Ræða Loga í umræðum um stöðuna í stjórnmálum
Hér má finna ræðu Loga Einarssonar í umræðu um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs og verkefnin framundan á Alþingi.
Herra forseti, talsmenn ríkisstjórnarinnar stæra sig gjarnan af því að ráðist í viðamikla lífskjarasókn, innviðauppbyggingu og unnið stórafrek í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.
Skoðum nú aðeins hvað hefur raunverulega gerst frá því að ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins tók við?
- Hagvöxtur er horfinn og atvinnuleysi hefur tvöfaldast.
- Það ríkir neyðarástand bráðamóttökunni og heilbrigðiskerfið allt er vanfjármagnað.
- Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist.
- Málefni útlendinga eru í ólestri.
- Veiðileyfagjöld eru orðin helmingi lægri en þegar ríkisstjórnin tók við.
- Öryrkjar og eldri borgarar hafa dregist enn lengra aftur úr öðrum hópum.
- Dómskerfið okkar er í uppnámi og Ísland er á gráum lista.
Þetta er staðan þrátt fyrir að á undanförnum misserum höfum við Íslendingar búið við einstaka efnahagslega velsæld.
Við í Samfylkingunni höfum reynt að standa vaktina – og bent á að velferðin nær ekki til allra. Á meðan fjöldinn allur af fólki berst í bökkum verða örfáir ríkari og ríkari.
Ríkisstjórnin gefur raunar engin fyrirheit um raunverulegar breytingar í þágu jöfnuðar – og hana skortir alla framtíðarsýn. Hún hefur fengið næg tækifæri og við vitum nú hverjar áherslur þessarar ríkisstjórnar eru, þegar stutt er eftir af kjörtímabilinu.
Herra forseti,
Fyrir kosningarnar voru heilbrigðismálin stærsta málið. Kjósendur allra flokka settu þau í fyrsta sæti. En þrátt fyrir að hæstvirtur heilbrigðisráðherra hafi réttlætt veru VG í ríkisstjórninni með því að þau ætluðu að bjarga heilbrigðiskerfinu, blasir við ófögur mynd.
Enn er ósamið við fjölmennar kvennastéttir sem vinna gríðarlega mikilvæg störf við óboðlegar aðstæður. Að undanförnu hefur líka dregist upp mynd af Landspítalanum sem ekki er hægt að sætta sig við. Þá er heilbrigðisþjónustu víða á landsbyggðinni ógnað, jafnvel á stöðum sem reynslan sýnir að geta verið einangraðir frá höfuðborginni svo dögum skiptir.
Hæstvirtur ráðherra. Fimm prósent aukning á fjármunum til Landspítalans á þremur árum getur ekki talist sú stórsókn sem vænst var.
Sama á við í menntamálum. Þrátt fyrir stórkostlegar yfirlýsingar menntamálaráðherra um aðra stórsóknina þar hafa raunútgjöld til framhaldsskóla dregist saman og framlög til háskóla staðið í stað. Við erum því enn aðeins hálfdrættingur á við nágranna okkar á Norðurlöndunum. Það sem er alvarlegt við þessa skammsýni er að fjárfesting í menntun er lang líklegasta trygging okkar fyrir því að við getum áfram verið samkeppnishæf í heimi sem er að taka stórkostlegum breytingum.
Menntun er ekki aðeins forsenda þess að við getum nýtt okkur möguleikana sem felast í tæknibyltingunni – ekki aðeins nauðsynleg þar sem lausnir á stærstu áskorunum mannkyns leynast í þekkingu – hún er auk þess líkleg til að skila okkur upplýstara og heilbrigðara samfélagi.
Auk fjárfestinga í sjálfum skólunum þurfum við líka að gera betur við ungt námsfólk sem mun bera uppi lífsgæði okkar næstu áratugina.
Menntun er mikilvægt jöfnunartæki. Og við tölum gjarnan um að veita öllum börnum jöfn tækifæri – en gerum við það?
Fjórðungur barna fá ekki viðunandi hjálp heima – innflytjendur hér koma mun verr út en á hinum Norðurlöndunum. Hvort sem horft er til fyrstu eða annarrar kynslóðar. Þetta eru börn fólks sem hefur lagt þungt lóð á vogaskálar efnahaglífsins. Börn sem búa við fátækt koma einnig verr út. Markmiðið okkar þarf að vera að ungt fólk hafi sem jöfnust tækifæri þegar þau koma út í lífið að skóla loknum.
