Opið bréf til forsætisráðherra
Fyrir 17 mánuðum samþykkti Alþingi þingmál sem ég hafði lagt fram ásamt 15 öðrum þingmönnum um að það bæri að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ólíkt flestum þingmálum þingmanna var þetta mál samþykkt af öllum flokkum.
Ríkisstjórninni var falið af þinginu að undirbúa lögfestinguna og átti ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp á Alþingi, sem fæli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, eigi síðar en 13. desember 2020. Það er eftir einungis einn mánuð.
Þetta mál af öllum
Hins vegar er ekkert slíkt frumvarp á málaskrá ríkisstjórnarinnar en sú skrá segir til um hvaða mál ríkisstjórnin ætlar að leggja fram í vetur. Ég trúði satt best að segja ekki mínum eigin augum þegar ég las málaskrá ríkisstjórnarinnar.
Í þessu mikilvæga máli liggur vilji þingsins alveg ljóst fyrir. Ráðherrar eiga ekki að getað valið og hafnað þingsályktunum eftir hentugleika. Ráðherrar eru framkvæmdarvald og eiga að framkvæma vilja þingsins.
Vegna þessa spurði ég forsætisráðherra í þingsal í síðasta mánuði hvernig stæði á því að þetta mál af öllum, mál sem myndi þýða gríðarlega mikla réttarbót fyrir fatlað fólk og öryrkja á Íslandi, sé látið mæta afgangi. Fátt var um svör en hún sagðist ætla að skoða málið en nú er tæpur mánuður liðinn og ekkert hefur heyrst af efndum.
Yrði eitt fyrsta landið í heimi
Alþingi, sem er löggjafarvaldið og æðsta stofnun Íslendinga, hefur nú þegar tekið það sögulega skref að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks beri að lögfesta. Þetta risaskref mun stórbæta réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi, en eins og margir dómar sýna er mikill munur á lögfestingu og fullgildingu.
Við höfum einungis lögfest þrjá meginalþjóðasamninga og eru það Barnasáttmálinn, Mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Með lögfestingu yrði samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þann stall.
Ég er mjög stoltur af þessu þingmáli sem ég lagði fram og náði í gegn ásamt félögum mínum. Með lögfestingunni yrði Ísland eitt fyrsta land í heimi til að lögfesta þennan alþjóðasamning og það er ekki oft sem Ísland getur státað sig af slíku.
Það var einmitt einnig þingmál frá mér á sínum tíma sem fékkst samþykkt á Alþingi um að lögfesta bæri Barnasáttmálann. Við urðum síðan einnig ein fyrsta þjóðin í heimi sem lögfesti Barnasáttmálann.
Beðið eftir kjarabótum og nú réttarbótum
Öryrkjar hafa lengi beðið eftir kjarabótum frá þessari ríkisstjórn og nú eiga þeir einnig að bíða eftir réttarbótum, og það réttarbótum sem Alþingi hefur nú þegar ákveðið að skuli ráðast í. Þetta mál snertir ekki bara fatlað fólk á Íslandi heldur alla þjóðina. Vilji þingsins er alveg skýr og sé hann ekki virtur í þessu máli af öllum, er um stórfrétt að ræða. Boltinn er því núna hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Greinin birtist á Vísi 9. nóvember.