Oddný um fiskveiðistjórnunarkerfið

Hér má lesa ræðu sem Oddný G. Harðardóttir hélt í sérstakri umræðu á Alþingi um fiskveiðistjórnunarkerfið:

 

Herra forseti

Fiskveiðistjórnunarkerfið okkar er meingallað, það hyglir fáum, vinnur gegn nýliðun og gerir ekki miklar kröfur á þá sem fá leyfi til að fénýta sjávarauðlindina. Auk þess er eftirlitið veikt.

„Bölvun auðlindanna“ er þekkt hugtak í hagfræði. Þetta kann að hljóma einkennilega en spilling er böl sem getur oft verið fylgifiskur skjótfengins gróða sem miklar náttúruauðlindir geta skapað.  Ísland býr yfir ríkulegum sjávarauðlindum og þessi bölvun vofir yfir okkur líkt og Namibíu.

Það hlýtur því að vera viðfangsefni okkar stjórnmálamanna að sjá til þess að kerfið sem við setjum um nýtingu þessara auðlinda, bæði hvað varðar úthlutun nýtingaleyfa sem og verðlagningu þeirra, verði sem gagnsæjast og byggi á jafnræði.  Pólitískar ákvarðanir um veiðigjöld og úthlutanir bjóða spillingunni heim.

Og í þessu ljósi eigum við að líta á allar ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið um nýtingarleyfi og auðlindagjöld og gera breytingar til að takmarka spillingarhættuna. Það er ákveðin vendipunktur í umræðum um auðlindanýtinguna nú þegar spillingarhættan verður svo sýnileg með Samherjaskjölunum.

Við í Samfylkingunni höfum í nær tvo áratugi, eða allt frá stofnun flokksins, lagt fram tillögur um sanngjarnara og gegnsærra kerfi. Heppilegasta leiðin til að ákvarða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind er að nýta markaðslögmálin og bjóða út sérleyfin í viðráðanlegum skrefum og útfæra tilboðsleiða með því að setja reglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Ég vil benda hæstvirtum ráðherra og þeim stjórnarþingmanni háttvirtum sem talaði hér áðan á að útboðsskilyrði á markaði eru algeng.

Við höfum einnig lagt til að aukinn ávinningur gangi beint til sveitarfélaganna í landinu.

Það er hægt að laga gallað kerfi. Vilji er allt sem þarf.