Atburðir vetrarins hafa líka sett kastljósið á byggðaójöfnuð í landinu – sem verður einnig að leiðrétta. Óveður síðustu vikna með ófullburða rafmagnsdreifikerfi og snjóðflóðin hafa dregið þetta skýrt fram. Niðurstöður PISA-könnunarinnar reyndar líka.
Við getum og eigum að þróa samfélag þar sem allir landsmenn eiga sannarlega möguleika á góðri heilbrigðisþjónustu, fyrsta flokks menntun, ásættanlegum samgöngum og annarri samfélagslegri þjónustu. Því miður skortir enn á það, eins og fjölmörg dæmi sýna. Og til þess að ná því dugar ekki það hálfkák sem málamiðlanir ósamstæðrar ríkisstjórnar fæða af sér.
Það er nefnilega ekki nóg að slá um sig með metnaðarfullum markmiðum í stjórnarsáttmála og ræðum. Það þarf líka að hafa hugmyndauðgi og framsýni til að setja fram skýrar aðgerðir og hafa kjark og samtakamátt til að fylgja þeim eftir
Við þurfum ríkisstjórn sem tryggir fólki aukið öryggi og hverjum einstakling tækifæri til að rækta hæfileika sína, sér og öðrum til hagsbóta. Fámenn þjóð hefur einfaldlega ekki efni á öðru en gera öllum sem vettlingi geta valdið kleift að leggjast á árar.
Herra forseti.
Stærsta málið sem heimurinn stendur frammi fyrir er hlýnun jarðar. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum kalla á festu, framtíðarsýn og skipulagi langt fram í tímann. Við verðum að setja okkur metnaðarfyllri og tímasett markmið – festa þau í lög og tryggja að aðgerðir séu að fullu fjármagnaðar. Þær geta verið íþyngjandi fyrir fólk til skamms tíma. Og því er mikilvægt að í ríkisstjórn sé nægilega kjarkað fólk til að fylgja loftslagsaðgerðum eftir en er jafnframt meðvitað um mikilvægi þess að verja veikustu hópa samfélagsins fyrir áhrifum þeirra, þótt allir verði að leggja sitt af mörkum.
Framtíðaráskoranir eins og loftslagsbreytingar og tæknibyltingin eiga eftir að hafa áhrif á líf okkar, vinnu og velsæld. Næstu ár verða að vera helguð því að tryggja öllum viðunandi kjör og að breytingarnar hafi meiri jöfnuð og hamingju í för með sér.
Stytting vinnuvikunnar er nærtækt í því samhengi. Um er að ræða risastórt kjaramál sem hefði jákvæð áhrif á umhverfið og yki velsæld. Þá er ég ekki bara um korter eða hálftíma, heldur jafnvel heilu vinnudagana. Til þess þurfum við þó að setja okkur langtímamarkmið – og vinna markvisst að þeim.
Herra forseti
Sitjandi ríkisstjórn er kolfallinn samkvæmt öllum könnunum. Og þótt kannanir séu eitt og kosningar annað er ekki vafamál að almennt hefur fólk ekki traust eða trú á að ríkisstjórnarsamstarf um kyrrstöðu og skaðaminnkun sé rétta svarið.
Vafalaust getum við öll náð saman um mörg stór hagsmunamál – og gerum það endilega!
En mörgum af okkar stærstu áskorunum getum við aldrei mætt á fullnægjandi hátt með málamiðlunum ósamstíga flokka.
Að vísu virðast ríkisstjórnarflokkarnir furðu samstíga í varðstöðu um óréttlátt fiskveiðistjórnunarkerfi, gamaldags landbúnað – sem skilar mörgum bændum sultarkjörum – og veikan gjaldmiðil – sama hvað hann kostar launafólk – og framsækin nýsköpunarfyrirtæki.
En flokkar sem telja aukinn jöfnuð eftirsóknarverðan, vilja taka aðgerðir gegn hamfarahlýnun fastari tökum og mæta framtíðinni af meiri áræðni verða að mynda saman næstu ríkisstjórn.
Það er nefnilega kominn tími til að hætta að láta Sjálfstæðisflokkinn endalaust, velja sér nýja dansfélaga eftir kosningar, og stjórna á eigin forsendum.
Nú er kominn tími á samstilltari, djarfari og víðsýnni stjórn, án Sjálfstæðisflokksins – fyrir allt fólkið í landinu og komandi kynslóðir. Stjórn sem leggur alla áherslu á ríkara félagslegt réttlæti og hefur á sama tíma meiri sköpunarkraft, framsýni og hugrekki.
Samfylkingin er tilbúin í það verkefni.