Stöndum vörð um vinnu, velferð og heilbrigði landsmanna!
Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar í efnahags og viðskiptanefnd lagði fram nefndarálit í gær við frumvarp ríkisstjórnarinnar um frestun gjalddaga. Samfylkingin studdi frumvarpið svo langt sem það nær, en benti á að fleira þarf að koma til. Samfylkingin leggur þunga áherslu á að fleiri aðgerðir fylgi í kjölfarið og sem fyrst, ekki einungis til að styðja við rekstur fyrirtækja í landinu heldur einnig rekstur heimila.
Samfylkingin leggur til að eftirfarandi aðgerðir verði metnar strax :
- Bankar í eigu ríkisins komi til móts við fyrirtæki með aðgengi að lánum og greiðslufrestum. Hugsanlega getur ríkið beitt eigendastefnu til að hafa áhrif á þá stöðu.
- Sérstakur sjóður verði settur á fót til að tryggja sjálfstætt starfandi fólki sem missir vinnu vegna minni eftirspurnar, veikinda eða einangrunar tekjur á meðan ástandið varir.
- Fólki verði auðveldað að endurfjármagna húsnæðislán til að lækka greiðslubyrði heimila.
- Atvinnulausum verði veittur frestur til að greiða vexti og afborganir af húsnæðislánum.
- Hækka atvinnuleysisbætur.
- Tryggingagjald verði lækkað meira einkum hjá litlum fyrirtækjum.
- Skoðað verði að fresta einnig greiðslu á virðisaukaskatti 5. apríl.
- Ráðist verði í opinberar fjárfestingar sem skapa fjölbreytt störf, fyrir konur og karla með mismunandi menntun og bakgrunn. Lögð verði sérstök áhersla á grænar fjárfestingar og uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu.
- Fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði stóraukið.
- Fjármagni verði beint til skóla og símenntunar til að gefa fólki tækifæri á að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði á meðan hagkerfið tekur við sér.
Þessar aðgerðir og margar fleiri koma til álita í glímunni við þær efnahagslegu áskoranir sem blasa við.
Stöndum vörð um vinnu, velferð og heilbrigði landsmanna!
Hér má lesa nefndarálitið: