Hugsum smátt-fyrst

Smiðurinn – saumakonan – gistihúsaeigandinn – forritarinn – múrarinn og listamaðurinn.

Kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf er grunnurinn að góðri og öflugri almannaþjónustu, sem við reiðum okkur á allt lífið. Það vill alltof oft gleymast að langflest þessara fyrirtækja eru agnarlítil og rekin af harðduglegu fólki sem rekst áfram af áhuga á starfinu, hugsar fyrst og fremst um að skapa sjálfu sér og öðrum atvinnu en heldur í leiðinni uppi nærþjónustu um allt land.

Við sjáum þetta fólk allt í kringum okkur. Oft lætur það eigin laun sitja á hakanum til að ná að borga starfsmönnum sínum, veðsetur jafnvel persónulegar eigur til að halda rekstrinum gangandi og er með kvíða um mörg mánaðamót. Mörg geta ekki leyft sér að taka eðlilegt sumarfrí, nema endrum og sinnum. Við höfum ekki lagt nóga rækt við að búa þessum fyrirtækjum góð skilyrði. Megináherslur stjórnmálanna hafa snúist of mikið um stórfyrirtækin, stórkarlalega uppbyggingu og rekstrarumhverfi þeirra.

Samt skila ör- og smáfyrirtæki stórum hluta vergrar landsframleiðslu. Í ýmsum Evrópuríkjum er unnið út frá þumalputtareglunni „think small first“, það er að segja „hugsum smátt, fyrst“. Við alla mótun og ákvarðanir sem snúa að atvinnulífinu, ekki síst lög og reglugerðir, eru þarfir lítilla fyrirtækja hafðar að leiðarljósi. Þetta er hugsun sem við ættum að tileinka okkur í ríkara mæli hér á Íslandi líka. Einhæft atvinnulíf felur í sér of stóra áhættu, ekki síst fyrir lítið land en það er auk þess síður til þess fallið að mæta þeim væntingum sem ungt fólk gerir til lífsins í dag. Það mun bera uppi lífskjör okkar næstu áratugina og við verðum að búa svo um hnútana að það telji eftirsóknarvert að starfa hér, í samtíma þar sem það getur valið nánast allan heiminn til búsetu.

Við þurfum því að skjóta sterkari stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf. Annars vegar verðum við að bæta skilyrði þessara örfyrirtækja, sem ætla sér ekkert endilega að stækka en eru þó hjarta allra bæja og gera þá byggilega. Hins vegar þurfum við að auka veg nýsköpunarfyrirtækjanna, sem byggja oft á hugviti, eru oft metnaðarfull og vilja stækka. Þau hafa reynst hinum hefðbundnari atvinnugreinum ómetanleg í sókn þeirra til meiri verðmætasköpunar en geta líka með nýrri tækni horft á allan heiminn sem markað sinn. Þessi fyrirtæki þurfa að verða stærri þáttur í atvinnulífi okkar til framtíðar.

Þess vegna hef ég, ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar, lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja. Þar ber helst að nefna aukna lækkun tryggingagjalds, sérstaklega á lítil fyrirtæki, einfaldara og skýrara regluverk og sérstakan stuðning við fyrirtæki sem byggja á hugviti.

Við eigum að hugsa smátt – fyrst.

Logi Einarsson

Greinin birtis í Morgunblaðinu þriðjudaginn 5. nóvember.