Forsetaskipti þýða nýja nálgun í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna

Rósa Björk

Óhætt er að fullyrða að heimsbyggðin hafi andað léttar eftir að Joe Biden var kjörinn forseti Bandaríkjanna með sjö milljóna atkvæða mun.

Rósa Björk,
Rósa Björk Brynjólfsdóttir Þingmaður

Það má með sanni segja að valdatíð Trumps hafi einkennst af ofstopa, valdníðslu og ósannindum, kynþáttahyggju og kvenfyrirlitningu. Trump dró Bandaríkin út úr alþjóðastofnunum, lokaði á för fólks til Bandaríkjanna frá ríkjum þar sem íslamstrú er almennt útbreidd, hélt úti grimmilegri innflytjendastefnu á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna, hafnaði niðurstöðum lýðræðislegra kosninga og hvatti stuðningsmenn sína nokkrum sinnum til ofbeldis, byggðu á kynþáttafordómum og hatursglæpum.

Með orðum sínum og framferði gaf Trump hægri-öfgahópum, þjóðernisöfgasinnum og nýnasistum lögmæti, sem endaði með því að undir hvatningu forsetans réðust stuðningsmenn hans inn í þinghúsið þar sem fimm létust. Til viðbótar við allt þetta, hefur aðgerða og ráðaleysi Trump-stjórnarinnar við kórónaveirunni kallað yfir þjóðina mun meiri hörmungar en aðrar vestrænar þjóðir.

Strax á fyrstu dögum valdatíðar Bidens var munurinn skýr og nýi forsetinn felldi úr gildi fjöldann allan af tilskipunum Trumps. Á fyrsta degi í embætti óskaði Biden meðal annars eftir því að Bandaríkin yrðu aftur aðili að Parísarsamkomulaginu, dró til baka úrsögn Bandaríkjanna úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og skipaði fyrir um ótal aðgerðir til að bregðast við COVID-19, ásamt reglugerðum um mannréttindi og minnihlutahópa í bandarísku samfélagi.

Endurhugsum sambandið við Bandaríkin

Nú er því lag að skerpa á sambandi okkar Íslendinga við ný, bandarísk stjórnvöld sem eru með allt aðra sýn en þau fyrri. Að við ákveðum hvað við, sem fullvalda sjálfstætt ríki, viljum leggja áherslu á við ríkisstjórn Bidens og í samskiptum okkar við Bandaríkin.

Samband Íslands og Bandaríkjanna er sérstakt og hefur verið náið í 80 ár en það hefur líka verið umdeilt. Undanfarin 4 ár hafa ekki verið undanskilin og þar hefur fjöldi funda utanríkisráðherra landanna tveggja verið hluti af því umdeilda sambandi. Góð samskipti við Bandaríkin skipta Ísland miklu máli, en þar skiptir öllu á hvaða grunni og forsendum samskiptin eru reist, hvort þau fari fram á grunni sameiginlegra gilda og gagnkvæmri virðingu. Áhugi Trump-stjórnarinnar á Norðurslóðum var drifinn áfram af karllægum yfirgangi og gamaldags valdabrölti, frekar en einlægum áhuga á því að tryggja góð og friðsamleg samskipti við aðrar þjóðir á Norðurslóðum á tímum mikilla loftslagsbreytinga sem verður hvað mest vart við á Norðurskautinu. Dæmi um þetta var bókun Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu gegn samhentum aðgerðum til að sporna við loftslagsbreytingum. Nú þurfum við Íslendingar að eiga frumkvæði og koma fram með skýra sýn um Norðurslóðasamstarf sem byggist á aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra á umhverfi og náttúru.

Öryggissamstarf og viðskiptasamráð hugsað upp á nýtt

Í öryggis- og varnarmálum milli Íslands og Bandaríkjanna er nauðsynlegt að við leggjum aukna áherslu á nýja, aðkallandi þætti er varða öryggissamstarf á sviði netógna og loftslagsbreytinga, í stað gamaldags nálgunar í varnarmálum. Biden virðist líka hafa vilja til að skera niður fjárframlög til varnarmála og nálgast þau á annan hátt en forveri hans. Það er fagnaðarefni fyrir okkur Íslendinga. Viðskiptasamband okkar við Bandaríkin er líka mjög mikilvægt og við verðum að halda áfram á lofti við nýja ríkisstjórn vestra hugmyndum um viðskiptasamráð milli Íslands og Bandaríkjanna og þróa markmið okkar í því samráði. Tíðræddar hugmyndir utanríkisráðherra um fríverslunarsamning við Bandaríkin, þarf þó að móta og ræða betur á þinglegum vettvangi og setja í samhengi við aðra fríverslunarsamninga. Talið er líklegt að Joe Biden muni á næstu vikum móta viðskiptastefnu Bandaríkjanna með áherslu á enduruppbyggingu alþjóðaviðskiptakerfisins. Miðað við fyrstu fréttir mun hún hverfast um loftslagsmál og félagsleg réttindi sem eru jákvæð tíðindi fyrir Ísland. Loftslagssamningur Íslands og Bandaríkjanna fersk og nauðsynleg nálgun Loftslagsmálin eru algjör þungamiðja í utanríkisstefnu Bidens. Þess vegna lagði ég til í sérstakri umræðu á Alþingi sem ég hafði frumkvæði að í síðustu viku, um samskipti Íslands við Bandaríkin með nýjum forseta, að Ísland hafi frumkvæðið að því að gera sérstakan loftslagssamning við Bandaríkin. Það getur lagt grunn að ótrúlega spennandi samstarfi á sviði orkuskipta, orkunýtingar, tækni- og vísindasamstarfs og yrði sannarlega mikilvægt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsvánni. Sérstakur loftslagssamningur yrði líka ný, fersk og löngu þörf nálgun á samskipti ríkjanna tveggja og byði upp á fjölmörg tækifæri í framtíðarsamskiptum okkar við Bandaríkin. Nú er ekki bara lag, heldur nauðsyn.

Greinin birtist á frettabladid.is 18. febrúar.