Stjórnmálaályktun Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar

Samþykkt á aðalfundi 19. nóvember

Kvennahreyfing Samfylkingarinnar leggur til að meirihluti oddvitasæta verði skipuð konum á framboðslistum Samfylkingarinnar fyrir næstu Alþingiskosningar.

Í nærri 1100 ára sögu Alþingis hafa konur aldrei náð helmingshlutfalli þingfulltrúa. Aðeins einu sinni hefur ríkisstjórn verið skipuð jafn mörgum konum og körlum, í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá sitja konur sem kjörnar eru á þing að jafnaði styttra en karlar. Tölfræðin lýgur ekki - augljóst er að eitthvað er skakkt við kerfið, og þar af leiðandi þarf kerfislægar lausnir til að rétta stöðuna.

Samfylkingin var upphaflega stofnuð við sameiningu fjögurra stjórnmálaflokka. Einn þessara flokka var Kvennalistinn, sem á 9. og 10. áratugum síðustu aldar bauð fram framboðslista skipaða konum eingöngu. Stuðlaði kvennalistinn þannig að hærra hlutfalli kvenna á Alþingi, bæði með sínum kvenþingfulltrúum sem og með því að hreyfa við öðrum stjórnmálaflokkum sem tóku sig taki og fóru að tefla fram fleiri kvenframbjóðendum. 

Nú er kominn tími til að Samfylkingin rifji upp arfleið Kvennalistans og skori þessa karllægu stöðu á hólm. Flokkurinn á ekki að sitja með hendur í skauti á meðan kynjahlutföllinn halda áfram að skekkjast á þingi heldur á Samfylkingin, Jafnaðarmannaflokkur Íslands, að taka afgerandi stöðu með kvenréttindum.

Í seinustu alþingiskosningum voru einungis 2 konur af 6 oddvitum sem leiddu lista Samfylkingarinnar. Því beinir Kvennahreyfing Samfylkingarinnar þeim tilmælum til kjördæmis- og fulltrúaráða flokksins, sem annast skipan framboðslista, að tryggt verði að konur verði í meirihluta í oddvitasætum.

Á tímum sem þessum er mikilvægt að konur hafi sterka rödd í stjórnmálum. Yfirstandandi efnahagskreppa kemur misjafnt niður á ólíkum hópum samfélagsins og er líkleg til að auka ójöfnuð ef ekki er gripið í taumana. Meirihluti atvinnulausra nú eru konur, aukið álag á heimilum leggst einnig meira á konur en karla og heimilisofbeldi hefur færst í aukana. Þá hafa stórar kvennastéttir lyft grettistaki í framlínustörfum í heimsfaraldri og vill Kvennahreyfing Samfylkingarinnar senda þeim sérstakar þakkir.

Úti í heimi eru konur að berjast fyrir mikilvægum réttindum sínum. Í Póllandi eiga konur undir högg að sækja vegna fjandsamlegra laga sem banna þungunarrof. Við stöndum með konum. Kvennahreyfing Samfylkingarinnar styður þingsályktun sem nú liggur fyrir Alþingi sem ætlar er að tryggja að pólskar konur sem ferðast til landsins til að gangast undir þungunarrof fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu.