Logi: „Ósamstíga og hugmyndasnauð ríkisstjórn“

Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 11. september 2019.  

Herra forseti.

Hæstvirtur forsætisráðherra vék örfáum orðum að aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þágu jöfnuðar en óþarflega fáum í hitt: Hversu eitrandi áhrif vaxandi eignaójöfnuður hefur á samfélög. Líka íslenskt. Einhverjir freistast kannski til að segja að hér sé allt í sómanum en þá er ekki úr vegi að skoða aðeins stöðuna.

Það má ímynda sér snotra blokk á stórri lóð. Í blokkinni eru 20 íbúðir, af mismunandi stærðum – íbúarnir af öllum gerðum.  Flestir hafa það þokkalegt, einhverjir eru fátækir en ein fjölskyldan forrík og ræður mestu. Það vekur nefnilega athygli að ein íbúðin er jafn stór hinum nítján. Og þó lóðin sé óskipt sameign, nýtir stærsti eigandinn bróðurpart hennar: Þar ræktar hann trufflusveppi og selur. Ágóðann notar hann til að kaupa sífellt stærri hluta eignarinnar, sem hann leigir aftur til íbúanna. Þó blokkin líti vel út að utan er viðhald sameignar lélegt.  T.d. vilja íbúar á neðri hæðum ekki taka þátt í þakviðgerðum og enginn sátt ríkir um hvernig greiða á í hússjóð.

Við getum kallað blokkina þjóðarheimilið.  Allt klippt og skorið á yfirborðinu – gott að meðaltali – en þegar betur er að gáð blasir við heilmikið óréttlæti.

Þó það sé vissulega ánægjulegt að verkalýðshreyfinginn hafi knúið fram skattalækkun á lágar og meðaltekjur er  galið að láta hana ganga upp allan stigann.  Í stað þess að láta ofsaríkt fólk leggja meira af mörkum er gerð aðhaldskrafa á velferðarþjónustuna sem er látin bera uppi niðursveiflu í kólnandi hagkerfi. Tekjulægra fólk sem ekki naut uppgangs síðustu ára gæti lent í meiri erfiðleikum –  en þau  5% prósent landsmanna sem eiga jafnmikið og hin 95% prósentin sigla lygnari sjó.

Kæru landsmenn

Það ætti ekki að skapa einstæðri móður stórkostlegan vanda ef úlpa barnsins týnist,

börn ættu ekki að vera á hrakhólum milli skólahverfa vegna ótryggs leigumarkaðs,

gamalt fólk ætti ekki að þurfa að neita sér um læknisþjónustu vegna auraleysis,

láglaunafólk og öryrkjar ekki að vera matarlitlir hluta af mánuðinum,

ungmenni í neyslu ekki að koma að lokuðum dyrum kerfisins,

börn sem hingað leita á flótta ekki að lifa í nagandi óvissu vegna kaldlyndrar stefnu

og konur ættu auðvitað ekki að fá lægri laun en kallar.

Og! –  efnalítið fólk ætti heldur ekki að þurfa að neita sér um menningu, listir, íþróttir og hluti sem eru ekki aðeins krydd í brauðstritinu, heldur jafn nauðsynlegt manninum og súrefni, svefn og vatn. – Það er líka fátækt herra forseti.

Þetta er nú samt enn staðan á Íslandi.

Forsenda efnahagslegra framfara og góðs samfélags er að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða.

Til þess þurfa þó leikreglurnar að þjóna almannahagsmunum, ekki sérhagsmunum fárra.

Við þurfum nýja stjórnarskrá og þáttöku í fjölþjóðasamstarfi sem getur skilað okkur auknu öryggi, ríkari lífsgæðum, fjölbreyttni og víðari sjóndeildarhring; svo ekki sé talað um stöðugri gjaldmiðil.

