Frá atvinnukreppu til framsækinnar atvinnustefnu

Það ríkir neyð­ar­á­stand í atvinnu­málum á Íslandi. Meira en 20 þús­und manns eru án vinnu og hátt í 5 þús­und hafa verið atvinnu­laus í meira en ár.

Jói, Jóhann Páll, þingflokkur
Jóhann Páll Jóhannsson Alþingismaður

Þetta er nýr veru­leiki fyrir okk­ur. Í fyrsta skipti síðan mæl­ingar hófust er atvinnu­leysi meira hér en á hinum Norð­ur­lönd­un­um. Nið­ur­stöður spurn­inga­könn­unar sem var lögð fyrir félags­menn ASÍ og BSRB í des­em­ber gefa til kynna að helm­ingur atvinnu­lausra eigi erfitt með að ná endum saman og meiri­hluti þeirra hafi neitað sér um heil­brigð­is­þjón­ustu vegna fjár­hags und­an­farna mán­uði. Ef ekki er gripið strax til mark­vissra aðgerða er hætt við því að afleið­ing­arnar verði var­an­leg­ar: ójöfn­uður og lag­skipt­ing á vinnu­mark­aði auk­ist og fátækt og félags­leg vanda­mál af áður óþekktri stærð fest­ist í sessi. 

Atvinnu­leys­is­flóð­bylgjan var ekki bara afleið­ing af heims­far­aldri og nauð­syn­legum sótt­varn­ar­að­gerðum heldur skrif­ast hún líka á hæga­gang og ráða­leysi rík­is­stjórn­ar­innar í efna­hags- og atvinnu­mál­um. Opin­ber fjár­fest­ing hefur dreg­ist umtals­vert saman í kór­ónu­krepp­unni og ólíkt snörpum við­brögðum víða í Evr­ópu voru íslensk fyr­ir­tæki látin bíða mán­uðum saman eftir rík­is­á­byrgð­ar­lánum og rekstr­ar­styrkj­um. Hluta­bóta­leiðin reynd­ist vel í fyrstu en var eyðilögð með hertum skil­yrðum síðla sum­ars um leið og eig­endum fyr­ir­tækja voru greiddir rík­is­styrkir til að segja upp starfs­fólki. Afleið­ingin er sú að langtum lægra hlut­fall vinnu­afls á Íslandi hefur verið á hluta­bótum und­an­farna mán­uði heldur en víð­ast hvar í Vest­ur­-­Evr­ópu. Kreppan á Íslandi varð þannig dýpri en hún hefði þurft að vera og atvinnu­leysið meira. 

Það er á svona tímum sem höf­uð­máli skiptir hvaða stjórn­mála­öfl eru við völd og hvaða stefna ræður för. Allir flokkar segj­ast vilja binda enda á fjölda­at­vinnu­leysið en færri eru reiðu­búnir að gera það sem raun­veru­lega þarf til að skapa fjöl­breytt atvinnu­tæki­færi í einka­geir­anum og hjá hinu opin­bera. Sá stjórn­mála­flokkur sem fer með mál­efni iðn­aðar og nýsköp­unar og yfir­stjórn opin­berra fjár­mála í rík­is­stjórn Íslands hefur bitið í sig að opin­bert fé eigi fyrst og fremst að elta og spegla mark­aðs­hegðun einka­fjár­festa; ann­ars sé ríkið að drýgja þá höf­uð­synd að „velja sig­ur­veg­ara“, ákveða hvaða greinar skuli vaxa og hverjar ekki – sem er að vísu einmitt það sem var gert með íviln­unum til stór­iðju og rík­is­tryggðri banka­út­rás á árunum fyrir hrun og tíðkast enn á hverjum degi með stuðn­ingi við land­búnað í formi tolla á erlenda sam­keppni og stuðn­ingi við útgerð­ar­fyr­ir­tæki með úthlutun kvóta undir mark­aðs­verð­i. 

