Er Ís­land í Evrópu­sam­bandinu?

Evrópu­sam­bandið er dæmi um að mörg smá­ríki geta komið saman og náð sem heild mun meiri slag­krafti á al­þjóð­legum vett­vangi en þau gætu upp á eigin spýtur.

Magnús Árni Skjöld Þingframbjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, 4. sæti

Eins og flestir vita hefur Ís­land, á­samt Noregi, verið í sam­floti við Evrópu­sam­bandið um inn­kaup á bólu­efni fyrir CO­VID-19. Sitt sýnist hverjum um það og satt best að segja hefur gengið hægar að bólu­setja á því svæði en til dæmis í Bret­landi og Banda­ríkjum, að ekki sé talað um Ísrael, sem keyrði af öllu afli á Pfizer lyfja­fyrir­tækið til að fá bólu­efni fyrir alla lands­menn á undan öllum öðrum. Þrátt fyrir þetta hefur í­trekað komið fram í máli ráða­manna hér á landi að á­kvörðunin að vera í sam­floti við Evrópu­sam­bandið hafi verið rétt á­kvörðun og að Ís­landi hefði ekki verið betur borgið ef það hefði verið eitt á báti að semja um kaup á bólu­efni. Það er lík­lega rétt á­lyktað. Bólu­efnið mun koma og for­ystu­menn sam­bandsins fylgja hags­munum þess – og okkar – eftir af miklum þunga.

Evrópu­sam­bandið er dæmi um að mörg smá­ríki geta komið saman og náð sem heild mun meiri slag­krafti á al­þjóð­legum vett­vangi en þau gætu upp á eigin spýtur. Að sama skapi eru stærri ríkin, sem taka þátt í sam­starfinu, bundin af sam­skipta­reglum þess og geta síður farið sínu fram eftir eigin geð­þótta og án til­lits til smærri ríkjanna. Og afl þeirra verður afl smáu ríkjanna einnig.

Þetta er einn af mestu kostum Evrópu­sam­bandsins. Álfa, sem áður var vett­vangur hrylli­legustu stríðs­á­taka sem mann­kynið hefur farið í gegnum, hefur verið býsna frið­sam­legur staður síðustu 75 árin eða svo. Hér hefur verið gott að búa.

Ís­land sótti um aðild að Evrópu­sam­bandinu 2009. Það ferli rann út í sandinn þar sem um það var engin eining innan ríkis­stjórnarinnar sem leiddi það. Eftir kosningar 2013 tók svo við ríkis­stjórn sem var al­farið á móti aðild að Evrópu­sam­bandinu og við­búið að sú ríkis­stjórn drægi sig út úr aðildar­ferlinu. Síðan tók við hið ó­trú­lega Brexit ferli, sem tröll­reið öllum frétta­tímum áður en kórónu­veirufar­aldurinn yfir­tók allt. Og nú er helsta við­skipta­land Ís­lands, Bret­land, gengið úr Evrópu­sam­bandinu, með miklum harm­kvælum þó.

Það má því kannski segja að undan­farin ár hafi ekki verið aug­ljós tími til taka um­ræðuna um að endur­vekja um­sókn um aðild að Evrópu­sam­bandinu. En af hverju eigum við þá að vera að nefna þetta mál? Eru ein­hver rök eftir fyrir því að Ís­land taki skrefið til fulls og gangi í Evrópu­sam­bandið? Erum við ekki bara í býsna góðri stöðu á hliðar­línunni í EES-sam­starfinu?

Því er til að svara að aðildar­spurningin verður ekki út­kljáð með vísan í dægur­mál. Hún er lang­tíma­mál. Þetta er spurning um hvar Ís­land, sem full­valda ríki, vill stað­setja sig í heiminum. Eigum við að vera hálf­gildings aðili að Evrópu­sam­bandinu, eins og við erum í dag, eða eigum við að vera full­gildur þátt­takandi í á­kvörðunum þess.

Við erum bundin af á­kvörðunum Evrópu­sam­bandsins í mörgum veiga­miklum mála­flokkum og erum þátt­tak­endur í flestum sam­starfs­verk­efnum þess án þess að sitja við borðið þar sem á­kvarðanirnar eru teknar. Þetta kallast lýð­ræðis­halli og er verri í EES-ríkjunum Ís­landi, Noregi og Liechten­stein heldur en í Evrópu­sam­bandinu sjálfu. Það er for­ystu­fólk sem kosið er og skipað til verka af borgurum Evrópu­sam­bandsins sem tekur á­kvarðanir sem varða okkur hér á landi miklu.

Eins er evru­spurningin enn­þá vakandi. Sú spurning er líka lang­tíma­spurning. Til langs tíma er lík­legt að það væri Ís­landi hag­fellt að taka upp evru sem gjald­miðil, þar sem það felst mikill kostnaður í því að halda úti minnstu mynt í heimi, sér­stak­lega fyrir heimilin í landinu, sem reglu­lega fá að finna fyrir hinum kröppu sveif lum sem ör­myntin veldur í kaup­mætti og efna­hags­lífi. Að auki má nefna ýmiss konar inn­viða- og byggða­styrki innan Evrópu­sam­bandsins sem Ís­land gæti fengið að­gang að sem harð­býlt jaðar­svæði og sem voru í undir­búningi í aðildar­ferlinu 2009-13. Og það er ekki eins og veiti ekki af því að stór­bæta vega­kerfið og styrkja lands­byggðirnar hér á landi.

En helsti á­vinningurinn til langs tíma felst í því að full­gildur aðili að sam­fé­lagi þeirra þjóða, sem við eigum mesta sam­leið með, til að takast með þeim sem jafningjar á við þær hnatt­rænu á­skoranir sem fram undan eru. Að búa við það skjól sem þessi stærsti og öflugasti sam­eigin­legi vett­vangur ríkja heimsins veitir. Þar er lofts­lags­váin auð­vitað mest að­kallandi um þessar mundir, en Evrópu­sam­bandið er í for­ystu á heims­vísu þegar kemur að við­brögðum við henni. Og þegar kemur að helstu gildum á al­þjóð­legum vett­vangi um lýð­ræði, al­þjóð­legt sam­starf, þróunar­að­stoð og mann­réttindi, þá fara gildi Evrópu­sam­bandsins og Ís­lands al­ger­lega saman.

Ís­land hefur tengst Evrópu­sam­bandinu æ nánari böndum undan­farna ára­tugi. Við erum innan sam­eigin­lega markaðarins og njótum kosta fjór­frelsisins. Við erum innan ytri landa­mæra Evrópu­sam­bandsins (Schen­gen) og tökum fullan þátt í því merka sam­starfi. Við erum á kafi í rann­sóknar- og vísinda­sam­starfi sam­bandsins og við völdum að vera sam­ferða í bar­áttunni við hina nýju ógn, CO­VID-19, þegar við stóðum frammi fyrir spurningunni þar um. Í flestum málum al­þjóð­lega hefur Ís­land kosið að haga sér eins og Evrópu­sam­bands­ríki. En svarið við spurningunni „er Ís­land Evrópu­sam­bands­ríki?“ er „nei, en …“.

Það er kominn tími til, eftir aldar­fjórðung sem aktífur auka­aðili að sam­bandinu, að skrefið inn í það sé tekið til fulls.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 25. mars.