Evrópusambandið er Imagine

Hérna má lesa einstaklega fallega ræðu Guðmundar Andra um Evrópusamstarfið sem hann flutti í dag í umræðum um EES skýrsluna. 

 

Virðulegi forseti mig langar að hefja mál mitt hér á því að fara með nokkrar línur úr þekktum sálmi.

Ímyndið ykkur ekkert himnaríki

sem er auðvelt ef maður reynir

ekkert helvíti undir okkur

og yfir okkur einungis himin.

Ímyndið ykkur allt fólkið

láta hverjum degi nægja sína þjáningu

Ímyndið ykkur engin lönd

sem er ekkert erfitt

ekkert til að drepa og deyja fyrir

og engin trúarbrögð heldur

Ímyndið ykkur allt fólkið

búa saman í friði

Virðulegi forseti, þannig hljóða hraðsnarað fyrstu línurnar úr ljóð Johns Lennon, Imagine, þar sem skáldið reynir að leiða efasemdamönnunum og úrtölumönnunum fyrir sjónir að hugsjónirnar um frið og kærleika og samfélag manna séu ekkert endilega óraunhæfari en stríðsæsingar og hatursáróður, og biður þau sem orðin eru kaldrifjuð og neikvæð að gera sér þetta allt bara í hugarlund. Þannig hljóðar Bítlaávarpið. Það er auðvitað leitun á jafn óskáldlegu fyrirbrigði og Evrópusambandinu með allar sínar smásmugulegu reglugerðir og ákvæði, alla sína samviskusamlegu og gersamlega húmorlausu texta sem reynt er að gera eins lítið tvíræða og margræða og hægt er, allt sitt þras um kjötframleiðslu og stærð á skrúfum. Og samt er Evrópusambandið einmitt friðarviðleitni þeirrar kynslóðar sem hreifst af Bítlunum og kærleiksboðskap þeirra og mundi síðustu stóru stríðin í Evrópu á árunum milli 1914 og 1918 og svo 1936 og 1944 – mundi kalda stríðið og kjarnorkuógnina – Evrópusambandið er framlag þeirrar kynslóðar til þess að raungera þær hugsjónir sem John Lennon gerði ódauðlegar í söng sínum: Imagine.

Evrópusambandið er Imagine. Það snýst ekki um að rækta ágreining heldur finna sátt í hverju máli, leita niðurstöðu sem allir geti unað. Það snýst ekki um að standa vörð um rétt hins sterka til ofríkis gagnvart hinum veika heldur um hitt að skapa reglur sem allir verða að lúta jafnt, meira að segja gömul nýlenduveldi; skapa umhverfi þar  allir hafa jafna möguleika til að lifa og starfa í samræmi við hæfileika sína.

Og er Evrópusambandið þá sæludalur, sveitin best? Himnaríki á jörðu? Því fer auðvitað fjarri – slíkir staðir eru aðeins til í hugum okkar og í trúarbrögðunum: Í Evrópusambandinu eru ótal hlutir sem farið hafa aflaga, þar er líka óréttlæti og misrétti, atvinnuleysi og misskipting, og alls konar óáran og erfiðleikar: en þetta samband er engu að síður viðleitni þjóða til að taka höndum saman og vinna saman að sameiginlegum úrlausnarefnum sem blasa við í netvæddum heimi sem þarf að takast á við hamfarahlýnun og áskoranir sem fylgja nýrri tækni á vinnumarkaði, ofvöxt risafyrirtækja sem telja sig yfir þjóðríkin hafin, einokun, offramleiðslu, rányrkju, réttindi vinnandi fólks og neytenda og ótal önnur mál sem ekki verða leyst með því að hinn sterki sitji yfir hlut hins veika.

En eins og annað skáld, Megas, orðaði það í öðru kvæði: “Af hundingsspotti höfum við best næmi”.. Við erum stundum móttækilegri fyrir afkáralegum og upplognum fréttum af bognum bananatilskipunum en fréttum af því að neytendur og framleiðendur sitji við sama borð þvert á landamæri. Það er auðveldara að skapa ótta og ugg í hugum margra en umburðarlyndi og félagsanda gagnvart öðru fólki.