Ríkisstjórnin boðar engar grundvallaraðgerðir sem munu breyta núverandi stöðu.  Efnahagsstjórnin er á forsendum Sjálfstæðisflokksins og það mun ekki færa okkur nær velsældarmarkmiðunum sem hæstvirtur forsætisráðherra talaði um hér áðan.

Herra forseti,

Hæstvirtur forsætisráðherra nefndi réttilega neyðarástand vegna hamfarahlýnunnar af mannavöldum – sem bætist við aðrar ógnir mannkyns – ójöfnuð og ófrið. Á tímum þar sem aldrei hefur verið meiri ástæða til samvinnu, veður uppi málflutningur afla sem afneita staðreyndum, grafa undan mannréttindum, ala á ótta og tortryggni, kynda undir ósætti.  Einnig í okkar heimshluta – líka á Íslandi.

Samt treystir ríkisstjórnin sér ekki til að ráðast í aðgerðir í loftlagsmálum sem uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Og í stað þess að boða nánari samvinnu við Evrópuríki – sem leiða aðgerðir gegn hamfarahlýnun – eygja þau frekar tækifæri í samstarfi við stórveldi, með leiðtoga, sem sjá skammtíma ávinning í glundroða.

Þá erum við stödd í miðri stafrænni tæknibyltingu sem er að gjörbreyta allri tilverunni. Störf hverfa, breytast og önnur verða til. Ný tækni unir engum landamærum og við höfum ekkert val um að taka þátt í þessari þróun.

Ný þekking og tækni gætu vissulega leitt til meiri framleiðni, minnkað sótspor og dregið úr fátækt. En tæknin getur líka haft neikvæðar afleiðingar – ef við bregðumst ekki rétt við. Auðurinn gæti þjappast á enn færri hendur, bæði hjá eignafólki innanlands, og hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Tekjur ríkisins því minnkað, þannig að það verði ófært um að standa undir þjónustu, sem tryggir almenningi lífsgæði og öryggi.

Augljósustu viðbrögð okkar væru grundvallarbreytingar á skattkerfinu í þágu jöfnuðar,  stóraukin fjárfesting í menntun og hugviti ásamt stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki. Nýtt fjárlagafrumvarp sýnir að ríkisstjórnin hefur ekki framsýni til þess. – Framlög til menntamála lækka meira að segja!

Hugvit er okkar verðmætasta auðlind og sú eina sem er óþrjótandi. Nýleg umræða um aðra auðlind – orkuna-öskrar á að vilji þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá verði virtur. Og þótt hæstvirtur forsætisráðherra vilji það ef til vill, er rétt að minna á að hún myndaði ríkisstjórn með tveimur flokkum sem börðust hatrammlega gegn nýrri stjórnarskrá fyrir fáeinum árum og óvíst hvort þeim hafi snúis hugur.

Kæru landsmenn

Flatneskjan og hinn lægsti samnefnari eru ekki færar leiðir andspænis risaáskorunum samtímans og að þeim róttæku breytingum sem nauðsynlegar eru.

Eins fallegt og það kann að hljóma að mynda stjórn eftir endilöngu pólitíska litrófinu, dugar slíkt ekki.

Stjórnmálafólk mætir reyndar stundum í viðtöl og og segir að þó flokkar séu ekki alltaf sammála um leiðir séu þeir þó einhuga um markmið.  En fyrir utan það að ósætti um leiðir dragi úr líkum á hnitmiðuðum aðgerðum, þá eru íslenskir stjórnmálaflokkar bara heldur ekki sammála um markmið.

Sumir stjórnmálaflokkar hafa t.d. einfaldlega – hvorki áhuga á – eða áform um – að ráðast gegn ójöfnuði og óréttlæti.

Kæru landsmenn, okkar bíða óvenju flókin viðfangsefni en stundum er þó sagt að snjöllustu lausnirnar verði til við snúnustu aðstæðurnar. Ósamstíga og hugmyndasnauð ríkisstjórn – sem er hvorki sammála um leiðir eða markmið – mun ekki bjóða upp á slíkar lausnir.