Er Ísland í Evrópusambandinu?

Evrópusambandið er dæmi um að mörg smáríki geta komið saman og náð sem heild mun meiri slagkrafti á alþjóðlegum vettvangi en þau gætu upp á eigin spýtur.

Eins og flestir vita hefur Ísland, ásamt Noregi, verið í samfloti við Evrópusambandið um innkaup á bóluefni fyrir COVID-19. Sitt sýnist hverjum um það og satt best að segja hefur gengið hægar að bólusetja á því svæði en til dæmis í Bretlandi og Bandaríkjum, að ekki sé talað um Ísrael, sem keyrði af öllu afli á Pfizer lyfjafyrirtækið til að fá bóluefni fyrir alla landsmenn á undan öllum öðrum. Þrátt fyrir þetta hefur ítrekað komið fram í máli ráðamanna hér á landi að ákvörðunin að vera í samfloti við Evrópusambandið hafi verið rétt ákvörðun og að Íslandi hefði ekki verið betur borgið ef það hefði verið eitt á báti að semja um kaup á bóluefni. Það er líklega rétt ályktað. Bóluefnið mun koma og forystumenn sambandsins fylgja hagsmunum þess – og okkar – eftir af miklum þunga.
Evrópusambandið er dæmi um að mörg smáríki geta komið saman og náð sem heild mun meiri slagkrafti á alþjóðlegum vettvangi en þau gætu upp á eigin spýtur. Að sama skapi eru stærri ríkin, sem taka þátt í samstarfinu, bundin af samskiptareglum þess og geta síður farið sínu fram eftir eigin geðþótta og án tillits til smærri ríkjanna. Og afl þeirra verður afl smáu ríkjanna einnig.
Þetta er einn af mestu kostum Evrópusambandsins. Álfa, sem áður var vettvangur hryllilegustu stríðsátaka sem mannkynið hefur farið í gegnum, hefur verið býsna friðsamlegur staður síðustu 75 árin eða svo. Hér hefur verið gott að búa.
Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu 2009. Það ferli rann út í sandinn þar sem um það var engin eining innan ríkisstjórnarinnar sem leiddi það. Eftir kosningar 2013 tók svo við ríkisstjórn sem var alfarið á móti aðild að Evrópusambandinu og viðbúið að sú ríkisstjórn drægi sig út úr aðildarferlinu. Síðan tók við hið ótrúlega Brexit ferli, sem tröllreið öllum fréttatímum áður en kórónuveirufaraldurinn yfirtók allt. Og nú er helsta viðskiptaland Íslands, Bretland, gengið úr Evrópusambandinu, með miklum harmkvælum þó.
Það má því kannski segja að undanfarin ár hafi ekki verið augljós tími til taka umræðuna um að endurvekja umsókn um aðild að Evrópusambandinu. En af hverju eigum við þá að vera að nefna þetta mál? Eru einhver rök eftir fyrir því að Ísland taki skrefið til fulls og gangi í Evrópusambandið? Erum við ekki bara í býsna góðri stöðu á hliðarlínunni í EES-samstarfinu?
Því er til að svara að aðildarspurningin verður ekki útkljáð með vísan í dægurmál. Hún er langtímamál. Þetta er spurning um hvar Ísland, sem fullvalda ríki, vill staðsetja sig í heiminum. Eigum við að vera hálfgildings aðili að Evrópusambandinu, eins og við erum í dag, eða eigum við að vera fullgildur þátttakandi í ákvörðunum þess.
Við erum bundin af ákvörðunum Evrópusambandsins í mörgum veigamiklum málaflokkum og erum þátttakendur í flestum samstarfsverkefnum þess án þess að sitja við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Þetta kallast lýðræðishalli og er verri í EES-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein heldur en í Evrópusambandinu sjálfu. Það er forystufólk sem kosið er og skipað til verka af borgurum Evrópusambandsins sem tekur ákvarðanir sem varða okkur hér á landi miklu.
Eins er evruspurningin ennþá vakandi. Sú spurning er líka langtímaspurning. Til langs tíma er líklegt að það væri Íslandi hagfellt að taka upp evru sem gjaldmiðil, þar sem það felst mikill kostnaður í því að halda úti minnstu mynt í heimi, sérstaklega fyrir heimilin í landinu, sem reglulega fá að finna fyrir hinum kröppu sveif lum sem örmyntin veldur í kaupmætti og efnahagslífi. Að auki má nefna ýmiss konar innviða- og byggðastyrki innan Evrópusambandsins sem Ísland gæti fengið aðgang að sem harðbýlt jaðarsvæði og sem voru í undirbúningi í aðildarferlinu 2009-13. Og það er ekki eins og veiti ekki af því að stórbæta vegakerfið og styrkja landsbyggðirnar hér á landi.
En helsti ávinningurinn til langs tíma felst í því að fullgildur aðili að samfélagi þeirra þjóða, sem við eigum mesta samleið með, til að takast með þeim sem jafningjar á við þær hnattrænu áskoranir sem fram undan eru. Að búa við það skjól sem þessi stærsti og öflugasti sameiginlegi vettvangur ríkja heimsins veitir. Þar er loftslagsváin auðvitað mest aðkallandi um þessar mundir, en Evrópusambandið er í forystu á heimsvísu þegar kemur að viðbrögðum við henni. Og þegar kemur að helstu gildum á alþjóðlegum vettvangi um lýðræði, alþjóðlegt samstarf, þróunaraðstoð og mannréttindi, þá fara gildi Evrópusambandsins og Íslands algerlega saman.
Ísland hefur tengst Evrópusambandinu æ nánari böndum undanfarna áratugi. Við erum innan sameiginlega markaðarins og njótum kosta fjórfrelsisins. Við erum innan ytri landamæra Evrópusambandsins (Schengen) og tökum fullan þátt í því merka samstarfi. Við erum á kafi í rannsóknar- og vísindasamstarfi sambandsins og við völdum að vera samferða í baráttunni við hina nýju ógn, COVID-19, þegar við stóðum frammi fyrir spurningunni þar um. Í flestum málum alþjóðlega hefur Ísland kosið að haga sér eins og Evrópusambandsríki. En svarið við spurningunni „er Ísland Evrópusambandsríki?“ er „nei, en …“.
Það er kominn tími til, eftir aldarfjórðung sem aktífur aukaaðili að sambandinu, að skrefið inn í það sé tekið til fulls.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 25. mars.