Virðulegi forseti, þetta er öndvegisskýrsla og það þarf í rauninni ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt það er Íslendingum og íslensku samfélagi að tengjast Evrópusambandinu, þó ekki væri nema fyrir þá sök að EES-samningurinn opnar fyrir okkur þennan milljónamarkað, sem upp undir áttatíu prósent af útflutningi okkar rennur til – íslensk fyrirtæki starfa þannig á milljónamarkaði en ekki örmarkaði eins og áður, sem breytir öllu fyrir þau. Þessi samningur hefur breytt samfélagi okkar á ótal sviðum: hann hefur fært launafólki og neytendum margvísleg réttindi – almenningi. Hann hefur gert ungu fólki kleift að fara til Evrópu til náms og starfa og koma til baka reynslunni ríkara. Hann hefur gert ungu fólki víðsvegar úr Evrópu kleift að koma hingað til náms og starfa og auðga þannig samfélag okkar, víða um land.

Við erum Evrópuþjóð og eigum menningarlega, hugmyndalega og sögulega samleið með öðrum Evrópuþjóðum, sem langflestar hafa kosið að tengjast þessu bandalagi með einum eða öðrum hætti, þarna eru þær þjóðir sem okkur standa næst, nefni bara Norðurlandaþjóðirnar og Íra, og una sér þar vel og hafa dafnað þar og náð að virkja það afl sem í þessum samfélögum býr – og má nefna sérstaklega Íra í þessu sambandi, sem svo lengi voru undir járnhæl Englendinga með tilheyrandi kúgun og volæði og eymd, en blómstra nú í samfélagi jafningja innan Evrópusambandsins; við getum nefnt Finna líka, sem fengu sitt fullveldi sama ár og Íslendingar, 1918, en bjuggu áratugum saman í skugganum af þeim gráa ógnarmúr sem Sovétríkin voru, en hafa blómstrað hin seinni árin meðal jafningja innan Evrópusambandsins; við eigum að líta til þessara þjóða sem eiga sér svipaða sögu og við um erlent vald með tilheyrandi kúgun og doða en hafa náð að blómstra meðal jafningja innan Evrópusambandsins. Og hafa náð að hafa þar ómæld áhrif umfram stærð á gildismat og hugsjónir sem til grundvallar eru margháttuðu regluverki.

Virðulegi forseti. Íslendingar eru smáþjóð. Eða ég veit raunar ekki hvort það orð nær utan um okkur – Danir eru smáþjóð – við erum þjóðarkríli. En við erum sem sé hér, með okkar sögu, menningarvitund, tungumál, hagsmuni, og við höfum sama rétt og aðrar fullvalda þjóðir á vettvangi heimsins. Þannig upplifum við okkur og þannig á það líka að vera. við eigum heima í samfélagi þjóða og eigum að hafa þar áhrif og láta gott af okkur leiða, og vera þar sem ákvarðanir eru teknar í stað þess að taka við þeim nöldrandi.

Harðsnúin öfl hér innanlands komu því svo fyrir að íslenska þjóðin fékk aldrei að vita hvað það myndi tákna að ganga alla leið inn í Evrópusambandið, hvað það myndi tákna fyrir þjóðarbúskap okkar og yfirráð yfir auðlindum okkar. Samningaviðræður voru ekki kláraðar og þess vandlega gætt að niðurstöður fengju aldrei að blasa við landsmönnum um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Það var séð til þess að aldrei hefur verið horft á þetta dæmi af yfirvegun og skynsemi heldur hefur þar ráðið för heill orkupakki af tröllasögum og ranghugmyndum.

Evrópusambandið er flókið og þungt í vöfum enda þarf að taka tillit til margra ólíkra sjónarmiða. Það er ekki Himnaríki á Jörðu enda er himnaríki ekki til nema í þjóðsögum og ævintýrum. Það er heldur ekki Heimsveldi hins illa. Þar er ekki erlent stórveldi sem ásælist auðlindir okkar. Evrópusambandið er Evrópusamband. Það er net fullvalda þjóða sem tala saman, semja og finna leiðir til að lifa saman í friði en ekki stríðandi. Það er viðleitni til að skapa regluverk með sanngirni og rétt neytenda að leiðarljósi. Það er tengslanet. Og ég hlýt því að spyrja, virðulegi forseti, er ekki kominn tími til að tengja?

Þið getið kallað mig draumóramann

en ég er ekki sá eini

ég vona að þið sláist í hópinn einn daginn

og þá verður heimurinn sem einn