En ef ein­hvern tím­ann var ástæða til að setja háleit mark­mið um hvert atvinnu­lífið skuli stefna, þá er það núna á tímum neyð­ar­á­stands í lofts­lags­málum og hraðrar sjálf­virkni­væð­ing­ar. Hvar­vetna í nágranna­lönd­unum sjáum við dæmi um þetta. Nýlega kynnti rík­is­stjórn Nor­egs tug­millj­arða átak í föngun og flutn­ingi kolefn­is. Danir hafa sett á fót grænan fjár­fest­ing­ar­sjóð sem styður við vist­væna upp­bygg­ingu, orku­skipti og þróun lofts­lags­lausna, og í fyrra stofn­uðu Skotar rík­is­rek­inn fjár­fest­ing­ar­banka sem fjár­festir í grænni atvinnu­þróun og verk­efnum sem stuðla að kolefn­is­hlut­lausu sam­fé­lagi. Á Íslandi tönnlast hins vegar ráða­menn á því að ríkið eigi ekki að standa í banka­rekstri eða skipta sér af því hvert fjár­magni er beint. Um leið og talað er um nýsköpun sem leið­ina út úr krepp­unni er ráð­ist í einka­væð­ingu á verk­efnum Nýsköp­un­ar­mið­stöðvar Íslands án þess að mótuð sé skýr og heild­stæð áætlun um stuðn­ing rík­is­ins við stoð­kerfi nýsköp­unar og frum­kvöðla­starfs næstu árin. Kjarna­starf­sem­inni er komið fyrir í nýju einka­hluta­fé­lagi þótt slík til­högun bitni á öflun rann­sókn­ar­styrkja erlend­is. Kannski segir það sitt að í sama mán­uði og nýsköp­un­ar­ráð­herra Íslands lýsti því yfir á Alþingi að stuðn­ingur rík­is­ins við nýsköpun gæti unnið meiri skaða en gagn og ekki væri for­gangs­mál að styðja við kla­saupp­bygg­ingu með opin­beru fé voru stofn­aðir 14 nýir „of­ur­klasar“ fyrir lítil og með­al­stór fyr­ir­tæki í Dan­mörku sem fá rík­is­stuðn­ing að and­virði 13 millj­arða íslenskra króna til að efla sam­starf á sviði nýsköp­un­ar, þekk­ing­ar­starfs og umhverf­is- og lofts­lags­mála. 

Áskor­anir okkar daga kalla á að mótuð verði fram­sækin atvinnu- og iðn­að­ar­stefna fyrir Ísland. Á meðal þess sem við í Sam­fylk­ing­unni höfum lagt til, við góðar und­ir­tektir nátt­úru­vernd­ar­sam­taka og full­trúa atvinnu­lífs, er að stofn­aður verði burð­ugur fjár­fest­ing­ar­sjóður í opin­berri eigu með skýra árang­urs­mæli­kvarða og skil­greind mark­mið um græna atvinnu­upp­bygg­ingu. Dæmi um verk­efni sem má ímynda sér að slíkur sjóður geti liðkað fyrir er fram­leiðsla á líf­rænu elds­neyti til útflutn­ings og fyrir sam­göngur inn­an­lands, þróun tækni­lausna til föng­unar og förg­unar kolefn­is, nýsköpun í mat­væla­iðn­aði, mark­aðs­starf og kynn­ing á grænum íslenskum útflutn­ings­vörum á erlendri grundu og upp­bygg­ing iðn- og auð­linda­garða þar sem virði hreinnar orku er hámark­að. 

Við skulum styðja og vald­efla atvinnu­leit­end­ur, verja þá atvinnu­vegi sem hafa orðið fyrir skakka­föllum vegna kór­ónu­veirunnar og hjálpa hvert öðru að kom­ast í gegnum tíma­bundna erf­ið­leika – en verum líka óhrædd við að beita rík­is­vald­inu með skap­andi hætti í sam­starfi við eink­að­ila til að fjölga störfum og auka fjöl­breytni í íslensku atvinnu­lífi. End­ur­reisnin upp úr kór­ónu­krepp­unni má ekki vera á for­sendum hinna fáu og fjár­sterku heldur verður hún að grund­vall­ast á fjöl­breyttri atvinnu­upp­bygg­ingu í þágu okkar allra.

Greinin birtist í Kjarnanum 24. febrúar.