Um skammsýni ríkisstjórnarinnar

Logi

Ræða Loga Einarssonar á Alþingi í dag

Logi Einarsson Þingflokksformaður og 1. sæti í Norðaustur

Það er rétt sem hæstvirtur forsætisráðherra sagði að íslenska þjóðin sýndi bæði samheldi og seiglu þegar fyrsta bylgja veirunnar reið yfir.  

Almenningur fór eftir ráðleggingum okkar færustu heilbrigðissérfræðinga og tók sóttvarnir alvarlega. Þessi viðbrögð skiluðu árangri, en vorið var þó mörgum þungbært:  Tíu manns misstu lífið, tugir heilsuna og viðkvæmir hópar sættu einangrun með tilheyrandi vanlíðan.

Efnahagslegar afleiðingar faraldursins og sóttvarna birtust í algjöru eftirspurnarhruni og atvinnuleysi þúsunda. Þau bættust í hóp þeirra sem þegar hafði verið sagt upp mánuðina á undan - því rétt er að hafa í huga að efnahagslífið hafði kólnað stöðugt allt árið fyrir Covid; án þess að ríkisstjórnin brygðist nógu afgerandi við.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn Covid-plágunni hafa reynst misvel - nokkuð verið um fát og seinagang. 

Reynslan sýnir að hlutabótaleiðin hefur verið farsælust, bæði fyrir launafólk og efnahagslífið í heild sinni – hana var hægt að útfæra hratt enda áður notuð af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í síðasta hruni.

Öðrum aðgerðum, s.s. brúarlánum til fyrirtækja, hefur gengið alltof hægt að hrinda í framkvæmd og ég hef enn miklar efasemdir um uppsagnarleiðina. 

Samfylkingin lagðist gegn henni og taldi hana vinna gegn hlutabótaleiðinni og skapa hvata til uppsagna. Þá gagnrýndum við að ekki væru kynnt djarfari áform um ný störf, samhliða henni. 

Þá er það mikil skammsýni að ekki hafi verið stigin kröftugri skref til stuðnings sveitarfélögum -  til að vernda þá verðmætu nærþjónustu sem þar er sinnt: þar má nefna skóla og öldrunarþjónustu. 

Alvarlegast er þó líklega skortur á aðgerðum fyrir fólk og heimilin. Margir munu lenda í erfiðleikum með afborganir af lánum, leigu, kaupum á skólafatnaði eða kosta börn sín í tómstundir í haust - Jafnvel sækja sér læknisþjónustu. Hvort tveggja gæti orðið okkar ansi dýrkeypt – dýpkað kreppuna og aukið ójöfnuð. 

Við í Samfylkingunni studdum öll góð mál ríkisstjórnarinnar og unnum heiðarlega að úrbótum á þeim í meðförum þingsins. Veittum ríkisstjórninni svigrúm og vonuðum að hún lyfti sig uppúr hefðbundnum skotgröfum; opnaði á samráð og tæki fagnandi góðum hugmyndum – jafnvel frá stjórnarandstöðu.

En það var því miður allt á sömu bókina lært; allar tillögur Samfylkingarinnar, utan einnar, voru kolfelldar af meirihlutanum. 

Tillögur um hærri grunnatvinnuleysisbætur og framlengingu á tekjutengingu þeirra, 

greiðslur til eldri borgara, öryrkja og foreldra langveikra barna, aðstoð við námsmenn og álagsgreiðslur til framlínufólks.  

Frekari aðstoð við sveitarfélög, sértækum stuðningi við lítil fyrirtæki, fjárfestingar í nýsköpun, tækniþróun og listum - sem allt hefði fjölgað störfum.

Loks tillögur um aukinn stuðning við fjölmiðla - sem gegna lykilhlutverki í svona aðstæðum. Allt kolfellt.

Þegar gerðar voru tilslakanir á landamærunum í júní var  heldur ekkert samráð við stjórnarandstöðuna. Ég fullyrði hvorki að niðurstaðan hefði orðið önnur eða ákvörðunin mistök.

Þó er ljóst að það var ekki var byggt á nógu heildstæðu mati á hagrænum áhrifum þess.

