Birting í borginni

Árið 2020 hefur litast af COVID-faraldrinum sem hefur hvarvetna valdið þungum skakkaföllum. Skólafólk hefur leyst úr flókinni stöðu og víða nýtt tækifæri til að flýta för inn í stafrænan heim þrátt fyrir þröngan kost.

Í gærkvöld samþykkti borgarstjórn fjárhagsáætlun þar sem við boðum stór skref í innleiðingu stafrænnar tækni. Á næstu þremur árum verður 733 milljónum króna varið í bættan tölvukost nemenda og starfsfólks grunnskóla, leikskóla og frístundastarfs og kennslufræðilegan stuðning. Með þessu verður öllum nemendum á unglingastigi grunnskóla borgarinnar tryggð tölva til eigin nota í skólanum og að auki öllum nemendum með sérþarfir í öllum árgöngum grunnskólans. Síðast en ekki síst verður lögð mun meiri áhersla á kennslufræðilega ráðgjöf og stuðning til að aukinn tækjakostur nýtist sem skyldi við að breyta kennsluháttum í takt við stafrænan veruleika. Með þessu leggjum við grunn að því að frumkvöðlastarf fagfólks í skólum eins og Langholtsskóla og Dalskóla sem hlutu Íslensku menntaverðlaunin á dögunum nýtist nemendum á jafnræðisgrundvelli í öllum unglingadeildum grunnskólanna og síðar á yngri stigum.
Við samþykktum annað stórmál í gær með verulegri hækkun framlaga til íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku.
Þessi börn standa oftast jafnöldrum sínum talsvert að baki í íslenskukunnáttu og það bil þarf að brúa. Þess vegna munum við hækka framlög til íslenskukennslu þessara nemenda um 144 milljónir króna, eða rúmlega þriðjung, sem renna munu bæði til aukinnar og markvissari íslenskukennslu en líka til að efla kennslufræðilegan stuðning og bæta mat á námslegri stöðu barnanna. Það mat verður forsenda einstaklingsáætlana sem eru lykillinn að því að viðkomandi börn taki framförum. Við leggjum sérstaka áherslu á að tryggja nýjum nemendum af erlendum uppruna markvissa íslenskukennslu og hafa það nám í sérstökum forgangi fyrstu mánuði þeirra í grunnskólanum.
Jöfn tækifæri barna eru grundvallarmarkmið okkar í menntamálum og með þessum aðgerðum stígum við stórt skref í átt að settu marki.