Reykjavík 2040

Ímyndum okkur að árið 2040 sé runnið upp. Hvernig er umhorfs í borginni - hvernig er lífið?
Auðvitað vitum við það ekki nákvæmlega en við reiknum með að mannfjöldaspár Hagstofunnar séu nokkurn veginn réttar. Þar með vitum við í stórum dráttum hvað þarf að byggja mikið af íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði til ársins 2040. Við viljum að byggðin mótist af vistvænni þéttingarstefnu næstu tvo áratugina og að sáttmálar um loftslagsmál, samgöngumál og húsnæðismál haldi gildi sínu. Borgarlína verður orðin að veruleika ef við höldum vel á spöðunum. Við teljum einsýnt að umhverfismál, og lýðheilsa fái alltaf meira og meira vægi í útfærslu borgarskipulagsins en til þess þarf framtíðarsýnin að vera skýr.
Nú er unnið að nýjum viðauka við Aðalskipulag Reykjavíkur – en hann felur í sér endurskoðun á stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og framlengingu aðalskipulagsins til 2040. Við tökum undir okkur stökk til ársins 2040.
Lífvænlegasta borgin
Enn og aftur er Reykjavík í efstu sætum á lífsgæðalistum borga sem alþjóðleg ráðgjafafyrirtæki gefa út. Ljóst er að aukin áhersla á umhverfismál, vistvænar samgöngur, lýðheilsu, öryggi og tækifæri til útivistar og hreyfingar skapar Reykjavík sterka stöðu á slíkum listum. Byggt hefur verið upp metnaðarfullt hjólastígakerfi sem tengir höfuðborgarsvæðið saman með þéttofnu neti góðra stíga en stígarnir liggja líka út í óbyggða náttúru utan borgarmarkanna. Reykjavík er hjólaborg á heimsmælikvarða. Þrjár nýjar sundlaugar, auk ylstrandanna við Nauthólsvík, Köllunarklett og í Gufunesi, þykja lýsandi dæmi um hvernig hægt er að bjóða rysjóttu veðurfari byrginn með hugvitsamlegri nýtingu jarðvarmans. Margt fleira kemur til. Bílastæðum í landi borgarinnar hefur verið markvisst fækkað og þau tekin undir fjölbreytt og gróðursæl svæði til almenningsnota. Mengun af mannavöldum er sama og engin og borgin er kolefnishlutlaus. Hér þykir gott að ala upp börn enda eru hér góðir skólar og framsækin menntastefna. Borgin er eftirsótt af listafólki og hér er öflugt þekkingar- og nýsköpunarsamfélag. Auk þess er til þess tekið að fólk af erlendu bergi brotið, sem er hlutfallslega margt, eigi auðvelt með að aðlaga sig samfélaginu og samfélagið sig að þeim.
Borgarlínustöðvar tengja saman blómlega byggð
Borgarlínan er komin á fullt skrið. Hún rann af stað fyrir 16 árum og tengir nú saman allt höfuðborgarsvæðið. Vagnar nema staðar á borgarlínustöðvum á nokkurra mínútna fresti og við sjáum á skjá við hverja stöð hvenær von er á næsta vagni – og við tökum því sem sjálfsögðum hlut. Hjólastólar og barnavagnar komast greiðlega inn og út úr vögnum á borgarlínustöðvunum og aðgengi er fyrir alla.
Árið 2040 eru stöðvar Borgarlínu við Krossamýrartorg, BSÍ og Hlemm vinsælir viðkomustaðir og iða af mannlífi. Þar sem áður var iðnaðarsvæði við Ártúnshöfða er nú blómleg íbúðabyggð, verslun og þjónusta. Við Vogabyggð er Sæbraut komin í stokk sem tengir saman byggð beggja vegna götunnar. Miklabraut er einnig komin í stokk og í stað umferðarniðs og mengunar eru nú aðeins vistvænar samgöngur á yfirborði. Hraðbraut sker ekki lengur hverfin í sundur. Borgarlínan fer um HR-svæðið og eftir Fossvogsbrú yfir á Kársnesið. Línan tengir saman miðbæ Reykjavíkur við Kópavog, Mosfellsbæ, Hafnarfjörð og Garðabæ. Við skjótumst nú á milli sveitarfélaga án þess að þurfa að setjast upp í bíl og keyra, án þess að eyða pening í mengandi eldsneyti til að komast leiðar okkar eins og gert var í gamla daga.
20.000 íbúðir
Um 1.000 íbúðir hafa verið byggðar í Reykjavík á ári síðastliðin 20 ár, alls um 20.000 íbúðir. Vaxtarmörk borgarinnar eins og þau voru skilgreind fyrir aldarfjórðungi hafa verið virt. Byggðin hefur þést á vistvænum forsendum. Fyrst og fremst hefur verið byggt á illa nýttum og þegar röskuðum svæðum. Áhersla hefur verið lögð á að þessi nýja byggð sé í sem bestum tengslum við Borgarlínuna, en á síðustu 20 árum hafa yfir 80% nýrra íbúða verið innan áhrifasvæðis hennar.
Orðið húsnæði felur í sér fyrirheit um skjól. Tekist hefur að skapa fjölbreytt borgarhverfi þar sem allir félagshópar hafa tækifæri til búsetu. Fjórðungur nýja húsnæðisins er á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.
Framtíðarsýn fyrir Reykjavík
Til þess að aðgerðir okkar skili árangri þarf skýra framtíðarsýn. Sú sýn er sett fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040. Við hvetjum borgarbúa til þess að kynna sér hana og þau leiðarljós sem vísa okkur leið inn í framtíðina.
Greinin birtist á frettabladid.is 16. febrúar.