Þessi gagnrýni varð áberandi í byrjun ágúst, þegar smit skutu aftur upp kolinum. 

Það má hrósa ríkisstjórnini fyrir að draga lærdóm af henni og byggja á fleiri sjónarmiðum þegar ákveðið var að herða aftur sóttvarnir við landamærin. Líka fyrir að skipa fjölmennan samráðshóp til loka árs 2021, sem á að horfa breitt á viðureignina gegn veirunni. 

En það er stór undarlegt að ekki einn einasti þingmaður hafi aðkomu að þeirri vinnu: Hvorki úr stjórn eða stjórnarandstöðu. Þeir eru þó kjörnir til að móta þær aðgerðir sem óhjákvæmilegt þykir að grípa til og samþykkja fjárútlát til þeirra.

Þó ríkisstjórnin hafi síendurtekið slegið á útrétta hönd stjórnarandstöðunnar síðustu sex mánuði – ítrekar Samfylkingin að við erum reiðurbúin vilja til nánari samvinnu um leiðir fram á við. 

Helsti munurinn á þessari kreppu og þeirri síðustu er að byrðarnar dreifast enn ójafnar nú. 

Tugþúsundir missa vinnuna og heimili þeirra verða fyrir harkalegu tekjufalli, meðan meirihluti þjóðarinnar finnur síður fyrir efnahagslegum þrengingum, þó vissulega fylgi óþægindi hörðum sóttvarnaraðgerðum.

Ungt fólk verður sérstaklega fyrir barðinu á þessari kreppu; rétt eins og þeirri síðustu. Það er fjölmennt í atvinnugreinum sem misst hafa stóran spón úr aski sínum, s.s. ferðaþjónustu og skemmtanabransanum. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunnar er 18 prósent atvinnuleysi í þessum aldurshóp. 

Þá eru 20% innflytjenda einnig án vinnu; fólk sem dreif áfram góðæri síðustu ára. 

Ef ekkert verður að gert, bætist þetta fólk í hóp þeirra sem þegar standa höllum fæti jaðarsett í samfélaginu; öryrkja, fátæka eldri borgara og aðra sem hafa horft á lífskjarabilið milli sín og okkar hinna breikka ár frá ári, jafnt í góðæri og niðursveiflu. 

Þá eru ótalin börn, í viðkvæmu þroskaferli, sem eru í mikilli áhættu, vegna óvissu og kjaraskerðingar foreldra sinna. 

Nú þegar búa um 6000 börn við fátækt á Íslandi og því miður er hætta á að þeim fjölgi, verði ekki nóg gert.

Aukin ójöfnuður er þekktur fylgifiskur kreppu og Það er pólitísk ákvörðun ef ekki verður gripið til nógu róttækra aðgerða gegn honum nú.

Skynsamleg efnahagsstjórn snýst ekki bara um aðgerðir til fyrirtækja – ekki síður að verja viðkvæmustu hópana og efla sérhvern einstakling. 

Ef það verður ekki gert í meira mæli er allt talið um samstöðu okkar allra innantómur fagurgali 

Veiran er óútreiknanlegt kvikindi og vitum ekki hvað viðureignin við hana mun taka langan tíma. En þá gildir að  ekki eingöngu í viðbrögðum. 

Við verðum líka að hafa kjark til þess að horfa til framtíðar - Meta allar aðgerðir út frá heildarhagsmunum og langtíma ávinningi.

Endurskipulagningin þarf að miða að því, að skapa öllum mannsæmandi lífskjör og byggja fjölbreyttara atvinnulíf, sem reiðir sig í auknum mæli á hugviti. Hún verður að taka mið af samfélagslegum breytingum samfara örri tækniþróun, baráttu okkar við loftslagsvána og til þess falin að lágmarka áhættu af stórum áföllum, sem einhvern tíma munu ríða yfir aftur. 

Herra forseti, við ráðum engu um það hvar við stöndum í dag en öllu um hvert við stefnum  - og það væru mikil mistök að ræsa bara sömu vélina eins og ekkert hafi í skorist.