu hún sem og aðrir sem tóku til máls því varhug að nýtt kerfi gerði ráð fyrir því að velja á milli verðtryggðs og óverðtryggðs láns og að vextir skyldu verða breytilegir og byggja á vaxtarkjörum sem ríkisstjóði byðist á markaði að viðbættu föstu verðlagi. Þótt lánakjör hefðu sjaldan verið jafn hagsæð og nú væri fastlega hægt að gera ráð fyrir sveiflum þar á og hætta væri á að tekjulægri stúdentar hefðu ekki tækifæri á að greiða námslánin niður með tekjutengdri afborgun þyrftu að taka á sig þyngri greiðslubyrðar en aðrir. Þá væri aðeins settur varnagli á að ef vaxtarkjör á verðtryggðu láni færi yfir 4% með föstu vaxtaálagi, yrði skipuð þriggja manna nefnd sem færi yfir ástæður þess og myndi leggja til við ráðherra mögulegar útfærslur á breytingum. Sama myndi gilda um óverðtryggða vexti nema hvað viðmiðið væri þá 9%. Sagði hún að LÍS teldi æskilegra að setja þak á vexti. Í núverandi kerfi væru vextir breytilegir en þó aldrei hærri en 3% ársvextir af höfuðstóli skuldarinnar. Sagði hún LÍS leggja til að það ákvæði haldist inni fyrir verðtryggð lán og svipað hámark verði sett fyrir óverðtryggð lán. Einnig væri óljóst til hvað aðgerða fyrirhuguð nefnd gæti gripið til og því gæti ákvæðið skapað falskt öryggi.

Lán eða ólán

Svipuð gagnrýni kom úr ranni BHM. Þórunn Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri bandalagsins, taldi vaxtakjör sjóðsins áhyggjuefni. Breytilegir vextir kynnu að hafa veruleg áhrif á greiðslubyrði lána við erfiðari efnahagslegar aðstæður en nú ríkja og nauðsynlegt væri að hafa þak á vexti bréfanna. BHM hefði lagt til að fyrirfram yrði skilgreint hvernig námsmönnum verði ráðlagt að velja á milli óverðtryggðra og verðtryggðra skuldabréfa, auk vals um tekjutengingu eins og einnig sé gert ráð fyrir og kallaði eftir svörum um í hvaða höndum sú ráðgjöf yrði.

Afdrifarík verkleg kennsla í fjármálalæsi

Í spurningum úr sal á eftir var einnig ljóst að fleiri höfðu áhyggjur af vali stúdenta á milli mismunandi vaxta og hvaða ráðstafanna væri hægt að grípa til vegna óhagstæðra vaxtarskilyrða. Ekki væri hægt að setja stúdenta, sem hefðu mismunandi forsendur til að meta aðstæður við lántöku og aðgang að misgóðri fjármálaráðgjöf í verklega kennslu í fjármálalæsi við upphafi náms eins og nú virtist gert ráð fyrir.

 

Hvatning eða helsi

Marínó Örn Ólafsson, lánasjóðsfulltrúi hjá Stúdentaráði Háskóla Íslands – SHÍ, sagði að nýtt vaxtakerfi hefði í för með sér mikla óvissu fyrir greiðendur. Hann tók fram að ljóst væri að ýmsar breytingar gætu verið námsmönnum í vil og mestu munaði um að 30% láns falli niður ef námi lýkur á tilteknum tíma og skapi þar með mikla hvatningu fyrir nemendur að ljúka námi á tilsettum tíma.

Þar sem mat á kostnaði við ný lög liggi ekki fyrir sé þó ekki ljóst hvort það vegi þyngra en breytingar til hins verra fyrir námsmenn, það er að segja að ekkert fast hámark sé á vöxtum, endurgreiðslur byrji fyrr og séu hærri en áður. Þá gagnrýndi hann að lán fólks sem lýkur námi eftir 35 ára aldur verði alltaf jafngreiðslulán, óháð tekjum. Takmarkanir á tekjutengingu endurgreiðslna gæti þýtt að greiðslubyrði gæti tvöfaldast eða jafnvel þrefaldast fyrir tekjulægstu hópana.

Fjárfestingabanki hugvitsins

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var síðasti ræðumaðurinn. Hann minnti á mikilvægi þess að sjóðurinn væri fyrst og fremst hugsaður sem félagslegt jöfnunartæki og ekki væri hægt að ætla öllum skuldunautum hans að hafa þekkingu á vaxtakjörum auk þess sem aðgangur þeirra að fjárhagslegri ráðgjöf væri mismikil. Minnti hann auk þess á að sjóðurinn væri ekki venjulegt lánafyrirtæki á samkeppnismarkaði heldur mikilvæg eining í samfélaginu — Fjárfestingabanki hugvitsins.