Stjórnmálaályktun Gunnhildar - félags Ungra jafnaðarmanna í Garðabæ

Félag Ungra jafnaðarmanna í Garðabæ (UJGBR) er endurvakið undir nafninu Gunnhildur  í ársbyrjun 2021 með það að leiðarljósi að efla stöðu ungs jafnaðarfólks í bæjarfélaginu svo að raddir þess öðlist hljómgrunn.

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur verið leidd af íhaldsflokkum í tugi ára og vilja UJGBR leggja grunn að fjölgun jafnaðarmanna í bæjarfélaginu og bættri umræðu þar sem lögð verður áhersla á félagshyggju- og velferðarmál. Áskoranir okkar nútímavædda samfélags eru flóknar, margvíslegar og þess eðlis að þær munu koma til með að hafa áhrif á komandi kynslóðir. Það er því gífurlega mikilvægt, í allri þeirri umræðu sem fram fer, að réttmætar raddir ungs fólks heyrist og verði raunverulega teknar til greina þegar að ákvarðanatöku kemur.

Félagshyggja í fararbroddi

UJGBR munu leggja ríka áherslu á félagslegt réttlæti í Garðabæ og að höfuðáhersla jafnaðarstefnunnar um velferð sé þar í forgrunni umræðunnar. Félagið telur það því algjört forgangsatriði að bæjaryfirvöld sinni lögbundnu hlutverki sínu þegar kemur að félagsþjónustu og leikskóla- og grunnskólamálum og að þeir málaflokkar sitji ekki á hakanum. Hagkerfi heimsins standa frammi fyrir gífurlegum samdrætti sökum aðgerða sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirunnar og atvinnuleysi hefur aukist svo um munar. Eðli máls samkvæmt bitnar þetta hvað mest á ungu fólki, því sem skrimtir samhliða námi eða er í leit að vinnu að námi loknu. UJGBR telur mikilvægt að bæjaryfirvöld taki slíkt ástand föstum tökum, til að mynda með því að fjölga tækifærum fyrir ungt fólk og ráðast í atvinnusköpun—þá helst græna—fyrir þá sem eiga erfitt með að fóta sig á tímum kórónakreppunnar.

Enga linkind í loftslagsmálum

Loftslagsváin er nær óumdeilanlega umfangsmesta verkefni sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir þessa stundina. Mikilvægt er að bæjaryfirvöld í Garðabæ leggi sitt af mörkum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og hægt verði að ná þeim loftslagsmarkmiðum sem kveðið er á um þar. UJGBR munu kalla eftir því að bæjaryfirvöld útlisti leiðir að settum markmiðum samkomulagsins í metnaðarfullri stefnu í loftslagsmálum þar sem lögð verði áhersla á grænar lausnir innan sveitarfélagsins. Hægt væri, til að mynda, að innleiða grænna og öflugra flokkunarkerfi fyrir heimili í Garðabæ með tilkomu gáma eða tunna fyrir lífrænan úrgang, og með því að leggja aukna áherslu á bættar og vistvænni samgöngur með fjölgun göngu- og hjólastíga. Þá telja UJGBR brýnt að bæjaryfirvöld standi við undirritaða samninga um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu—Borgarlínu—sem ýtt verður úr vör á komandi árum. Þá mætti einnig stuðla að vitundarvakningu bæjarbúa um orsakir og afleiðingar hamfarahlýnunar, með fræðslu í skólum og stofnunum um það hvernig hægt sé að minnka kolefnisspor með samstilltu átaki íbúa, fyrirtækja og stofnana í Garðabæ.

Ungt fólk til áhrifa 

UJGBR telja mikilvægt að Garðabær skapi sér stöðu sem eftirsóknarverður staður fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur í leit að framtíðarheimili. Með því að leggja þunga áherslu á þéttingu byggðar, bættar almenningssamgöngur og vistvænar lausnir getur Garðabær eflt stöðu sína og ímynd í augum þessa hóps og þannig stuðlað að fjölbreyttara bæjarfélagi. Það hefur ítrekað sannast að ungt fólk hefur raunverulegan áhuga á að taka þátt í pólitískri umræðu en fær sig ekki í það því það telur sig oft ekki eiga erindi. Fyrir þessu eru margar ástæður en UJGBR munu beita sér af krafti til þess að sporna við þessu og berjast fyrir því að ungu fólki verði búið svigrúm til þátttöku í stjórnmálum og að það fái áheyrn þegar kemur að ákvarðanatöku í Garðabæ. Umræða sem fram fer á grundvelli skoðana fjölbreyttra hópa, en ekki einsleitra, er margfalt líklegri til að skila af sér farsælli, lýðræðislegri og góðri niðurstöðu.